25. september 2007

gráðostapasta

þessi uppskrift er heimatilbúin:

1 pk gott beikon
1 rauð paprika í bitum

1/2 gráðostastykki og annað eins af brauðosti
1 ds sýrður rjómi
smá sósuþykkjari (maízena)

pasta, helst þrílitir pennar (penne tricolori)
parmaostur

Pastað soðið eftir leiðbeiningum á pakka

Beikonið klippt í bita og steikt á pönnu. Tekið af pönnunni. Megninu af feitinni hellt af (ef einhver) og paprikan steikt á sömu pönnu. Líka tekið af pönnunni. Gráðosturinn og hinn osturinn bræddur, sýrða rjómanum hrært saman við og þykkt örlítið.

Sósunni hellt yfir heitt pastað, beikoni og papriku blandað saman við og nýrifnum parmaosti stráð yfir. Af þessu er mjög milt og fínt gráðostabragð, rétturinn er sérlega vinsæll af börnunum mínum (sem ekki líta við gráðosti í hreinustu mynd)

19. september 2007

undir ítalskri sæng

Þetta er uppskrift úr sænsku vikublaði (minnti mig svolítið á þetta og vona nú að minnið hafi ekki brugðist mér algerlega...):

svínalundir (u.þ.b. 700 gr)
salt og pipar
olía til steikingar
125 g mozzarella
1 dl grilluð paprikka
1/2 basilíkuplanta
1/2 dl valhnetur
2 hvítlauksgeirar

1. Hreinsa lundirnar (fjarlægja himnur og svoleiðis), salta og pipra. Steikja lundirnar í olíunni þangað til þær fá á sig gullinn bjarma. Setja svo í 175° heitan ofn í u.þ.b. 15 mínútur.

2. Brytja mozzarellaostinn niður. Skera paprikkuna í teninga, hakka basilíkuna, hneturnar og hvítlaukinn. Blanda öllu saman. Salta og pipra. Ég jók nú magnið af þessu öllu saman af því mér fannst þetta svo lítið, en það var eiginlega óþarfi.

3. Sneiða lundirnar og leggja í eldfast mót. Hella gumsinu yfir og setja inn í 225° heitan ofn í u.þ.b. 10 mínútur. Ég hellti safanum sem kom af kjötinu yfir allt (af því ég hélt að þetta myndi verða svo þurrt) en ég hefði ekki átt að gera það því þetta varð heldur mikið sull. En það bragðaðist vel.

Við erum svo löt þessa dagana að við átum bara soðnar kartöflur með. Annars er mælt með baunabelgjum og ofnsteiktum kartöflum ...

15. september 2007

Maískólfar í lauksósu

Þessi uppskrift, úr bókinni Curry Lover's Cookbook var prófuð hér í kvöld. Ekki annað um það að segja en að þetta var hrikalega mikið sælgæti. Þurftum að kaupa svolítið af kryddinu til að geta gert þetta, en nú eigum við það...

4 heilir maískólfar, teknir í tvennt (við notuðum frosna hálfa)
olía til steikingar
1 stór laukur
2 hvítlauksrif
5 cm biti af fersku engiferi (þorði ekki, notaði þurrkað)
1/2 tsk túrmerikduft
1/2 tsk laukfræ
1/2 tsk cuminfræ
1/2 tsk fimmkrydd (pae-lo krydd)
6-8 karrílauf (voru ekki til, henti bara smá karríi út í - ekki sama en gott samt)
1/2 tsk hrásykur
200 ml hrein jógúrt
chiliduft eftir smekk

Maukið lauk, hvítlauk, engifer og krydd í mixer, matvinnsluvél eða mortéli.

Steikið maískólfana við góðan hita í olíunni þar til þeir eru farnir að taka lit. Takið kólfana af pönnunni og kælið pönnuna örlítið. Meiri olía sett á pönnuna ef þarf (á að vera um 2 msk. eftir). Sú olía hituð og laukmaukið steikt rólega í 8-10 mínútur, þar til olían skilur sig frá og laukurinn hefur tekið kryddið vel í sig.

Kælið laukblönduna svolítið niður og hrærið jógúrtinni saman við. Setjið maískólfana aftur í sósuna, snúið þannig að þeir séu þaktir sósu eins og hægt er, setjið lok á pönnuna og hitið við mjög vægan hita í 10 mínútur.

Berið fram með naanbrauði og góðum bjór. Það er ekkert salt í uppskriftinni, við vorum með gott salt á borðinu, sumir vildu en aðrir ekki.

5. september 2007

Sólberjabaka frá Alsace

Þessi er árlegur viðburður eftir sólberjatínslu hér á bæ. Mmmmh


Fylling:
250 g fersk sólber (eða önnur ber að vild)
5 msk sykur
1 dl rjómi
1 egg
1 eggjarauða

deig:
50 g smjör
60 g sykur
1 egg
60 g hveiti (gæti þurft meira)

einnig:
1 msk flórsykur
smjör til að smyrja formið

1. Skolið berin og látið renna af þeim. Stráið yfir þau 3 msk af sykri (þarf ekki við minna súr ber). Hitið ofninn í 175°

2. Hrærið vel saman smjöri og sykri. Hrærið egginu saman við og bætið hveitinu síðast við.

3. Smyrjið bökuform, dreifið deiginu jafnt um formið og upp á kantana.

4. Þeytið afganginn af sykrinum, rjóma, egg og eggjarauðu saman í skál. Raðið berjunum á bökubotninn og hellið sykurblöndunni yfir.

5. Bakist um 40 mínútur í miðjum ofni. Látið kólna örlítið og sigtið svolítinn flórsykur yfir.

Fer vel með ís eða þeyttum rjóma

10. ágúst 2007

sveppapasta

ekki beinlínis megrunarfæði en hrikalega gott:

Sveppapasta

100-200 g nýir villisveppir
smá smjör

ferskt óreganó (hellingur)
smá maldon salt
1 tsk púðursykur
1/2 tsk kálfakraftur
1 peli rjómi
1 peli kaffirjómi
örlítið af sósuþykkjara

meira salt ef þarf

Fettucine eða tagliatelle pasta
Nóg af nýrifnum parmaosti

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum.

Steikið sveppina á pönnu í smjörinu ásamt oreganóinu. Myljið yfir smá salt. Hellið rjómanum og kaffirjómanum yfir og látið suðu koma upp. Bætið kálfakrafti og púðursykri við ásamt sósujafnara eftir smekk (ekki gott að þetta verði mjög þykkt). Sjóðið saman smástund.

Látið vatnið renna af pastanu og hrærið sósunni strax saman við. Berið fram með parmaostinum.

2. ágúst 2007

rabarbarabaka

Þessi hefur ekki komið hér fyrr, held ég:

RABARBARABAKA:

2 skeiðar hveiti
1/2 bolli sykur

blanda, setja í eldfast mót

2-3 rabarbarastilkar skornir niður og settir yfir (reyndar betra að rabarbarinn hafi frosið, nóg í 1-2 tíma)

1/2 bolli hveiti
1/2 - haframjöl
1/2 - púðursykur

blandað saman og sett ofan á

1/2 bolli brætt smjör

sett efst.

Bakað í 1/2 klst á 175° c

3. júlí 2007

uppáhalds yams uppskriftin

eða sætar kartöflur eru yams yfirleitt kallaðar, örlítið ónákvæmt þar sem plantan er alls ekkert skyld kartöflum, mun frekar rófum.

allavega...

Þessi uppskrift birtist í Mogganum í fyrrasumar, ef ég man rétt heitir höfundurinn Brynja. Þannig að ekki vil ég eigna mér hana. En góð er hún og passar með hinu og þessu. Notuðum þetta með grilluðu hrefnukjöti á sunnudaginn var.

Fyrir okkur 5 dugar:

2 stór yams
salt
smá ólífuolía

1 box hvítlauksrjómaostur
1 dós sýrður rjómi

Yams skorið í passlega munnbita, sett í eldfast fat, saltað að smekk og ólífuolíu ýrt yfir. Bakað í ofni við 200° í amk. 40 mínútur eða þar til bitarnir eru alveg mjúkir (hálfhart yams er óætt).

Rjómaosti og sýrðum rjóma hrært saman og hrært saman við bakað yams

Í uppskrift Brynju var þetta með grilluðum hamborgurum en synd að nýta þetta ekki oftar. Hins vegar vantar eiginlega almennilegt nafn yfir þetta fyrirbæri. Tillögur óskast.

6. apríl 2007

trúi

ekki að ég hafi aldrei sett hér inn aðalpastaréttinn :-O

Tagliatelle verdi alla Bolognese

úr Hundrað góðar pastasósur eftir Diane Seed

500 g grænt tagliatelle eða eggjapasta
150 g magurt beinlaust svínakjöt
150 g magurt beinlaust nautakjöt
2 msk ólífuolía
80 g smjör
1 meðalstór laukur
1 gulrót
1 leggur sellerí
100 g beikon
50 g nýjar ítalskar pylsur eða hreint pylsukjöt (nota hér pepperóní, helst sterkt)
1 glas hvítvín
1 msk tómatþykkni
1 vínglas af soði
salt, svartur pipar úr kvörn
0,75 dl rjómi
nýrifinn parmaostur (má sleppa)


Hakka kjötið í hnífakvörn (mixer) eða fá það hakkað í versluninni. Hita olíu og 50 g af smjörinu og setja saxaðan lauk, gulrót og sellerí út í ásamt smátt söxuðu beikoni. Láta malla hægt í um 10 mín, bæta þá við kjöti, pylsukjöti án skinns og víni. Sjóðið áfram í 10 mín. og hrærið í öðru hverju. Hræra tómatþykkni út í soð og bæta í pottinn. Hræra og krydda eftir smekk. Sjóða við vægan hita í 1 1/2 klst. Blanda rjómanum saman við og taka síðan pottinn af hitanum, en halda sósunni heitri. Sjóða pasta. Hita sósuna aftur og hræra út í hana smjörið sem eftir varð. Láta renna af pastanu, setja á heitt fat og bæta sósu við.
Þessi réttur er oft borinn fram án þess að sósu og pasta sé blandað saman, heldur er sósan höfð í pastanu miðju. Sennilega er best að bera réttinn þannig á borð í allri sinni dýrð, en hræra vel áður en skammtað er á diskana. Þeir sem vilja hafa ostinn með

18. febrúar 2007

gítarpasta

nei, þetta eru ekki soðnir gítarstrengir, en gott er það.



Nú fæst chitarrapasta í Frú Laugu, húrra!

1,25 kg lambakjöt
1 1/4 bolli hvítvín
salt og nýmalaður pipar
1 bolli jómfrúrólífuolía
4 hvítlauksrif, léttpressuð með hnífsblaði
5 lárviðarlauf
1 kíló tómatar, afhýddir og grófsaxaðir eða 2 dósir tómatar
6 stórar paprikur, (blandaðir litir) skornar í ræmur (við notum nú minna, tvær í dag)
2 bollar gott soð
650 g gítarpasta/spakettí
fullt af nýrifnum parmaosti

Skerið hluta lambakjötsins í fallega bita og hakkið afganginn. Skolið kjötið upp úr víninu (geymið vínið) og kryddið með salti og pipar. Hitið olíuna í stórri þykkbotna pönnu og steikið hvítlaukinn og lárviðarlaufin við meðalhita. Takið hvítlaukinn upp úr þegar hann hefur brúnast og bætið kjötinu og hakkinu á pönnuna og brúnið. Hellið víninu saman við og sjóðið niður. Takið lárviðarlaufin úr pönnunni og hendið þeim. Bætið tómötunum (með safa ef notið niðursoðna) og paprikustrimlunum á pönnuna. Kryddið með salti og pipar og setjið lok á pönnuna. Sjóðið við lægsta hita í 2 klst, hrærið af og til. Fylgist vel með réttinum og bætið soði við ef hann lítur út fyrir að vera að þorna.

Berið fram með pastanu og parmaostinum.

verðykkuraðgóðu.

4. febrúar 2007

þorskur í raspi

Áttum ekki brauðrasp svo ég muldi þrjár heilhveititvíbökur í morteli.

útí þetta fór(u) svo:

4 hvítlauksrif
hálft rautt chili (saxað mjög smátt)
hnefafylli af casew- og jarðhnetum (sem ég marði í mortelinu)
dágóður slatti af grada padano
salt og pipar
tvær teskeiðar af kumminfræjum

Blandaði saman einu eggi, skvettu af mjólk og smá balsamediki og dýfði þorskinum ofaní áður en ég velti honum uppúr raspinu.

Steikti í stutta stund á mjög heitri pönnu, setti í eldfast mót og inní ofn undir álpappír í korter.

25. janúar 2007

jei

ég kemst inn á brallið, liggaliggalái :-D

Hvað á ég að setja inn? brása uppskriptasafnið...

Uppáhalds súkkulaðikakan okkar. Kremið sérlega gott og kakan þvílíkt safarík. Mhmmm

125 ml heitt svart kaffi
50 g kakóduft
275 g púðursykur
125 g mjúkt smjör
3 egg, aðskilin
1 tsk (5 ml) salt
- - vanillusykur
- - sódaduft
150 ml sýrður rjómi (má vera 10%)
225 g hveiti, sigtað
125 g sykur

225 ml rjómi, þeyttur

Krem:
125 g suðusúkkulaði
150 ml sýrður rjómi
3 msk (45 ml) flórsykur, sigtaður


Blandið saman kaffi og kakódufti. Takið helminginn af hrærunni frá, og þeytið með púðursykri, smjöri, eggjarauðum, salti og vanillusykri. Blandið saman sýrða rjómanum og sódaduftinu, bætið saman við deigið, ásamt afganginum af kakó/kaffiblöndunni og hveitinu. þeytið eggjahvíturnar í mjúkt krem, bætið síðan sykrinum við, og þeytið þar til stíft og glansandi. Blandi› varlega saman við deigið.
Setjið deigið í vel smurt kökuform (ca. 23 cm). Bakið við 180° í 1 til1 1/4 klst, eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur út hreinn. Kælið á grind.
Krem: Bræðið súkkulaðið, kælið aðeins. þeytið saman súkkulaði, sýrðan rjóma og flórsykur.
Skerið kökuna í tvo botna, þekið neðri botninn með þeytta rjómanum, setjið hinn ofan á. Smyrjið kreminu ofan á kökuna og á hliðarnar.

27. október 2006

Klunsentårta

Klunsen á afmæli að minnsta kosti einusinni í mánuði. Þá er gerð Klunsentårta:

1 þrískiptur tertubotn
1/2 peli rjómi
jarðarberjasultutau
vanillukrem
vínber/kíví til skreytinga
tertuskraut

Jarðarberjasultutauinu er smurt á neðri hæðina en vanillukreminu á þá efri. Skreytt með þeyttum rjóma, vínberjum/kíví og tertuskrauti.

7. ágúst 2006

þistilhjartnakaramellur

gerðum frábæran forrétt í gær, talsvert maus, reyndar en vel þess virði. Sló líka þokkalega í gegn. Heimalagað pasta, fyllt með þistilhjörtum og ostakremi:

Pasta: (uppskrift frá Nönnu)

300 g. hveiti, meira ef þarf
4 egg (gefur reyndar upp 3, en það munar mjög miklu að bæta við því fjórða við)
1 msk olía
1/2 tsk salt

Hveitið sigtað á vinnuborð og laut gerð í miðjuna. Eggin brotin og sett í lautina ásamt olíu og salti. Hrært og síðan er farið að blanda hveitinu smátt og smátt saman við með fingrunum en þess gætt vel að eggin renni ekki út úr lautinni og yfir vinnuborðið. Haldið áfram þar til búið er að vinna allt hveitið inn í deigið; gott er að nota spaða eða sköfu til að skrapa upp deig sem klessist við vinnuborðið. Deigið hnoðað vel þar til það er silkimjúkt og teygjanlegt. Mótað í kúlu, skál hvolft yfir og látið standa við stofuhita í um hálftíma. Þá er deigið flatt út á hveitistráðu borði, helst með löngu og mjóu kökukefli. Flatt út eins þunnt og hægt er, annaðhvort í lengjur eða eina stóra plötu. Þegar það er orðið álíka þykkt og póstkort er það lagt yfir prik og látið þorna örlítið.

Við fletjum reyndar út í pastavél, það er auðveldara, en þetta er ss. alveg hægt án þess að eiga slíka græju.

(síðast þegar við gerðum þessa uppskrift ætluðum við að flýta fyrir okkur og kaupa tilbúnar lasagnaplötur. Stór mistök, Jón Lárus byrjaði að búa til pastað þegar gestirnir voru komnir á staðinn og forréttur var ekki borðaður fyrr en um níu. Stress dauðans!)

Fylling:

4 fersk þistilhjörtu
1 laukur, saxaður
250 g ricottaostur
50 g parmaostur
2 1/2 dl gott soð
1 egg
smjör til steikingar
sítróna
salt

smjör
fersk salvía

Skerið blöðin utan af þistilhjörtunum (ath, ekki henda blöðunum, þau má sjóða sér og borða innihaldið með hollandaisesósu. Mmm!) Skerið hjörtun í átta bita hvert og geymið í vatni með sítrónu til að varna þess að þau dökkni um of. Laukurinn mýktur í smjörinu, hjörtun sett saman við ásamt soðinu og látið malla þar til þau eru passlega mjúk (10-15 mínútur).

Eggið þeytt, ricotta og rifnum parmaosti bætt saman við.

Samsetning:

Skerið pastadeig í ferninga, (um það bil 10*7 cm). Setjið einn bita af þistilhjarta á ferning ásamt lauk og ostablöndu. Leggið annað blað yfir fyllinguna, þrýstið jöðrunum saman og snúið upp á endana til að búa til karamellur.

Sjóðið í nægu vatni í 2 mínútur, eða þar til karamellurnar fljóta upp

Borið fram með bræddu smjöri með fullt af ferskri salvíu klipptri saman við, og meiri parmaosti.

10. júlí 2006

raita

hálf röspuð gúrka (þegar maður er búinn að raspa hana kreistir maður safann úr gumsinu)
2-3-4 dl hreint jógúrt (eftir smekk)
1 hvítlauksrif
safi úr hálfu læmi
smá chiliduft

ég poppa svo nokkur kumminfræ á snarpheitri eldavélarhellunni og myl þau yfir.

grænmetistikka

það er eiginlega ekki til nein uppskrift .... bara ímyndunarafl ... og smá g&t
Það er hægt að nota hvaða grænmeti sem er og ef maður er í þannig skapi má alveg skella kjúkling saman við.

Ég nota mikið af kryddi. Mjög mikið.

Grænmeti (t.d. 6-8 kartöflur, 1 laukur, 2 lítil fennel, 2 gulrætur, 1 zuccini, 1/2 blómkálshaus, 1 paprikka, 1-2 rauð chili)
sex vel þroskaðir tómatar
nokkrar matskeiðar af tikkapeist, eða bara einhverju karrípeist
2-3 dl af hreinu jógúrti
kumminfræ
haldi/túrmerik/gúrkmeja
kóriander
sinnepsfræ
garam masala
1 dl vatn

Þessi uppskrift dugir fyrir 6-8 (og þá er smá afgangur daginn eftir)

Hita krydd í olíu og smjöri á pönnu. Steikja grænmeti í hollum og færa yfir í mjög stóran pott. Sulla peistinu og jógúrtinu yfir. Brytja tómatana í mjög litla bita og setja útí ásamt með smá vatni. Láta malla í klukkutíma.

kjúklingabaunakarrí

þetta er líka eftir mjög grófu minni

tvær dósir af kjúklingabaunum
ca. 400 grömm af hökkuðum tómötum úr dós (ekki nota eitthvað drasl með kryddi í ... ég var eitthvað utanvið mig þegar ég var útí búð og keypti eitthvað með ítölsku kryddi og hvítlauk ... viðbjóður!!!)
tveir stórir laukar
fjögur hvítlauksrif
engifer (u.þ.b. 1 teskeið, ég notaði eina matskeið)
kumminfræ eftir smekk
2 tsk haldi/túrmerik/gúrkmeja
1 tsk garam masala
1 tsk kóriander
1 tsk chiliduft

hita olíu og smá smjörklípu í meðalstórum potti (betra að nota ghee, náttúrlega), hita kummin,haldi,garam masala duglega og lækka hitann, svissa laukinn þar til hann er mjúkur, ekki brúnn ... bæta hvítlauk, engifer, kóriander, chili út í og svo kjúklingabaununum (muna að hella safanum af fyrst) og tómötunum.

láta malla á lágum hita í 15 mín, voilà!

dhal

nú voru góð ráð dýr, laukur í uppskriftinni en enginn í ísskápnum ... þá var notað blómkál í staðinn

og þetta er eftir mjög grófu minni

3 dl rauðar linsur
5 dl vatn
blómkálshaus
duglega af hvítlauk og engifer
kummin steytt úr hnefa
sletta af haldi/túrmeriki/gúrkmeju eða hvað það nú heitir þetta appelsínugula og kórianderdufti
smjör og olía (náttúrlega best að nota ghee)
salt eftir þörfum og ögn af sykri

skola linsur og hreinsa burt skemmdar ... láta liggja í vatni meðan blómkálið er steikt
smjörklípa og skvetta af olíu hitað duglega í meðalstórum potti (bara passa að það kvikni ekki í olíunni)
kumminfræin, haldiið og kórianderið hitað þar til kumminfræin byrja að poppa.
taka pottinn af hellunni og skella blómkálinu út í og hræra duglega. þegar hitinn hefur jafnað sig má bæta engiferinu og hvítlauknum út í ... steikja saman smá.
hella vatninu af linsunum, skella þeim yfir blómkálið saman með 5 dl af vatni.
láta suðuna koma upp og láta svo malla rólega í u.þ.b. 15 mínútur. Hræra í af og til.
Síðustu fimm mínúturnar verður maður að standa yfir pottinum því allt heila klabbið getur auðveldlega brunnið við.

Svo lætur maður þetta jafna sig í pottinum, hrærir af og til, og saltar eftir smekk.
Það þarf ekkert að sykra, en 1/4-1/2 teskeið gerir reyndar gæfumuninn.

Þetta má standa á bekknum í klukkutíma áður en maður borðar, annars má líka alveg hita upp.

staðið við minn hluta dílsins

hér kemur laxinn úr afmælisboði helgarinnar, uppskriftin var í mogga allra landsmanna og alveg svakalega góð:

Lax í kryddlegi
f. 4

laxasneiðar, ca 1 á mann.

lögur:
1/2 dl ólífuolía
1 msk hvítvínsedik
1 msk dijon sinnep
1 msk sætt sinnep
2 hvítlauksrif marin
1 tsk nýmalaður svartur pipar
1 msk ferskt estragon (1 ein tsk þurrkuð)

blandið öllu saman og leggið laxinn í löginn í um það bil hálftíma og grillið svo við meðalhita í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

með þessu sauð ég brún hrísgrjón og gerði sósu úr sýrðum rjóma, dijon sinnepi, hunangi, smá maldon salti og fersku estragoni. Í mogganum var mælt með grilluðum bökunarkartöflum með guacamole með þessu en ég nennti því nú ekki oní svona margt fólk. Svo hafði ég fermingarsalatið hennar Hildigunnar, vínin voru cloudy bay chardonnay og svo gott Chablis og í desert þetta hér. Ekkert nema snilldin ein.

17. maí 2006

Fermingarkjúklingur

nei, ég er nú ekki að tala um 14 ára gamla hænu, bara kjúklingaréttinn sem við buðum upp á í fermingarveislunni miklu um daginn. Þekktur réttur, margir prófað en ef ekki...


Kjúklingalæri, steikt í stutta stund á pönnu.

1 p rjómi
1 dl aprikósumarmilaði
1-1 1/2 dl barbekjúsósa (Hunt's Original)
1/2 dl sojasósa
smá púðursykur

allt hrært saman í potti við smá hita
hellt yfir kjúklinginn

steikja í ofni við 180-200 í 1 klst

berist fram með hrísgrjónum og góðu salati að eigin vali.

Einu sinni sem oftar, þegar við vorum að kaupa inn fyrir þennan rétt var Freyja með okkur í búðinni. Jón kallar yfir til mín hvort við eigum barbekjúsósu. Freyja hváir við: BARBÍKJÖTSÓSU???

18. apríl 2006

salatið

var beðin um uppskriftina að salatinu úr fermingarveislunni miklu. Kemur hér án uppgefinna magna. (sic)

ferskt spínat
vel þroskað avocado
sítróna
furuhnetur
parmaostur

Spínatil skolað og sett í skál, avocado skorið í bita, sítróna kreist yfir til að kjötið dökkni ekki. Furuhnetur ristaðar á pönnu og hellt yfir, parmaostur skorinn í frekar stórar flögur og dreift yfir í lokin.

Ég var ekki með neina sósu en það mætti náttúrlega skvetta yfir þetta smá af góðu balsamediki. Hefði sjálf kosið að krydda avocadoið örlítið, jafnvel bara pínu salt. En þetta var annars nokkuð gott, bara.