4. maí 2013

kjúklingur í hvítvíni, salvíu og beikoni

Átti nokkrar pylsumeistara-beikonsneiðar í afgang síðan um daginn og salvíu sem ég var ekki nógu dugleg að vökva í eldhúsglugganum og var farin að þorna og fór því í uppskriftaleit á netinu. Fann enga sem hentaði mér algjörlega svo þessi er staðfærð úr nokkrum uppskriftum. Mjög gott! Hér er uppskriftin:

8 kjúklingalæri (það væri örugglega allt í lagi að velta bitunum upp úr hveiti! prófa það næst)
3 hvítlauksgeirar smátt saxaðir (væri ekki verra að vera líka með niðurskorinn skalottulauk.. prófa það næst! ;) )
2 msk góð ólífuolía
2 msk smjör
salt og pipar
150 ml þurrt hvítvín
250 ml kjúklingasoð (úr hálfum góðum teningi)
150 gr beikon saxað smátt
nokkur blöð af ferskri salvíu (10-15 eftir stærð) saxaðri gróft
3 msk nýkreistur sítrónusafi
1 tsk hlynsíróp

Meðlæti: risotto, polenta eða pasta t.d. tagliatelle

Bræðið smjörið saman við olíuna, stillið á miðlungshita og svitið hvítlaukinn í nokkrar mínútur. Saltið og piprið kjúklingalærin og steikið í hvítlauksolíunni í 8 mínútur á skinnhliðinni og 5 mínútur á hinni. Hellið svo hvítvíninu og soðinu yfir og látið sjóða niður í nokkrar mínútur. Veiðið kjúklinginn upp úr og hellið megninu af vökvanum af pönnunni í ílát og geymið, brúnið svo beikonið og salvíuna upp úr afgangnum af vökvanum á pönnunni í nokkrar mínútur.

Setjið lærin aftur á pönnuna, brúnið í 2-3 mín og setjið svo vökvann yfir. Látið malla í klukkutíma við lágan hita með lokið á, þó þannig að það sé svolítil rifa á milli.

Þegar kjúklingurinn er fulleldaður, veiðið hann þá upp úr, skellið sítrónusafanum og hlynsírópinu út á pönnuna og hrærið saman við sósuna. 

Undirbúið meðlætið, ef þið notið pasta eins og ég gerði, er gott að velta pastanu upp úr vökvanum á  pönnunni áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með nýrifnum parmigiano osti.





1 ummæli:

Hildigunnur sagði...

Þetta var hörkugott, þurfti að steikja í tvennu lagi og það gerði ekkert til. Hveitihúðaði bitana (notaði bæði læri og leggi) og það var fínt, þykkti sósuna síðan pínulítið í viðbót svo hún tylldi betur við pastað. Takk fyrir okkur :)