28. febrúar 2010

Bananapönnukökur

1 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1 msk sykur
1/4 tsk salt

2 msk brætt smjör
1 egg
2 vel þroskaðir bananar
1/2 tsk vanilludropar
1 bolli mjólk

blandið þurrefnunum saman í eina skál og í stærri skál hrærið saman mjólk, eggi, smjöri, stöppuðum banönum og vanilludropum. Hrærið hveitiblöndunni saman við hina, deigið á að vera kekkjótt.

steikið við miðlungshita upp úr smjöri, ég nota ca hálfan bolla í hverja pönnuköku. Gott er að vera með disk í volgum ofni til að setja pönnukökurnar á til að halda þeim heitum. Berið fram með hlynsírópi.

Cantucci di Giorgia

Þetta er uppskrift að cantucci (eða biscotti, eða eitthvað) sem ég fékk frá kunningjakonu í Róm, Giorgiu. Amma hennar bakar þetta, en uppskriftin er upprunalega frá Toscana.

500 g hveiti
300 g sykur
100 g brætt smjör
300 g afhýddar möndlur
4 egg (+ eitt til að pensla með)
Salt á hnífsoddi
1 msk lyftiduft
Raspað hýði af einni sítrónu
2 skeiðar af áfengi (ef vill)

Ristið möndlurnar í ofninum í nokkrar mínútur og grófhakkið (það má líka hafa þær heilar). Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið eggjarauðurnar og sykurinn saman. Siktið hveiti í skál og bætið lyftidufti, salti út í og svo smám saman eggjahrærunni og smjörinu. Hrærið allt í höndunum þangað til degið er mjúkt og slétt. Bætið möndlunum saman við og hrærið þangað til degið er mjúkt aftur.

Búið til lengjur (2-3sm í þvermál) og leggið á bökunarplötu með pappír.

Bakið lengjurnar í ofni í 15 mín á 180°C (í miðjum ofninum). Að því loknu á að skera lengjurnar í ca. 1,5cm breiðar sneiðar.

Ristið kexin í 25 mínútur á 150°C. Snúið þeim síðustu fimm mínúturnar. Þau eiga að verða gullinbrún.

Kælið kexin og látið standa í 20 tíma áður en þeirra er neytt (með Vin Santo).

Ég sullaði nú bara öllu saman í plastskál og hrærði saman. Þetta varð hálfklessulegt og ljótt á bökunarplötunni svo ég er viss um að amma hennar Giorgiu hefði fengið hjartaáfall ef hún hefði séð þetta hjá mér ...

11. febrúar 2010

lambalæri frá Mughlai - eða Raan

Þá erum við búin að finna - tja annan tveggja indverskra uppáhaldsrétta, vinur okkar hafði lengi talað um raan lambalæri og svo fundum við það í karríbókinni góðu sem Óli bróðir gaf okkur einu sinni í jólagjöf. Undir nafninu Mughlai-style leg of lamb, það var í undirtexta sem Raan var nefnt.

Hér er allavega uppskriftin:

4 stórir laukar, hakkaðir
4 hvítlauksrif
5 cm stykki ferskur engifer, rifinn (notuðum duft reyndar - engiferóþol mitt)
3 msk hakkaðar möndlur
2 tsk cumin
2 tsk kóríanderkrydd
2 tsk túrmerik
2 tsk garam masala
4-6 grænir chiliávextir eða eftir smekk
safi úr einni sítrónu
3 dl hreint jógúrt
1 gott lambalæri (um 2 kg)
8-10 negulnaglar
salt
1 msk möndluflögur til skrauts
4 ferskir tómatar


Setjið fyrstu 10 atriði listans í matvinnsluvél eða blandara ásamt salti eftir smekk og hakkið í slétt mauk. Bætið jógúrti við smátt og smátt og hrærið á milli.

Smyrjið stóran steikarpott.

Hreinsið mestu fituna og skinnið af lærinu. Stingið djúpa vasa í kjötið meðfram beininu sitt hvoru megin, þar sem þykkasti hlutinn er, skerið síðan tvo skurði á ská, báðum megin í þykka hlutann. Stingið negulnöglunum á kaf hér og þar í kjötið. Smyrjið kryddblöndunni í vasana og skurðina á kjötinu og afganginum yfir kjötið. Leggið lærið í steikarpottinn og lokið (má loka með álpappír).

Leyfið að standa í 2-3 klukkutíma áður en eldað er.


Hitið ofninn í 190° C. Setjið kjötið inn og leyfið að steikjast í 2 - 2 1/2 klst eða þar til kjötið er fulleldað. Takið lokið eða álpappírinn af síðustu 10 mínúturnar af steikingartímanum.

Takið kjötið út þegar það er fulleldað, stráið möndluflögum yfir og leyfið að standa í 10 mínútur áður en skorið er í kjötið.

Berið fram með grilluðum tómötum (við hentum þeim bara út í pottinn þessar síðustu 10 mínútur eftir að lokið var tekið af, það kom mjög vel út)

Svo má auðvitað hafa naan og rætu með.