20. nóvember 2011

píadínur

Uppáhalds ítalski skyndibitinn okkar, ættaður frá Emilia Romagna. Þaðan kemur líka tagliatelle bolognese sem hér hefur áður birst, alveg bara besti pastaréttur í heimi imnsho.

450 g hveiti (helst durumríkt, notum yfirleitt Pillsbury's, það dugar þó til séu betri)
110 g svína- eða andafita
smá salt
2-3 dl volgt vatn

Feitin og hveitið mulið saman ásamt salti, hraukað upp og laut búin til í miðju hrúgunnar, um 1 dl af vatninu hellt saman við og hnoðað. Vatni bætt við eftir þörfum, þar til deigið hættir að loða við hendurnar.

Deiginu skipt í 12 hluta, hver hluti flattur út og steiktur á sléttri pönnu (við erum með sérstaka píadínupönnu en það má vel steikja þetta á pönnukökupönnunni - ég hugsa að það fari ekki með viðloðunina á pönnunni). Steikt við miðlungshita þar til brúnir flekkir hafa myndast, yfirleitt myndast bólur á kökunum og þá er passlegt að snúa þeim við.

Við erum yfirleitt með tvenns konar fyllingar, annars vegar parmaskinku, mozzarella og klettasalat og hins vegar gullost og hunang, en auðvitað má setja allt sem hugurinn girnist í kökurnar. Fyllingin er sett á helming kökunnar, hinn brotinn yfir og kakan steikt í 3 mínútur (eða þar til osturinn er bráðinn) undir loki á lægsta hita.