gerðum frábæran forrétt í gær, talsvert maus, reyndar en vel þess virði. Sló líka þokkalega í gegn. Heimalagað pasta, fyllt með þistilhjörtum og ostakremi:
Pasta: (uppskrift frá Nönnu)
300 g. hveiti, meira ef þarf
4 egg (gefur reyndar upp 3, en það munar mjög miklu að bæta við því fjórða við)
1 msk olía
1/2 tsk salt
Hveitið sigtað á vinnuborð og laut gerð í miðjuna. Eggin brotin og sett í lautina ásamt olíu og salti. Hrært og síðan er farið að blanda hveitinu smátt og smátt saman við með fingrunum en þess gætt vel að eggin renni ekki út úr lautinni og yfir vinnuborðið. Haldið áfram þar til búið er að vinna allt hveitið inn í deigið; gott er að nota spaða eða sköfu til að skrapa upp deig sem klessist við vinnuborðið. Deigið hnoðað vel þar til það er silkimjúkt og teygjanlegt. Mótað í kúlu, skál hvolft yfir og látið standa við stofuhita í um hálftíma. Þá er deigið flatt út á hveitistráðu borði, helst með löngu og mjóu kökukefli. Flatt út eins þunnt og hægt er, annaðhvort í lengjur eða eina stóra plötu. Þegar það er orðið álíka þykkt og póstkort er það lagt yfir prik og látið þorna örlítið.
Við fletjum reyndar út í pastavél, það er auðveldara, en þetta er ss. alveg hægt án þess að eiga slíka græju.
(síðast þegar við gerðum þessa uppskrift ætluðum við að flýta fyrir okkur og kaupa tilbúnar lasagnaplötur. Stór mistök, Jón Lárus byrjaði að búa til pastað þegar gestirnir voru komnir á staðinn og forréttur var ekki borðaður fyrr en um níu. Stress dauðans!)
Fylling:
4 fersk þistilhjörtu
1 laukur, saxaður
250 g ricottaostur
50 g parmaostur
2 1/2 dl gott soð
1 egg
smjör til steikingar
sítróna
salt
smjör
fersk salvía
Skerið blöðin utan af þistilhjörtunum (ath, ekki henda blöðunum, þau má sjóða sér og borða innihaldið með hollandaisesósu. Mmm!) Skerið hjörtun í átta bita hvert og geymið í vatni með sítrónu til að varna þess að þau dökkni um of. Laukurinn mýktur í smjörinu, hjörtun sett saman við ásamt soðinu og látið malla þar til þau eru passlega mjúk (10-15 mínútur).
Eggið þeytt, ricotta og rifnum parmaosti bætt saman við.
Samsetning:
Skerið pastadeig í ferninga, (um það bil 10*7 cm). Setjið einn bita af þistilhjarta á ferning ásamt lauk og ostablöndu. Leggið annað blað yfir fyllinguna, þrýstið jöðrunum saman og snúið upp á endana til að búa til karamellur.
Sjóðið í nægu vatni í 2 mínútur, eða þar til karamellurnar fljóta upp
Borið fram með bræddu smjöri með fullt af ferskri salvíu klipptri saman við, og meiri parmaosti.
7. ágúst 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli