Þessi uppskrift, úr bókinni Curry Lover's Cookbook var prófuð hér í kvöld. Ekki annað um það að segja en að þetta var hrikalega mikið sælgæti. Þurftum að kaupa svolítið af kryddinu til að geta gert þetta, en nú eigum við það...
4 heilir maískólfar, teknir í tvennt (við notuðum frosna hálfa)
olía til steikingar
1 stór laukur
2 hvítlauksrif
5 cm biti af fersku engiferi (þorði ekki, notaði þurrkað)
1/2 tsk túrmerikduft
1/2 tsk laukfræ
1/2 tsk cuminfræ
1/2 tsk fimmkrydd (pae-lo krydd)
6-8 karrílauf (voru ekki til, henti bara smá karríi út í - ekki sama en gott samt)
1/2 tsk hrásykur
200 ml hrein jógúrt
chiliduft eftir smekk
Maukið lauk, hvítlauk, engifer og krydd í mixer, matvinnsluvél eða mortéli.
Steikið maískólfana við góðan hita í olíunni þar til þeir eru farnir að taka lit. Takið kólfana af pönnunni og kælið pönnuna örlítið. Meiri olía sett á pönnuna ef þarf (á að vera um 2 msk. eftir). Sú olía hituð og laukmaukið steikt rólega í 8-10 mínútur, þar til olían skilur sig frá og laukurinn hefur tekið kryddið vel í sig.
Kælið laukblönduna svolítið niður og hrærið jógúrtinni saman við. Setjið maískólfana aftur í sósuna, snúið þannig að þeir séu þaktir sósu eins og hægt er, setjið lok á pönnuna og hitið við mjög vægan hita í 10 mínútur.
Berið fram með naanbrauði og góðum bjór. Það er ekkert salt í uppskriftinni, við vorum með gott salt á borðinu, sumir vildu en aðrir ekki.
15. september 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli