21. nóvember 2008

uxahalasúpa

Svona í tilefni af því að ég fékk ekki uxahala á tilboði í Nóatúni, út af frekum hömstrurum (grr) er ég að hugsa um að skella uppskriftinni hér inn.

1 1/2 kíló uxahalar (svona um það bil)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
1/2 sellerístöngull
50 g smjör eða olía
um 2 l vatn
1 msk tómatkraftur (purée)
1 tsk paprikukrydd
salt og pipar

Kryddvöndur:

steinselja
timjan
lárviðarlauf
bundið saman með sláturgarni

1/2 dl. sérrí eða þurrt madeira (ég sleppi þessu alltaf)


Gróffituhreinsið halabitana ef þeir eru mjög feitir. Hakkið laukana og hvítlaukinn smátt og skerið gulrætur og sellerí í fremur litla bita. Hitið smjörið eða olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana á öllum hliðum. Takið upp úr pottinum og steikið laukinn þar til hann er gullinn, setjið þá hvítlauk, gulrætur og sellerí saman við og steikið í smástund í viðbót. Kjötbitarnir settir aftur í pottinn, kryddað með salti, pipar og papriku. Hellið vatni í pottinn svo fljóti yfir, setjið tómatkraft og kryddjurtir saman við. Hitið að suðu, hreinsið aðeins ofan af gromsið sem flýtur upp, lækkið hitann og látið súpuna malla í um 4 klukkutíma. Kjötið á að falla alveg af beinunum.

Smakkið til með salti, pipar og víni ef vill og látið sjóða í 10 mínútur til (ef þið notið vín)

Takið kjötbitana úr pottinum og hreinsið kjötið af beinunum, setjið það aftur í pottinn. Hitið aftur að suðu og berið fram sjóðheita. Ekki er verra að hafa heitt brauð með.

Alveg uppáhalds kjötsúpan okkar hér heima...

17. nóvember 2008

lasagna

hæ allir, gerði svo rosalega gott lasagna í gær að ég ætla að henda því hér inn.. kjötsósan er staðfærð frá Nönnu Rögnvaldar en restin er mín!

Lasagna:

Kjötsósa:
500 gr nautahakk
1 gulrót
1 sellerístöngull
1 laukur
4 hvítlauksrif
1 grein ferskt rósmarín
Smávegis ferskt timian (bara af því ég átti það, má alveg vera þurrkað)
1 msk þurrkað oregano
1 tsk ítölsk kryddblanda
2 tsk sykur
2 tsk maldonsalt
3 lárviðarlauf
Slatti af nýmöluðum pipar
2 dósir tómatar
1 dós tomato puree
2 msk ólífuolía
Vatn eftir þörfum

Ostasósa:
2 msk smjör
2 msk hveiti
500 ml léttmjólk
1 msk philadelfia light
150 gr rifinn mozzarella ostur
½ tsk Maldon salt
múskat á hnífsoddi
Nýmalaður pipar

Lasagna plötur eftir þörfum
rifinn parmigiano reggiano
50 gr rifinn mozzarella ostur

Aðferð:
Maukið saman lauk, hvítlauk, gulrót, sellerí og fersku kryddjurtirnar og steikið í olíunni í nokkrar mínútur, bætið svo hakkinu og þurrkaða kryddinu út í og brúnið. Bætið svo tómötunum, saltinu, sykrinum, lárviðarlaufunum og piparnum og svolitlu vatni út í, lokið og látið malla í 3 klukkutíma minnst.

Hitið mjólkina í litlum potti, bræðið smjörið og bætið hveitinu út í og hrærið svolítinn tíma saman. Hellið svo mjólkinni saman við og leyfið aðeins að þykkna, bætið þá ostinum út í og kryddið.

Takið stórt ferkantað eldfast fat og leggið lasagnað í þessari röð, ostasósa, lasagnaplötur, ostasósa, kjötsósa, parmigiano reggiano, lasagnaplötur, ostasósa osfrv. Endið á lasagnaplötum, setjið ostasósu efst og dreifið restinni af rifna mozzarellaostinum ofan á.
Inn í ofn við 200° í 20 mínútur. Gott að hafa salat með og hvítlauksbrauð ef vill.

6. nóvember 2008

mokka créme brulée

Lengi verið meiningin að gera svona mokka créme brulée, fengum slíkt fyrir óratíma á Grillinu, margoft gert vanillu créme brulée síðan, einu sinni prófað uppskrift að kaffiútgáfu, úr eftirréttabók Hagkaupa, minnir mig, hún var glötuð.

Ákváðum að búa til eigin útgáfu, tókum uppskriftina frá henni Nönnu og skiptum hluta mjólkurinnar út fyrir níðsterkt kaffi. Tókst snilldarvel, þetta verður bókað á fastalistanum héðan í frá.

Hér kemur hún (vona þetta sé í lagi, Nanna):

250 ml rjómi
200 ml mjólk
50 ml sterkt lagað kaffi
1 vanillustöng
100 g sykur
4 eggjarauður

hrásykur

Ofninn hitaður í 150 gráður og vatn sett í ofnskúffuna. Vanillustöngin er soðin í rjómanum og mjólkinni ásamt helmingnum af sykrinum, kaffinu hellt saman við og blandan kæld smá. Rauðurnar þeyttar ljósar og léttar með afganginum af sykrinum. Vanillustöngin tekin upp úr og rjómablöndunni hellt smám saman saman við eggin og sykurinn. Hellt í lítil eldföst mót sem bökuð eru í vatnsbaði þar til búðingurinn hefur stífnað. Kælt vel.

Hrásykri stráð yfir og hann bræddur undir grilli eða með gasbrennara þar til hann brúnast vel. Borið strax fram, þá er sykurinn stökkur.

2. nóvember 2008

helgi svínsins - ananasrjómakarrísneiðar

vorum í svínakjötsstuði þessa helgi, á föstudaginn var keyptum við hnakkasneiðar á 50% afslætti í Krónunni, ljómandi fínt kjöt, rifjuðum upp gamla uppskrift.

Ananas-rjóma-karrí-svínakjöt:

4 góðar sneiðar svínahnakki eða annað að eigin vali
örlítið smjör eða olía
1 lítil dós ananas í bitum
1 peli rjómi
karrí
salt
pipar

Bræðið smjörið á pönnu, setjið karrí saman við og steikið sneiðarnar, 2 mínútur á hlið við góðan hita, síðan 4 mínútur á hlið við vægan hita. Kryddið með salti og pipar. (fer auðvitað eftir þykkt sneiða). Þegar steikingu er lokið, takið kjötið af pönnunni og haldið því heitu. Hellið rjóma og ananas ásamt safa í pönnuna (má minnka safann svolítið, ef vill). Smakkið til með meira karríi, salti og pipar. Sjóðið þar til sósan þykknar örlítið (ekkert betra að hafa þessa sósu þykka)

Berið fram með hrísgrjónum, gott salat sakar ekki heldur.

Svo verðum við með kóksvínið á eftir...

21. október 2008

ólífubrauð

Samkvæmt beiðni, stolið hér upp úr elstu Ostalystarbókinni:

Dugar í 2 brauð

50 g pressuger eða 1 bréf þurrger
6 dl vatn
1/2 dl matarolía (nota ólífuolíu - ekki jómfrúrvaríantinn, óþarfi)
2 tsk salt
950 g hveiti
200 g rifinn ostur (stendur 125 g í uppskrift)
110 g fylltar grænar ólífur

Myljið gerið/hellið þurrgeri í skál. Hitið vatnið í 37°, hellið saman við gerið og hrærið þar til gerið hefur jafnast út. Hrærið olíu, salti og hluta af hveitinu saman við, eða þar til deigið er ekki sérlega blautt (fer eftir hvað hveitið hefur mikinn raka, ég hef þurft að setja meira en þessi 950 grömm stundum). Leyfið deiginu að lyfta sér á hlýjum stað í um 40 mínútur.

Skerið ólífurnar í sneiðar og rífið ostinn. Hitið ofninn í 225°

Hnoðið deigið og skiptið því í tvennt. Fletjið út hvorn helming fyrir sig í ca 50x25 cm ferhyrninga. Stráið osti og ólífum ofan á. Rúllið upp frá langhliðinni. Myndið skeifu úr rúllunum, látið á plötu klædda bökunarpappír og bakið í um 25 mínútur. Penslið brauðin af og til með vatni eða þeyttu eggi, meðan á bökun stendur, til að mynda skorpu og gera brauðið fallegra.

Látið brauðin kólna undir klút (hmm, reyndar nær annað brauðið aldrei að kólna alveg niður hér...)

27. ágúst 2008

sólberjasúkkulaðikaka

þessi sem við gerðum um daginn og Jón Lárus segir frá á sínu bloggi tókst þetta líka snilldarvel. Þetta verður fasti á árstíðamatseðlinum:

Dótið:
150 g dökkt súkkulaði
150 g smjör (mjúkt)
200 g sykur
2 egg
4 dl hveiti
2 tsk. lyftiduft!
1/2 l rjómi
250 g sólber
4 eggjahvítur
170 g sykur í viðbót
7 matarlímsblöð

Aðferðin:
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði eða í örranum (ég nota alltaf örrann núorðið). Þeytið saman smjör og sykur þangað til ljóst, bætið eggjunum saman við og þeytið áfram. Blandið saman hveiti og lyftidufti og hrærið saman við ásamt bráðnu súkkulaði. Skellið deiginu í 22 cm spennukökuform (ekkert annað dugir) og bakið við 200° í 20 mínútur. Leyfið henni svo að kólna í rólegheitunum undir röku stykki. Á meðan má þeyta rjómann og mauka sólberin og blanda síðan saman. Nú er komið að því að leggja matarlímsblöðin í bleyti og síðan bræða þau (nota venjulega vatnsbaðið hér). Þegar bráðin eru þau þeytt saman við sólberjarjómann. Þessu næst eru eggjahvíturnar stífþeyttar ásamt afgangssykrinum og hrært varlega saman við sólberjarjómann. Kakan er skorin í tvennt, rjóminn settur á milli. Kælt í a.m.k. tvo tíma. Þeir sem eru með skreytidellu geta svo brætt hvítt súkkulaði og gert eitthvað fallegt (eða ljótt) mynstur ofan á kökuna. Það gerir hins vegar örugglega ekkert fyrir bragðið.

22. ágúst 2008

marsipankaka með vínberjum

Þessi er klassík:

Marsípankaka með vínberjum

200 g gott marsípan
75 g brætt smjör
2 egg
75 g hveiti
1/2 tsk. lyftiduft
200 g vínber (steinlaus eða steinhreinsuð)

Skerið marsípan í sneiðar og hrærið svo bræddu smjörinu saman við uns mjúkt. Hrærið eggin saman við og síðan hveiti og lyftiduft. Hellið hrærunni í smurt tertu eða bökuform (22-24 cm). Skerið vínberin í tvennt og dreifið þeim yfir. Bakið kökuna í 18-20 mínútur við 200°C. Gjarnan má strá flórsykri yfir kökuna áður en hún er borin fram.
Kakan er sérlega ljúffeng hvort heldur sem er heit eða köld. Ekki sakar svo að bera fram þeyttan rjóma eða ís með henni.

6. ágúst 2008

laxaforrétturinn

hvers vegna ætli ég hafi aldrei sett hann hér inn? Reyndar ekkert sérlega margir forréttir á síðunni, yfirleitt.

Þessi er allavega mjög einfaldur. Í honum er:

Reyktur lax
Kapers, smár
Sítrusolía (ólífuolía með sítrónukeim, fæst víða)
Klettasalat

Best er að útbúa á hvern forréttadisk fyrir sig. Skerið laxinn í þunnar sneiðar og setjið á diska, dreifið svo sem teskeið af kapers á hvern disk, handfylli af klettasalati og dreypið ögn af sítrusolíunni yfir.

Lítið mál og fljótlegt...

4. ágúst 2008

Aztekakakó

Fífa fann uppskrift að suðuramerísku kakói í Fréttablaðinu um daginn, leist vel á og ákvað að prófa. Kom verulega vel út.

Fyrir 4-5:

800 ml mjólk
ein vanillustöng eða 1 tsk vanilluessens
1 rauður chiliávöxtur
2 kanilstangir
100 g hreint súkkulaði (notuðum 56% frá Síríus)

Kljúfið vanillustöngina í tvennt (ef notuð) og fræhreinsið chiliið.

Mjólkin sett í pott ásamt vanillustönginni (eða essensinum), chiliinu og kanilstöngunum. Látið malla við vægan hita í 10 mínútur. Síðan er súkkulaðið brotið niður og sett út í, látið malla aftur í 5-10 mínútur.

Fín tilbreyting við venjulegt Síríus heitt súkkulaði. Hentar sérlega vel á köldum dögum.

5. júlí 2008

ætiþistlar og hollandaise frá klóri

ætiþistlablöð hér í kvöldmatinn, á morgun á að vera kjúklingaréttur sem með eiga að vera smjörsteikt þistilhjörtu. Keyptum þistlana í dag og þar sem innihaldið úr blöðunum er alger snilld, með hollandaisesósu, ákváðum við að skipta út tortillunum sem áttu eiginlega að vera í kvöld, og prófa að búa til hollandaise from scratch.

Ekki var það nú mikið mál.

Til að undirbúa þistlana, sker maður stilkinn af og örlítið af toppnum (humm, við gleymdum því nú reyndar, veit ekki hvers vegna það þarf að gera það), og þeir eru soðnir í vatni og sítrónusafa (af svona hálfri til einni sítrónu) í 25 mínútur.

Sósan:

175 g smjör
3 stórar eggjarauður
1 1/2 matskeið sítrónusafi (skipt í eina og svo hálfa)
1 msk kalt vatn
1 tsk dijon sinnep
cayenne pipar (hmm held þetta hafi reyndar verið chili)
salt að vild

Bræðið smjörið í potti eða örbylgjuofni við ekki of mikinn hita

Setjið eggjarauður, eina msk af sítrónusafa, vatn og sinnep í blandara eða matvinnsluvél. Þeytið smástund til að blanda vel.

Hellið heitu bræddu smjörinu í mjórri, jafnri bunu saman við, á meðan þeytt er.

Smakkið til með piparnum og saltinu.

Berið þistilhjörtun fram í allri sinni dýrð, leyfið fólki að plokka blöðin utan af. Blöðunum er dýft í sósuna og mjúki, innsti hlutinn borðaður.

Gott er að hafa risastóra skál fyrir rusl - eða tæma oft, þar sem blöðin taka hellings pláss.

Auðvitað má borða hjörtun sjálf (fyrir utan hærða hlutann, efst) með sósunni líka.

14. júní 2008

silungur í salvíu

Var að lesa í gegn um gamla bloggið mitt og rakst þá á þennan:

1 stórt silungsflak
smjör
8-9 blöð fersk salvía
1/4 bolli hvítvín
slatti af humarsoði (nota touch of taste soðin, megagóð)
þerrið fiskinn
brúnið smjörið á pönnu, með salvíublöðunum, við háan hita
steikið fiskinn, áfram á háum hita, snúið aðeins einu sinni
hellið soði og hvítvíni út á og látið malla í 5 mínútur, ég setti lok á en kannski betra að gera það ekki, til að halda roðinu stökku!

Gott er að bera fram soðnar kartöflur eða hrísgrjón með þessu.

11. júní 2008

sumarsalat

Maður tekur tvö sumur...

/fimmeyringur

Höfum þetta salat sirka einu sinni á ári, nokkrir réttir sem eru þannig, rifsberjakjúklingurinn, rabarbaragrautur, rjómasveppapasta með nýtíndum sveppum, örugglega fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Svona árstíðabundnir.

Hér kemur:

250 g pasta, skrúfur eða fiðrildi
1 lítill laukur
1 stilkur sellerí
1 rauð paprika
150 g salamipylsa
200 g mildur ostur að eigin vali
125 grömm belgbaunir

dressing:
4 msk ólífuolía
2 tsk sinnep
salt
pipar
klipptar ferskar kryddjurtir að vild (vorum með esdragon, marjoram og basil)
safi úr hálfri sítrónu
hálft hvítlauksrif, marið, ef vill

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakka, sigtið og skolið. Skerið lauk, papriku, sellerí og salami í litla bita og ostinn í strimla, skolið baunirnar. Blandið öllu saman í stóra skál. Hrærið allt saman sem í dressinguna á að fara og hellið síðan yfir salatið. Látið standa í kæli í amk. klukkutíma og berið síðan fram með ristuðu brauði eða öðru góðu brauði.

10. maí 2008

súkkulaðikakan hin franska

Hallveig, er þetta ekki þín?

Frönsk súkkulaðikaka


Innihald:

200 gr. Smjör
200 gr.suðusúkkulaði (gott að hafa 100 gr. 70°)
4 egg
1.5 dl sykur
1.5-2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft

Aðferð:

Bræðið saman smjör og súkkulaði.
Þeyta saman sykur og egg þar til ljóst og létt.
Blanda út í það smjöri, súkkulaði, hveiti og lyftidufti og hræra vel.
Setja í smurt springform og baka við 200° í ca. 15 mínútur.

Berið fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum ef vill.

15. mars 2008

pasta í túnfiskostarjómasósu

jámm, þetta er alveg eins gott og það hljómar. Kom reyndar ekki öllu í nafnið sem hefði eiginlega þurft að vera þar.

Við hönnuðum þennan rétt eftir að hafa fengið gríðargóðan pastarétt í München fyrir um 19 árum. Í honum voru ólífur og túnfiskur og rjómi, reyndar enginn ostur. Bættum honum sjálf inn. Þetta er í miklu uppáhaldi hér á bæ:

500 g spakettí

1 dós af túnfiski í olíu
2-3 hvítlauksrif
10-15 grænar ólífur skornar í tvennt
góður biti af gulum osti að eigin vali (brauðostur virkar fínt), kannski svona 200 g
1 peli rjómi
örlítið af sósuþykkjara

Sjóðið spakettíið eftir leiðbeiningum á pakka

Á meðan, skerið ostinn í mola, hellið olíunni af túnfiskinum í pott. Saxið hvítlaukinn eða kreistið og steikið smástund. Bræðið ostinn í hvítlauksolíunni við fremur vægan hita. Setjið ólífur út í. Hellið rjómanum saman við í skömmtum og hrærið hverjum skammti saman við ostinn til að hann fari ekki í kekki. Nauðsynlegt getur verið að jafna sósuna með smá sósuþykkjara.

Þegar pastað er soðið, hellið af því og blandið túnfiskinum saman við. Sósunni er síðan hellt yfir og blandað saman.

Með þessu má bera nýrifinn parmaost ef vill, en okkur finnst það reyndar ekki bæta réttinn sérstaklega.