19. febrúar 2006

Eldfljótlegur Gambíupottur

1/2 l vatn
150 g hnetusmjör
4 msk tómatþykkni (puré)
1 stór sæt kartafla
3-4 kjúklingabringur
1 kjúklingateningur
2-3 msk sykur (pálmasykur)
1 tsk kóríanderduft
bragðbætið með:
fiskisósu (eða salti)
piri-pirisósu (sambal oelek eða þvíumlíku)
--------------------------

Frá því að ég kom inní eldhúsið og þangað til maturinn var til liðu 35 mínútur (NB! bringurnar voru frosnar..) Maturinn er afar krakkavænn (farið varlega í piri-pirisósuna..).

Aðferð:
Hitið vatnið í stórum potti og hrærið hnetusmjörinu og tómatþykkninu saman við. Skerið bringur niður í sneiðar 0.3x3x2.5cm (svona sirka..) og setjið útí sjóðandi hnetusmjörsblönduna. Flysjið kartöfluna og skerið í munnbitsstóra bita (minni bitar þurfa minni suðu!). Sætar kartöflur þurfa skemmri suðu en venjulegar kartöflur. Bragðbætið og sjóðið þar til kjúklingurinn er gegnumsoðinn og kartöflurnar orðnar mjúkar. Bætið við vatni ef þarf. Hrísgrjón fara vel með. Athugið að það má nota kjúklingaleggi og/eða -vængi en það tekur lengri tíma. Það virkar líka að skreyta með ferskum kóríanderblöðum m m mmm ;)

11. febrúar 2006

hvernig er það...

eru allir búnir gersamlega að missa áhugann á þessu?

Þetta er samkvæmt beiðni Þorbjarnar:

Kálfakjöt Parmigiano (fyrir 4)

3 matskeiðar ólífuolía

1 laukur, smátt saxaður

3 hvítlauksgeirar, pressaðir

1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar

1 glas rauðvín (má sleppa)

1 dós niðursoðin tómatsósa

1/2 teskeið þurrkað timian

400-500 gr kálfakjöt í þunnum sneiðum

1 egg

1/3 bolli parmigiano reggiano, rifinn

1/3 bolli brauðrasp

1 kúla ferskur mozzarella ostur, skorinn í sneiðar

Salt og pipar


Steikið lauk og hvítlauk á pönnu, bætið svo tómötunum og salti og pipar við og sjóðið
niður í 10 mínútur. Bætið tómatsósunni rauðvíninu (ef vill) og timianinu saman við og sjóðið
áfram í 20 mínútur.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Á meðan sósan sýður, undirbúið kjötið:

hrærið egg á diski og blandið saman brauðraspi og parmigiano osti á annan disk. Skiljið eftir
svolítið af ostinum. Veltið kjötinu upp úr egginu og brauðmylsnunni og brúnið létt á hvorri hlið.
Raðið sneiðunum á eldfast fat, raðið mozzarellaostinum ofan á og hellið sósunni yfir. Stráið
afgangnum af parmigiano ostinum yfir.

Bakið í 30 mínútur.

Gott er að hafa með ofnbakaðar kartöfluskífur og gott hrásalat.

5. febrúar 2006

Sítrónuleginn kálfur og spínatsalat

Prófuðum þetta í gærkvöldi, eigum afgang, get ekki beðið :-) Salatið gengur örugglega með ýmsu öðru eða þá bara út af fyrir sig sem forréttur eða léttur hádegismatur með ristaðri brauðsneið. Mmm. Kálfinn þarf að krydda að morgni eða kvöldið áður.

Uppskriftin ætti að nægja fyrir 6 manns.

Kálfurinn:

1 kg kálfalund
rifinn börkur af einni sítrónu
1-2 tsk fersk blöð af sítrónutimjani (fann ekkert svoleiðis, notaði bara venjulegt timjan, þurrkað)
1 1/2 tsk salt
nýmulinn pipar
smá ólífuolía til steikingar (notaði reyndar smjör en mjög lítið af því)
Safi úr einni sítrónu
1/2 tsk hrásykur

Nuddið kjötið upp úr sítrónuberki, timiani salti og pipri og látið liggja í 10-12 tíma
Steikið síðan á pönnu við meðalhita í 15 mínútur. Snúið oft. Takið af hitanum og hvílið í 10 mínútur. Hellið sítrónusafa og hrásykri á pönnuna, látið vökvann sjóða örlítið niður. Takið aftur af og látið hvíla í aðrar 10 mínútur áður en kjötið er skorið í sneiðar.

Gremolata:
2 dl fínsöxuð steinselja
1-2 hvítlauksrif
rifinn börkur af einni appelsínu

Öllu blandað saman, borið fram með.

Volgt sveppa- og spínatsalat:

750 g. blandaðir sveppir (já, eða bara venjulegir, við notuðum þannig)
2 skalottulaukar
100 g sólþurrkaðir tómatar
2 msk ólífuolía (ég sleppti henni, gerði ekkert til)
150 g ostur, grófrifinn eða í bitum (talað um gruyére eða emmentaler, ég notaði cheddar)
100 g ferskt spínat (ég notaði mun meira)
1/2 tsk salt
nýmulinn pipar

Steikið sveppina á þurri pönnu þar til mesta vætan er gufuð upp. Setjið tómata og hakkaða lauka saman við og steikið smá stund í viðbót. Takið af pönnunni, setjið ostinn saman við og leyfið að bráðna létt, hrærið síðan spínatinu saman við og smakkið til með salti og pipar.

Berist fram með bökuðum eða ofnsteiktum kartöflum. Algjört nammi.