21. nóvember 2008

uxahalasúpa

Svona í tilefni af því að ég fékk ekki uxahala á tilboði í Nóatúni, út af frekum hömstrurum (grr) er ég að hugsa um að skella uppskriftinni hér inn.

1 1/2 kíló uxahalar (svona um það bil)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
1/2 sellerístöngull
50 g smjör eða olía
um 2 l vatn
1 msk tómatkraftur (purée)
1 tsk paprikukrydd
salt og pipar

Kryddvöndur:

steinselja
timjan
lárviðarlauf
bundið saman með sláturgarni

1/2 dl. sérrí eða þurrt madeira (ég sleppi þessu alltaf)


Gróffituhreinsið halabitana ef þeir eru mjög feitir. Hakkið laukana og hvítlaukinn smátt og skerið gulrætur og sellerí í fremur litla bita. Hitið smjörið eða olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana á öllum hliðum. Takið upp úr pottinum og steikið laukinn þar til hann er gullinn, setjið þá hvítlauk, gulrætur og sellerí saman við og steikið í smástund í viðbót. Kjötbitarnir settir aftur í pottinn, kryddað með salti, pipar og papriku. Hellið vatni í pottinn svo fljóti yfir, setjið tómatkraft og kryddjurtir saman við. Hitið að suðu, hreinsið aðeins ofan af gromsið sem flýtur upp, lækkið hitann og látið súpuna malla í um 4 klukkutíma. Kjötið á að falla alveg af beinunum.

Smakkið til með salti, pipar og víni ef vill og látið sjóða í 10 mínútur til (ef þið notið vín)

Takið kjötbitana úr pottinum og hreinsið kjötið af beinunum, setjið það aftur í pottinn. Hitið aftur að suðu og berið fram sjóðheita. Ekki er verra að hafa heitt brauð með.

Alveg uppáhalds kjötsúpan okkar hér heima...

17. nóvember 2008

lasagna

hæ allir, gerði svo rosalega gott lasagna í gær að ég ætla að henda því hér inn.. kjötsósan er staðfærð frá Nönnu Rögnvaldar en restin er mín!

Lasagna:

Kjötsósa:
500 gr nautahakk
1 gulrót
1 sellerístöngull
1 laukur
4 hvítlauksrif
1 grein ferskt rósmarín
Smávegis ferskt timian (bara af því ég átti það, má alveg vera þurrkað)
1 msk þurrkað oregano
1 tsk ítölsk kryddblanda
2 tsk sykur
2 tsk maldonsalt
3 lárviðarlauf
Slatti af nýmöluðum pipar
2 dósir tómatar
1 dós tomato puree
2 msk ólífuolía
Vatn eftir þörfum

Ostasósa:
2 msk smjör
2 msk hveiti
500 ml léttmjólk
1 msk philadelfia light
150 gr rifinn mozzarella ostur
½ tsk Maldon salt
múskat á hnífsoddi
Nýmalaður pipar

Lasagna plötur eftir þörfum
rifinn parmigiano reggiano
50 gr rifinn mozzarella ostur

Aðferð:
Maukið saman lauk, hvítlauk, gulrót, sellerí og fersku kryddjurtirnar og steikið í olíunni í nokkrar mínútur, bætið svo hakkinu og þurrkaða kryddinu út í og brúnið. Bætið svo tómötunum, saltinu, sykrinum, lárviðarlaufunum og piparnum og svolitlu vatni út í, lokið og látið malla í 3 klukkutíma minnst.

Hitið mjólkina í litlum potti, bræðið smjörið og bætið hveitinu út í og hrærið svolítinn tíma saman. Hellið svo mjólkinni saman við og leyfið aðeins að þykkna, bætið þá ostinum út í og kryddið.

Takið stórt ferkantað eldfast fat og leggið lasagnað í þessari röð, ostasósa, lasagnaplötur, ostasósa, kjötsósa, parmigiano reggiano, lasagnaplötur, ostasósa osfrv. Endið á lasagnaplötum, setjið ostasósu efst og dreifið restinni af rifna mozzarellaostinum ofan á.
Inn í ofn við 200° í 20 mínútur. Gott að hafa salat með og hvítlauksbrauð ef vill.

6. nóvember 2008

mokka créme brulée

Lengi verið meiningin að gera svona mokka créme brulée, fengum slíkt fyrir óratíma á Grillinu, margoft gert vanillu créme brulée síðan, einu sinni prófað uppskrift að kaffiútgáfu, úr eftirréttabók Hagkaupa, minnir mig, hún var glötuð.

Ákváðum að búa til eigin útgáfu, tókum uppskriftina frá henni Nönnu og skiptum hluta mjólkurinnar út fyrir níðsterkt kaffi. Tókst snilldarvel, þetta verður bókað á fastalistanum héðan í frá.

Hér kemur hún (vona þetta sé í lagi, Nanna):

250 ml rjómi
200 ml mjólk
50 ml sterkt lagað kaffi
1 vanillustöng
100 g sykur
4 eggjarauður

hrásykur

Ofninn hitaður í 150 gráður og vatn sett í ofnskúffuna. Vanillustöngin er soðin í rjómanum og mjólkinni ásamt helmingnum af sykrinum, kaffinu hellt saman við og blandan kæld smá. Rauðurnar þeyttar ljósar og léttar með afganginum af sykrinum. Vanillustöngin tekin upp úr og rjómablöndunni hellt smám saman saman við eggin og sykurinn. Hellt í lítil eldföst mót sem bökuð eru í vatnsbaði þar til búðingurinn hefur stífnað. Kælt vel.

Hrásykri stráð yfir og hann bræddur undir grilli eða með gasbrennara þar til hann brúnast vel. Borið strax fram, þá er sykurinn stökkur.

2. nóvember 2008

helgi svínsins - ananasrjómakarrísneiðar

vorum í svínakjötsstuði þessa helgi, á föstudaginn var keyptum við hnakkasneiðar á 50% afslætti í Krónunni, ljómandi fínt kjöt, rifjuðum upp gamla uppskrift.

Ananas-rjóma-karrí-svínakjöt:

4 góðar sneiðar svínahnakki eða annað að eigin vali
örlítið smjör eða olía
1 lítil dós ananas í bitum
1 peli rjómi
karrí
salt
pipar

Bræðið smjörið á pönnu, setjið karrí saman við og steikið sneiðarnar, 2 mínútur á hlið við góðan hita, síðan 4 mínútur á hlið við vægan hita. Kryddið með salti og pipar. (fer auðvitað eftir þykkt sneiða). Þegar steikingu er lokið, takið kjötið af pönnunni og haldið því heitu. Hellið rjóma og ananas ásamt safa í pönnuna (má minnka safann svolítið, ef vill). Smakkið til með meira karríi, salti og pipar. Sjóðið þar til sósan þykknar örlítið (ekkert betra að hafa þessa sósu þykka)

Berið fram með hrísgrjónum, gott salat sakar ekki heldur.

Svo verðum við með kóksvínið á eftir...