8. september 2005

Frostpinnar...

Alltaf kem ég með eitthvað hresst frá Kalí.
Ég og Hannes ættum nú að vera duglegri að setja inn uppskriftir þar sem við erum matgæðingar miklir.
Allaveganna kom smá ósk frá Helgu frænku um Kalífrostpinna.

Frostpinnarnir sem við erum byrjuð að búa til vegna óþolanlegs hita eru afgangar af
smoothies(-um) sem við höfum kannski gert fyrr um daginn.

Smoothies:

Frostnir ávextir.
(Í mínu uppáhaldi eru mangó og jarðaber-keypt frosið í matvöruverslunum(mangóið niðuskorið))
Vatn/ávaxtasafi
Banani
Sítrónusafi
eða hvað eina sem til er.

Smoothies (-inn) sem ég gerði um daginn sem heppnaðist svona ansi vel (sérstsaklega sem frostpinni) var búinn til úr frostnum jarðaberjum, nýkreistum appelsínusafa með aldinkjöti og vel þroskuðum banana. Allt sett í matvinnsluvél (sem þolir að brjóta niður ísmola) og drukkið með bestu lyst. Afgangur sem ekki komst fyrir í glasinu þínu er síðan hellt í frostpinnamót (fæst t.d. í IKEA), sett í frystinn og borðað síðar með bestu lyst. Er hinn fínasti eftirréttur á hversdagskveldum.

Hvað varðar mangóið finnst mér best að nota mangó með banana og smá sítrónusafa og síðan bara vatni til að vinna frostna mangóið. Annars er alltaf hægt að nota límonaði, eplasafa eða hvað sem til er til að vinna mangóið.

Það besta er að nota vel þroskaðann banana. Þeir eru svo ansi sætir.

Góðar stundir,
Gerður.

p.s. ef ég borða smoothies sem hádegismat finnst mér gott að nota hreint jógúrt með ávöxtunum. Verður aðeins matarmeira.
p.p.s. hvet alla til að eiga frystinn alltaf fullan af frostnum ávöxtum. Maður veit nefnilega aldrei hvenær mann langar í smoothies. Frystirinn minn er ávallt mjög girnilegur;-)

5. september 2005

rifsberjakjúklingur

Lofaði þessum víst á blogginu:

Nokkrir kjúklingabitar (ekki bringur)
15 g smjör
salt og pipar
1 lítill laukur, skorinn í teninga
100 g. rifsber
2 dl kjúklingasoð
1-2 tsk púðursykur
1/2 dl rjómi (má vera kaffi- eða matreiðslurjómi)
1 tsk maízena

Brúnið kjúklingabitana vel á heitri pönnu í smjörinu. Kryddið með salti og pipar (pipri?) Takið kjúklinginn af pönnunni og steikið laukinn. Setjið kjúklinginn aftur í pönnuna ásamt rifsberjum og soði. Látið malla undir loki í 35-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Takið bitana af pönnunni og haldið heitum. Hrærið saman rjóma og maízena og þykkið sósuna með blöndunni (í uppskriftinni er talað um að sía soðið í annan pott og þykkja þannig en mér finnst bara fínt að hafa laukinn og berin áfram í sósunni). Smakkið til með púðursykri, salti og pipar.

Berist fram með hrísgrjónum og góðu salati. Ekki verra að hafa líka gott hvítvín með. Mmmm!

4. september 2005

Tamarind marinering

3 msk tamarind paste
3/4 dl nýpressaður sítrónusafi (1oghálf)
0.25 dl soja
5 hvítlauksrif
20 g skrallaður engifer
1 stór rauður thai chili EÐA 1 tsk chaianpeppar EÐA 1 tsk piripiri sósa
1 tsk malað kummin
1 tsk malað kóríander
1 msk hrásykur (eða púður eða venjulegur)
Sett í mixara
-------------------

Leggið kjúllan í þetta (dugir á ca. 1 kg af bringum) og sveppi og grillið daginn eftir.
Klikkað gott!