29. mars 2011

marineraðir bananar

skv pöntun:

50 g smjör
2 msk púðursykur
2 msk sítrónusafi
4 bananar (alls ekki óþroskaðir!)
2 msk koníak (má sleppa)

Rjómi eða ís

Stillið ofninn á 180° Bræðið smjör og púðursykur í ofninum í eldföstu fati. Skerið banana í sneiðar á ská og veltið vel upp úr smjör/sykurblöndunni. Bætið koníaki í ef vill. Bakið í ofni í 20 mínútur.

Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma. Gamall klassíker hér á bæ úr uppskriftabók sem er að verða komin í frumeindir sínar. Séu bananarnir of grænir er hægt að skipta þeim út fyrir hráar kartöflur þannig að það er best að passa upp á þá. Vorum með þetta í matarboði um daginn, einn bananinn þroskaður en hinir svolítið grænir. Stöku biti var æðislegur en hinir voru hreint ekki góðir. (Efast um að ég hefði fengið beiðni um uppskrift ef það hefðu bara verið þeir grænu...)

6. mars 2011

cassoulet

enn af lúxusmatnum.

Við höfum gert þennan suðurfranska landrétt áður en þá með lambakjöti, já reyndar mjög ólíka uppskrift (spurning um jafnvel að henda henni líka inn, sú hentar eiginlega betur hérlendis) en ég lofaði að setja þessa útgáfu hér.

500 grömm haricots blancs eða smjörbaunir - ef ekki úr dós þarf að leggja þær í bleyti daginn áður og skola síðan og sjóða
Hæfilega mikið svínakjöt, miðað við fyrir hve marga skal eldað
Confit de canard, (kanarífuglakonfekt upp á íslenskuna) einn skammtur á matargest
Toulouse svínapylsur (eða aðrar góðar pylsur) ein á mann
2 dósir af niðursoðnum tómötum
5 hvítlauksrif
1 lítil dós tómatkraftur
Chorizopylsa (eða sambærileg), 15 cm ef þumalþykk pylsa, 2 cm ef úlnliðsþykk, smátt skorin
10 muldir negulnaglar (alveg nauðsynlegt samkvæmt uppskriftarhöfundi á netinu, ekki endilega standard í suðurfrakklandi)
salt og pipar

Ekki veit ég hve marga kjötskammta er ætlast til að hver borði. En svo sem ekki slæmt að eiga afgang...

Skerið svínakjötið í bita og steikið í smá af andafeitinni úr dósinni í stórum potti (reikna ekki með að neinn hér nenni að standa í að sjóða niður andalæri sjálfur).

Bætið baunum, chorizopylsu, tómötum og tómatkrafti, hvítlauk, salti, pipri og muldum negulnöglum saman við. Fyllið upp með vatni þar til flýtur nokkurn veginn yfir. Komið upp suðu, setjið lok á pottinn og látið malla í klukkutíma eða svo.

Á meðan, steikið pylsurnar, einnig í smá andafeiti. Stillið ofninn á 180°

Þegar klukkutíminn er liðinn (eða þegar svínakjötið og baunirnar eru fullsoðnar), bætið við vatni ef þarf (þurftum ekki), setjið pylsurnar ofan á og þar fyrir ofan andalærin. Setjið í ofninn og hitið í hálftíma eða svo.

Berið fram með góðu brauði, fullkomið