22. júní 2009

svínaskankar

Reyndum í gær að herma eftir tékkneskum (tja, væntanlega reyndar bara miðevrópskum) rétti sem við fengum í ferðinni um daginn. Tókst bara nokkuð vel og krakkarnir gleyptu þetta í sig með bestu lyst og fengu sér öll ábót.

Reikna þarf með svona 400-500 grömmum af skönkum á mann, þar sem talsvert er um bein og fitu.

Svínaskankar
laukur
sellerí (má sleppa)
salt
heil piparkorn
olía eða smjör

Skankarnir soðnir í um einn og hálfan tíma í vatni sem flýtur yfir ásamt lauk, sellerí, pipar og salti.

Á meðan, undirbúa sósuna:

1/4 bolli sýrður rjómi
1 msk mæónes
3 msk piparrótarmauk
1 tsk Dijonsinnep
slatti af klipptum graslauk eða græna hlutann af vorlauk

Blandið öllu saman, geymið í ísskáp.

Þegar skankarnir eru orðnir meyrir eru þeir teknir upp úr pottinum og þerraðir. Síðan steiktir í smjöri/olíu í 15 mínútur þar til stökkir (ég tók 5 mínútur á hlið, yfirleitt hægt að finna 3 steikingarhliðar á svona skönkum)

Borið fram með uppáhalds kartöflustöppunni ykkar, súrum gúrkum piparrótarsósunni, sinnepi og ekki verra að hafa súrkál með fyrir þá sem þykir slíkt gott. Úti voru líka súrsaðir piprar með og steikt brauð í stað kartöflustöppu.

Bráðnauðsynlegt að hafa góðan ljósan bjór með...