14. desember 2007

jólajóla

Gerði þessar og lagaði þær aðeins til til að þær væru aaaðeins skárri í heilsupakkanum ;)

rosalega góðar!


Appelsínusúkkulaði smákökur

100 gr muscovado sykur (ljós púður.. ég nota nú bara frá kötlu, í upprunalegri uppskrift 150 gr)

100 gr hrásykur (upprunalega 50 gr)

250 gr mjúkt smjör

275 fínmalað spelthveiti (hér er í upprunalegu uppskriftinni hvítt hveiti og þá 300 gr)

4 msk mjólk (ef notað hveiti þá 2 msk) í uppskrift stendur ný en ég nota nú bara létt

50 gr pekanhnetur gróft saxaðar

175 gr gróft saxað orange suðusúkkulaði

Forhitið ofninn í 160°. Hrærið vel saman smjör og sykur, bætið hveiti og mjólk saman við og hrærið vel saman, og hrærið svo að lokum saman við hnetum og súkkulaði.

Setjið teskeið af deigi fyrir hverja köku, best er að nota tvær skeiðar. Passið að hafa nóg bil á milli þar eð þær leka töluvert út. Fletjið deigið létt út með blautum fingrum. Bakið í 15-20 mínútur ofarlega í ofninum.

18. nóvember 2007

Osso buco milanese

Vorum með Osso buco og risotto milanese, einu sinni sem oftar, í matarboði í gær. Uppskrift pöntuð, þannig að upplagt er að birta þetta hér.

Þessi réttur er afskaplega gestaboðsvænn, þar sem öll vinnan við hann getur farið fram löngu fyrir boðið.

Osso buco milanese:

(fyrir fjóra)

4 sneiðar nautsskankar (osso buco kjöt, fæst oftast í Nóatúni)
salt og pipar
25 g ólífuolía eða smjör
500 g tómatar, mega vera úr dós (nota alltaf dósatómata, ekkert síðra)
3 dl þurrt hvítvín
1 tsk þurrkað marjoram eða 1 msk ferskt
um 1 dl vatn (má sleppa, ef safinn af dósatómötum er notaður)

Kryddvöndull:
1 búnt steinselja
kvistur af timjani
1 lárviðarlauf

Skerið aðeins inn í ytra borð sneiðanna á 1-2 stöðum svo þær myndi ekki skál þegar þær steikjast. Hitið smjörið eða olíuna í stórum potti og brúnið sneiðarnar á báðum hliðum. Hellið helmingnum af hvítvíninu yfir og látið sjóða án loks í um 5 mínútur.

Ef notaðir eru nýir tómatar þarf að afhýða þá og hakka, annars bara hakka. Má hella safanum af dósatómötum, ég geri það samt aldrei. Bindið saman steinselju, timjan og lárviðarlauf fyrir kryddvöndulinn.

Setjið tómata, salt, pipar, marjoram, afganginn af hvítvíninu, vatn og kryddvöndul út í pottinn. Látið sjóða við vægan hita í 3 1/2 - 4 klukkustundir. Ef notaðir eru kálfaskankar þarf ekki nema um 1 1/2 tíma. Kjötið á að hrynja af beinunum.

Risotto milanese:

1 lítill laukur
1 msk smjör
300 g arboriogrjón eða önnur risottovæn hrísgrjón
um 600 ml gott soð (helst ekki af teningi)
Klípa af saffrani, steytt vel
3-4 msk nýrifinn parmaostur
meira smjör
salt
pipar

Hakkið laukinn frekar fínt og steikið 2-3 mínútur á víðri pönnu í smjörinu. Laukurinn á ekki að brúnast. Setjið grjónin saman við og hrærið þar til þau eru þakin feiti. Kryddið með salti og pipar.

Hafið soðið nálægt suðupunkti við hlið pönnunnar. Hellið 1/2-1 ausu í einu út á grjónin, hrærið nær stanslaust. Kryddið með saffraninu. Ekki á að setja meira soð fyrr en grjónin eru farin að æpa úr þurrki. Þetta tekur um 20-25 mínútur. Nauðsynlegt að hafa glas af hvítvíni við höndina. (til að drekka, sko, ekki hella út á, neitt...)

Þegar grjónin eru orðin mjúk, er parmaostinum og smjörinu hrært saman við.

Ef vill má hætta að ausa soði aðeins áður en grjónin eru orðin mjúk, setja lok á pönnuna og slökkva undir. Hræra síðan parmaostinum og smjörinu saman við og hita rísottóið upp þegar á að bera það fram.


Gremolata:

1-2 hvítlauksrif
1 búnt steinselja
rifinn börkur af einni sítrónu (helst lífvænt ræktaðri)

Hakkið steinseljuna, pressið hvítlaukinn og blandið saman, ásamt sítrónuberkinum.


Berið osso bucoið fram með rísottóinu og gremolötu, ásamt meiri nýrifnum parmaosti.

4. nóvember 2007

Andabringur með kirsuberjasósu

vorum um daginn með snilldartilraunarétt. Lengi búin að vera að spá í að prófa þennan rétt úr Landsliðsréttabók Hagkaupa. Nema hvað, við áttum tvær andabringur í frysti, tókum út og þíddum í ísskáp. Ætluðum að hjóla í réttinn en, uppgötvuðum að í sósuna áttum við ekki fersk eða frosin kirsuber, bara niðursoðin í eigin legi, ekki púrtvín, bara sérrí, ekki andakraft, bara kjúklingakraft og ekki hindberjaedik. Sykur var reyndar til.

Þannig að við fórum eftir uppskriftinni hvernig ætti að steikja bringurnar (krossskera í fituhliðina án þess að fara inn í kjöt, steikja síðan 5 mínútur á góðum hita á fituhliðinni, 1 1/2 mínútu hinum megin, og bara salt og pipar). Sósan var impróvíseruð. Safinn af kirsuberjunum (þetta var ekki svona kirsebærsauce heldur dessertkirsebær í eigin safa - ef kirsebærsauce þá bara ein msk púðursykur), 2 msk púðursykur, 1 msk sérrí, 1 msk kjúklingakraftur, sleppti alveg edikinu en saltaði aðeins. Soðið niður í góða stund áður en berjunum sjálfum var bætt saman við. Setti síðan reyndar öööörlítið af sósujafnara, hún má alls ekki vera þykk en heldur kannski ekki alveg eins og vatn. Í hæsta lagi hálf matskeið.

Með þessu vorum við með lambasalat með kirsuberjatómötum og smá balsamediki (sleppi líklega tómötunum næst og set mögulega melónubita eða álíka í salatið, sýran var ekki alveg að gera sig) og smjörsteiktar kartöfluskífur.

25. september 2007

gráðostapasta

þessi uppskrift er heimatilbúin:

1 pk gott beikon
1 rauð paprika í bitum

1/2 gráðostastykki og annað eins af brauðosti
1 ds sýrður rjómi
smá sósuþykkjari (maízena)

pasta, helst þrílitir pennar (penne tricolori)
parmaostur

Pastað soðið eftir leiðbeiningum á pakka

Beikonið klippt í bita og steikt á pönnu. Tekið af pönnunni. Megninu af feitinni hellt af (ef einhver) og paprikan steikt á sömu pönnu. Líka tekið af pönnunni. Gráðosturinn og hinn osturinn bræddur, sýrða rjómanum hrært saman við og þykkt örlítið.

Sósunni hellt yfir heitt pastað, beikoni og papriku blandað saman við og nýrifnum parmaosti stráð yfir. Af þessu er mjög milt og fínt gráðostabragð, rétturinn er sérlega vinsæll af börnunum mínum (sem ekki líta við gráðosti í hreinustu mynd)

19. september 2007

undir ítalskri sæng

Þetta er uppskrift úr sænsku vikublaði (minnti mig svolítið á þetta og vona nú að minnið hafi ekki brugðist mér algerlega...):

svínalundir (u.þ.b. 700 gr)
salt og pipar
olía til steikingar
125 g mozzarella
1 dl grilluð paprikka
1/2 basilíkuplanta
1/2 dl valhnetur
2 hvítlauksgeirar

1. Hreinsa lundirnar (fjarlægja himnur og svoleiðis), salta og pipra. Steikja lundirnar í olíunni þangað til þær fá á sig gullinn bjarma. Setja svo í 175° heitan ofn í u.þ.b. 15 mínútur.

2. Brytja mozzarellaostinn niður. Skera paprikkuna í teninga, hakka basilíkuna, hneturnar og hvítlaukinn. Blanda öllu saman. Salta og pipra. Ég jók nú magnið af þessu öllu saman af því mér fannst þetta svo lítið, en það var eiginlega óþarfi.

3. Sneiða lundirnar og leggja í eldfast mót. Hella gumsinu yfir og setja inn í 225° heitan ofn í u.þ.b. 10 mínútur. Ég hellti safanum sem kom af kjötinu yfir allt (af því ég hélt að þetta myndi verða svo þurrt) en ég hefði ekki átt að gera það því þetta varð heldur mikið sull. En það bragðaðist vel.

Við erum svo löt þessa dagana að við átum bara soðnar kartöflur með. Annars er mælt með baunabelgjum og ofnsteiktum kartöflum ...

15. september 2007

Maískólfar í lauksósu

Þessi uppskrift, úr bókinni Curry Lover's Cookbook var prófuð hér í kvöld. Ekki annað um það að segja en að þetta var hrikalega mikið sælgæti. Þurftum að kaupa svolítið af kryddinu til að geta gert þetta, en nú eigum við það...

4 heilir maískólfar, teknir í tvennt (við notuðum frosna hálfa)
olía til steikingar
1 stór laukur
2 hvítlauksrif
5 cm biti af fersku engiferi (þorði ekki, notaði þurrkað)
1/2 tsk túrmerikduft
1/2 tsk laukfræ
1/2 tsk cuminfræ
1/2 tsk fimmkrydd (pae-lo krydd)
6-8 karrílauf (voru ekki til, henti bara smá karríi út í - ekki sama en gott samt)
1/2 tsk hrásykur
200 ml hrein jógúrt
chiliduft eftir smekk

Maukið lauk, hvítlauk, engifer og krydd í mixer, matvinnsluvél eða mortéli.

Steikið maískólfana við góðan hita í olíunni þar til þeir eru farnir að taka lit. Takið kólfana af pönnunni og kælið pönnuna örlítið. Meiri olía sett á pönnuna ef þarf (á að vera um 2 msk. eftir). Sú olía hituð og laukmaukið steikt rólega í 8-10 mínútur, þar til olían skilur sig frá og laukurinn hefur tekið kryddið vel í sig.

Kælið laukblönduna svolítið niður og hrærið jógúrtinni saman við. Setjið maískólfana aftur í sósuna, snúið þannig að þeir séu þaktir sósu eins og hægt er, setjið lok á pönnuna og hitið við mjög vægan hita í 10 mínútur.

Berið fram með naanbrauði og góðum bjór. Það er ekkert salt í uppskriftinni, við vorum með gott salt á borðinu, sumir vildu en aðrir ekki.

5. september 2007

Sólberjabaka frá Alsace

Þessi er árlegur viðburður eftir sólberjatínslu hér á bæ. Mmmmh


Fylling:
250 g fersk sólber (eða önnur ber að vild)
5 msk sykur
1 dl rjómi
1 egg
1 eggjarauða

deig:
50 g smjör
60 g sykur
1 egg
60 g hveiti (gæti þurft meira)

einnig:
1 msk flórsykur
smjör til að smyrja formið

1. Skolið berin og látið renna af þeim. Stráið yfir þau 3 msk af sykri (þarf ekki við minna súr ber). Hitið ofninn í 175°

2. Hrærið vel saman smjöri og sykri. Hrærið egginu saman við og bætið hveitinu síðast við.

3. Smyrjið bökuform, dreifið deiginu jafnt um formið og upp á kantana.

4. Þeytið afganginn af sykrinum, rjóma, egg og eggjarauðu saman í skál. Raðið berjunum á bökubotninn og hellið sykurblöndunni yfir.

5. Bakist um 40 mínútur í miðjum ofni. Látið kólna örlítið og sigtið svolítinn flórsykur yfir.

Fer vel með ís eða þeyttum rjóma

10. ágúst 2007

sveppapasta

ekki beinlínis megrunarfæði en hrikalega gott:

Sveppapasta

100-200 g nýir villisveppir
smá smjör

ferskt óreganó (hellingur)
smá maldon salt
1 tsk púðursykur
1/2 tsk kálfakraftur
1 peli rjómi
1 peli kaffirjómi
örlítið af sósuþykkjara

meira salt ef þarf

Fettucine eða tagliatelle pasta
Nóg af nýrifnum parmaosti

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum.

Steikið sveppina á pönnu í smjörinu ásamt oreganóinu. Myljið yfir smá salt. Hellið rjómanum og kaffirjómanum yfir og látið suðu koma upp. Bætið kálfakrafti og púðursykri við ásamt sósujafnara eftir smekk (ekki gott að þetta verði mjög þykkt). Sjóðið saman smástund.

Látið vatnið renna af pastanu og hrærið sósunni strax saman við. Berið fram með parmaostinum.

2. ágúst 2007

rabarbarabaka

Þessi hefur ekki komið hér fyrr, held ég:

RABARBARABAKA:

2 skeiðar hveiti
1/2 bolli sykur

blanda, setja í eldfast mót

2-3 rabarbarastilkar skornir niður og settir yfir (reyndar betra að rabarbarinn hafi frosið, nóg í 1-2 tíma)

1/2 bolli hveiti
1/2 - haframjöl
1/2 - púðursykur

blandað saman og sett ofan á

1/2 bolli brætt smjör

sett efst.

Bakað í 1/2 klst á 175° c

3. júlí 2007

uppáhalds yams uppskriftin

eða sætar kartöflur eru yams yfirleitt kallaðar, örlítið ónákvæmt þar sem plantan er alls ekkert skyld kartöflum, mun frekar rófum.

allavega...

Þessi uppskrift birtist í Mogganum í fyrrasumar, ef ég man rétt heitir höfundurinn Brynja. Þannig að ekki vil ég eigna mér hana. En góð er hún og passar með hinu og þessu. Notuðum þetta með grilluðu hrefnukjöti á sunnudaginn var.

Fyrir okkur 5 dugar:

2 stór yams
salt
smá ólífuolía

1 box hvítlauksrjómaostur
1 dós sýrður rjómi

Yams skorið í passlega munnbita, sett í eldfast fat, saltað að smekk og ólífuolíu ýrt yfir. Bakað í ofni við 200° í amk. 40 mínútur eða þar til bitarnir eru alveg mjúkir (hálfhart yams er óætt).

Rjómaosti og sýrðum rjóma hrært saman og hrært saman við bakað yams

Í uppskrift Brynju var þetta með grilluðum hamborgurum en synd að nýta þetta ekki oftar. Hins vegar vantar eiginlega almennilegt nafn yfir þetta fyrirbæri. Tillögur óskast.

6. apríl 2007

trúi

ekki að ég hafi aldrei sett hér inn aðalpastaréttinn :-O

Tagliatelle verdi alla Bolognese

úr Hundrað góðar pastasósur eftir Diane Seed

500 g grænt tagliatelle eða eggjapasta
150 g magurt beinlaust svínakjöt
150 g magurt beinlaust nautakjöt
2 msk ólífuolía
80 g smjör
1 meðalstór laukur
1 gulrót
1 leggur sellerí
100 g beikon
50 g nýjar ítalskar pylsur eða hreint pylsukjöt (nota hér pepperóní, helst sterkt)
1 glas hvítvín
1 msk tómatþykkni
1 vínglas af soði
salt, svartur pipar úr kvörn
0,75 dl rjómi
nýrifinn parmaostur (má sleppa)


Hakka kjötið í hnífakvörn (mixer) eða fá það hakkað í versluninni. Hita olíu og 50 g af smjörinu og setja saxaðan lauk, gulrót og sellerí út í ásamt smátt söxuðu beikoni. Láta malla hægt í um 10 mín, bæta þá við kjöti, pylsukjöti án skinns og víni. Sjóðið áfram í 10 mín. og hrærið í öðru hverju. Hræra tómatþykkni út í soð og bæta í pottinn. Hræra og krydda eftir smekk. Sjóða við vægan hita í 1 1/2 klst. Blanda rjómanum saman við og taka síðan pottinn af hitanum, en halda sósunni heitri. Sjóða pasta. Hita sósuna aftur og hræra út í hana smjörið sem eftir varð. Láta renna af pastanu, setja á heitt fat og bæta sósu við.
Þessi réttur er oft borinn fram án þess að sósu og pasta sé blandað saman, heldur er sósan höfð í pastanu miðju. Sennilega er best að bera réttinn þannig á borð í allri sinni dýrð, en hræra vel áður en skammtað er á diskana. Þeir sem vilja hafa ostinn með

18. febrúar 2007

gítarpasta

nei, þetta eru ekki soðnir gítarstrengir, en gott er það.



Nú fæst chitarrapasta í Frú Laugu, húrra!

1,25 kg lambakjöt
1 1/4 bolli hvítvín
salt og nýmalaður pipar
1 bolli jómfrúrólífuolía
4 hvítlauksrif, léttpressuð með hnífsblaði
5 lárviðarlauf
1 kíló tómatar, afhýddir og grófsaxaðir eða 2 dósir tómatar
6 stórar paprikur, (blandaðir litir) skornar í ræmur (við notum nú minna, tvær í dag)
2 bollar gott soð
650 g gítarpasta/spakettí
fullt af nýrifnum parmaosti

Skerið hluta lambakjötsins í fallega bita og hakkið afganginn. Skolið kjötið upp úr víninu (geymið vínið) og kryddið með salti og pipar. Hitið olíuna í stórri þykkbotna pönnu og steikið hvítlaukinn og lárviðarlaufin við meðalhita. Takið hvítlaukinn upp úr þegar hann hefur brúnast og bætið kjötinu og hakkinu á pönnuna og brúnið. Hellið víninu saman við og sjóðið niður. Takið lárviðarlaufin úr pönnunni og hendið þeim. Bætið tómötunum (með safa ef notið niðursoðna) og paprikustrimlunum á pönnuna. Kryddið með salti og pipar og setjið lok á pönnuna. Sjóðið við lægsta hita í 2 klst, hrærið af og til. Fylgist vel með réttinum og bætið soði við ef hann lítur út fyrir að vera að þorna.

Berið fram með pastanu og parmaostinum.

verðykkuraðgóðu.

4. febrúar 2007

þorskur í raspi

Áttum ekki brauðrasp svo ég muldi þrjár heilhveititvíbökur í morteli.

útí þetta fór(u) svo:

4 hvítlauksrif
hálft rautt chili (saxað mjög smátt)
hnefafylli af casew- og jarðhnetum (sem ég marði í mortelinu)
dágóður slatti af grada padano
salt og pipar
tvær teskeiðar af kumminfræjum

Blandaði saman einu eggi, skvettu af mjólk og smá balsamediki og dýfði þorskinum ofaní áður en ég velti honum uppúr raspinu.

Steikti í stutta stund á mjög heitri pönnu, setti í eldfast mót og inní ofn undir álpappír í korter.

25. janúar 2007

jei

ég kemst inn á brallið, liggaliggalái :-D

Hvað á ég að setja inn? brása uppskriptasafnið...

Uppáhalds súkkulaðikakan okkar. Kremið sérlega gott og kakan þvílíkt safarík. Mhmmm

125 ml heitt svart kaffi
50 g kakóduft
275 g púðursykur
125 g mjúkt smjör
3 egg, aðskilin
1 tsk (5 ml) salt
- - vanillusykur
- - sódaduft
150 ml sýrður rjómi (má vera 10%)
225 g hveiti, sigtað
125 g sykur

225 ml rjómi, þeyttur

Krem:
125 g suðusúkkulaði
150 ml sýrður rjómi
3 msk (45 ml) flórsykur, sigtaður


Blandið saman kaffi og kakódufti. Takið helminginn af hrærunni frá, og þeytið með púðursykri, smjöri, eggjarauðum, salti og vanillusykri. Blandið saman sýrða rjómanum og sódaduftinu, bætið saman við deigið, ásamt afganginum af kakó/kaffiblöndunni og hveitinu. þeytið eggjahvíturnar í mjúkt krem, bætið síðan sykrinum við, og þeytið þar til stíft og glansandi. Blandi› varlega saman við deigið.
Setjið deigið í vel smurt kökuform (ca. 23 cm). Bakið við 180° í 1 til1 1/4 klst, eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur út hreinn. Kælið á grind.
Krem: Bræðið súkkulaðið, kælið aðeins. þeytið saman súkkulaði, sýrðan rjóma og flórsykur.
Skerið kökuna í tvo botna, þekið neðri botninn með þeytta rjómanum, setjið hinn ofan á. Smyrjið kreminu ofan á kökuna og á hliðarnar.