Nú ætla ég að gerast kræf og brjóta höfundarrétt með því að birta hér uppskrift úr Fiskréttabók Hagkaupa. Hlýtur að fyrirgefast, fyrir plöggið, ég ráðlegg lesendum eindregið að kaupa bókina. Við erum búin að prófa nokkrar uppskriftir, flestar mjög góðar.
Þessa höfum við reyndar ekki prófað, en Hallveig ætlar að hafa þetta í kvöld. Hún verður að láta okkur vita hvernig til tókst.
Hér kemur:
Rauðsprettu- og rækjugratín.
800 g rauðsprettuflök með roði
2-3 msk smjör (stendur reyndar smjörlíki, en hei hver notar svoleiðis?)
salt
300 g rækjur
4 dl bearnaisesósa
100 g rifinn ostur
(Þetta með bearnaisesósuna, það er gefin uppskrift að afskaplega undarlegri útgáfu af svoleiðis, án allra kryddjurtanna sem gera bearnaisesósu að því sem hún er, estragon og kerfli skipt út fyrir steinselju. Ég myndi bara nota hollandaise úr pakka + bæta við saxaðri steinselju, nema það væri þeim mun meiri veisla hjá manni.)
Byrjið á að útbúa sósuna. Steikið rauðsprettuflökin í smjöri á vel heitri pönnu. Látið roðhliðina snúa upp, lækkið hitann og steikið í um 45 sekúndur. Snúið flökunum við, saltið og takið pönnuna af hitanum. Látið flökin jafna sig í um 2 mínútur. Ath, steikingartími fer eftir þykkt flakanna. Færið flökin upp á eldfast fat. Skiptið rækjunum á rauðsprettuflökin, setjið sósuna yfir og stráið svo rifnum osti yfir sósuna. Bakið fiskréttinn undir grilli þar til hann verður fallega gullinbrúnn. Berið fram með soðnum kartöflum og soðnu grænmeti.
Hér kemur síðan sósuuppskriftin ef einhver vill:
250 g smjör
3 eggjarauður
2 msk hvítvínsedik
2 msk vatn
kjötkraftur eftir smekk
1 msk söxuð steinselja
Bræðið smjörið í potti. Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði þar til þær eru orðnar að þykku kremi. Blandið bræddu, volgu smjöri varlega saman við. Hrærið hvítvínsediki og vatni saman við. Kryddið með kjötkrafti eftir smekk og blandið saxaðri steinselju saman við.
28. febrúar 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli