28. febrúar 2005

Rauðsprettu- og rækjugratin

Nú ætla ég að gerast kræf og brjóta höfundarrétt með því að birta hér uppskrift úr Fiskréttabók Hagkaupa. Hlýtur að fyrirgefast, fyrir plöggið, ég ráðlegg lesendum eindregið að kaupa bókina. Við erum búin að prófa nokkrar uppskriftir, flestar mjög góðar.

Þessa höfum við reyndar ekki prófað, en Hallveig ætlar að hafa þetta í kvöld. Hún verður að láta okkur vita hvernig til tókst.

Hér kemur:

Rauðsprettu- og rækjugratín.

800 g rauðsprettuflök með roði
2-3 msk smjör (stendur reyndar smjörlíki, en hei hver notar svoleiðis?)
salt
300 g rækjur
4 dl bearnaisesósa
100 g rifinn ostur

(Þetta með bearnaisesósuna, það er gefin uppskrift að afskaplega undarlegri útgáfu af svoleiðis, án allra kryddjurtanna sem gera bearnaisesósu að því sem hún er, estragon og kerfli skipt út fyrir steinselju. Ég myndi bara nota hollandaise úr pakka + bæta við saxaðri steinselju, nema það væri þeim mun meiri veisla hjá manni.)

Byrjið á að útbúa sósuna. Steikið rauðsprettuflökin í smjöri á vel heitri pönnu. Látið roðhliðina snúa upp, lækkið hitann og steikið í um 45 sekúndur. Snúið flökunum við, saltið og takið pönnuna af hitanum. Látið flökin jafna sig í um 2 mínútur. Ath, steikingartími fer eftir þykkt flakanna. Færið flökin upp á eldfast fat. Skiptið rækjunum á rauðsprettuflökin, setjið sósuna yfir og stráið svo rifnum osti yfir sósuna. Bakið fiskréttinn undir grilli þar til hann verður fallega gullinbrúnn. Berið fram með soðnum kartöflum og soðnu grænmeti.

Hér kemur síðan sósuuppskriftin ef einhver vill:

250 g smjör
3 eggjarauður
2 msk hvítvínsedik
2 msk vatn
kjötkraftur eftir smekk
1 msk söxuð steinselja

Bræðið smjörið í potti. Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði þar til þær eru orðnar að þykku kremi. Blandið bræddu, volgu smjöri varlega saman við. Hrærið hvítvínsediki og vatni saman við. Kryddið með kjötkrafti eftir smekk og blandið saxaðri steinselju saman við.

7. febrúar 2005

bollabolla

hæ þið sætu öll..

gerði geðveikan jarðarberjarjóma inn í bollurnar í gær, fann hann í nýjasta gestgjafanum sem ég keypti því í því eru fullt af karríuppskriftum.. elska karrí sko (Hildigunnur, þú mátt alveg henda hérna inn indversku rækjunum)

eníhú, hér er rjóminn:

250 ml rjómi
1 msk ljóst síróp (ætla að prófa hlynsíróp næst)
150 gr fersk jarðarber

saxið jarðarberin smátt. Þeytið rjómann þar til hann er er orðinn næstum fullþeyttur, setjið þá sírópið saman við og stífþeytið rjómann. Blandið jarðarberjunum varlega saman við.

ákvað að prófa þetta því ég hafði gleymt að gera venjubundna vanillubúðinginn minn sem þarf að gera daginn áður. En þetta sló hann út full stop! :D

bollurnar eru svo auðvitað vatnsdeigs og með þykku lagi af ekta síríus konsúmi ofan á.. að sjálfsögðu..

rækjur

Þættinum hefur borist bréf...

Hér kemur uppáhalds indverski rétturinn okkar, hér á heimilinu. Mmmm!

Indverskur rækjuréttur

500 g rækjur
1/2 dl matarolía
1 1/2 dl kasjúhnetur
1 stór laukur, í sneiðum
2 msk rifin engiferrót
2 msk pressaður hvítleukur
1/2 tsk chiliduft
1/4 tsk túrmerik
1 tsk kumin
2 maukaðir tómatar úr dós
1/4 ds hrein jógúrt
1 msk tómatkraftur
1 dl kókosmjöl
1/2-1 dl kókosmjólk
3 dl basmatigrjón
8 negulnaglar
4 kardimommur
1 kanilstöng
1 tsk salt
1 dl rjómi
saffran (nokkrir þræðir)

þíðið rækjurnar og þerrið. þvoið grjónin og látið liggja í bleyti í 15 mín. Sigtið vatnið frá. Hitið olíu á stórri pönnu. Bætið kasjúhnetunum út í og hrærsteikið þar til þær verða fallega brúnar. Geymið hneturnar á eldhúspappír. Bætið lauk út í sömu olíu og steikið, geymið hjá hnetunum. Bætið engifer, hvítlauk, chili, túrmeriki og kumin út í og steikið smástund. Bætið tómatmauki við og steikið áfram, síðan jógúrti og tómatkrafti, hrærið og steikið þar til olían skilur sig frá. Bætið kókosmjólk, kókosmjöli og salti við og hrærið í þar til blandan fer að þykkna. Setjið rækjurnar saman við, hrærið einu sinni og hellið öllu í eldfast fat.
Hitið ofninn í 180°. Hitið rjómann í örbylgjuofni í örstutta stund, bætið saffrani saman við og geymið. Hitið uþb 2,5 lítra af vatni í potti, bætið við negulnöglum, kanilstöng, kardimommum og salti og látið suðuna koma upp. Bætið hrísgrjónum við og sjóðið í 6-7 mínútur. Sigtið vatnið frá og setjið hrísgrjónin ofan á rækjurnar. Dreifið kasjúhnetunum og lauknum ofan á. Hellið síðan rjómanum yfir. Setjið álpappír yfir og lokið þannig að gufan haldist í mótinu. Bakist í 15-20 mínútur

Berið fram með rætu og nanbrauði

ræta:

1/2 agúrka, gróft rifin og safinn pressaður úr
1 ds hrein jógúrt
1/2 tsk salt
1/4 tsk cumin
1/2 ds sýrður rjómi
1/2 tsk sykur

hræra saman jógúrt, sýrðan rjóma, salt, cumin og sykur. Bæta við agúrkunni. Bera fram kalt

5. febrúar 2005

langar

annars einhvern í franska fýlurótarsúpu?

bananar, ja...

þessi kaka/desert er snilld. Kaupum stundum brúna matarbanana (hmm, eru bananar einhvern tímann ekki matur?) bara fyrir hana:

200 g möndlur
200 g suðusúkkulaði
4 vel þroskaðir bananar
(ef vill, einn fallegur, til skrauts)
100 g smjör
150 g sykur
3 egg, aðskilin

1. Fínsaxið eða malið möndlurnar og súkkulaðið. Skerið bananana fjóra í teninga.

2. Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst

3. Blandið eggjarauðunum, rifnu súkkulaði, möndlum og banönum út í deigið

4. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við deigið

5. Setjið blönduna í eldfast mót og bakið í 225° heitum ofni í 30 mínútur, hafið mótið í miðjum ofninum.

6. Skerið einn banana í sneiðar og skreytið.

Óhemju gott, heitt með ís...

4. febrúar 2005

Súpa

Þessi er víst æðisleg....

Mexíkósk kjúklingasúpa

Uppskriftin er fyrir 4

3 laukar
3 hvítlauksrif
1 rauður chillipipar

Allt saxað smátt, steikt á pönnu og sett í súpupottinn

1 flaska Granini tómatsafi
4-5 dl kjúklingasoð
2 tsk Worchestershiresósa
1 tsk chilikrydd
1 tsk cayenne pipar
2 dósir niðursoðnir tómatar, smátt saxaðir

Allt sett í pottinn og soðið við lágan hita í 45-60 mín

3-4 kjúklingabringur skornar í litla bita og steiktar, settar í pottinn og
soðnar með í 15 mín

Meðlæti: Guakamole 1 krukka, sýrður rjómi 1 dós, Nachos flögur og rifinn
ostur.
Hver og einn setur meðlætið á sinn súpudisk.
Verði ykkur að góðu!