4. maí 2013

kjúklingur í hvítvíni, salvíu og beikoni

Átti nokkrar pylsumeistara-beikonsneiðar í afgang síðan um daginn og salvíu sem ég var ekki nógu dugleg að vökva í eldhúsglugganum og var farin að þorna og fór því í uppskriftaleit á netinu. Fann enga sem hentaði mér algjörlega svo þessi er staðfærð úr nokkrum uppskriftum. Mjög gott! Hér er uppskriftin:

8 kjúklingalæri (það væri örugglega allt í lagi að velta bitunum upp úr hveiti! prófa það næst)
3 hvítlauksgeirar smátt saxaðir (væri ekki verra að vera líka með niðurskorinn skalottulauk.. prófa það næst! ;) )
2 msk góð ólífuolía
2 msk smjör
salt og pipar
150 ml þurrt hvítvín
250 ml kjúklingasoð (úr hálfum góðum teningi)
150 gr beikon saxað smátt
nokkur blöð af ferskri salvíu (10-15 eftir stærð) saxaðri gróft
3 msk nýkreistur sítrónusafi
1 tsk hlynsíróp

Meðlæti: risotto, polenta eða pasta t.d. tagliatelle

Bræðið smjörið saman við olíuna, stillið á miðlungshita og svitið hvítlaukinn í nokkrar mínútur. Saltið og piprið kjúklingalærin og steikið í hvítlauksolíunni í 8 mínútur á skinnhliðinni og 5 mínútur á hinni. Hellið svo hvítvíninu og soðinu yfir og látið sjóða niður í nokkrar mínútur. Veiðið kjúklinginn upp úr og hellið megninu af vökvanum af pönnunni í ílát og geymið, brúnið svo beikonið og salvíuna upp úr afgangnum af vökvanum á pönnunni í nokkrar mínútur.

Setjið lærin aftur á pönnuna, brúnið í 2-3 mín og setjið svo vökvann yfir. Látið malla í klukkutíma við lágan hita með lokið á, þó þannig að það sé svolítil rifa á milli.

Þegar kjúklingurinn er fulleldaður, veiðið hann þá upp úr, skellið sítrónusafanum og hlynsírópinu út á pönnuna og hrærið saman við sósuna. 

Undirbúið meðlætið, ef þið notið pasta eins og ég gerði, er gott að velta pastanu upp úr vökvanum á  pönnunni áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með nýrifnum parmigiano osti.





2. apríl 2013

Eggjanúðlur með svínakjöti, hvítkáli og grænmeti

Fífu langaði í núðlur í kvöld þannig að við hættum við að fara út í fiskbúð og keyptum smá inn í Krónunni í staðinn. Slatti var til af grænmeti þannig að litlu þurfti að redda.

Elduðum fyrir okkur fimm:

2 pakkar af eggjanúðlum
600 g svínahnakki
1 lítill hvítkálshaus (minnsti sem við fundum)
2 grænar paprikur
10 meðalstórir sveppir
1/2 laukur
handfylli af sesamfræjum ef vill
3 msk hitaþolin olía
lítil krukka hoisin sósa

Svínakjötinu skellt í frysti í kortér svo auðveldara sé að steikja, á meðan er grænmetið skorið í þunna strimla.

Sesamfræ þurrristað á pönnu

Vatn sett yfir til að sjóða núðlurnar.

Kjötið skorið í þunna strimla, ca sentimetra á þykkt.

Stór panna hituð mjög vel, þá er helmingi olíunnar hellt á pönnuna og þegar fer að rjúka úr brúnunum er kjötið veltisteikt þar til það er brúnt á öllum hliðum, um ein og hálf mínúta við hæsta hita. Kjötið tekið af pönnunni, hún hituð aftur, restin af olíunni sett á pönnuna, sveppir, laukur, paprika og helmingur kálsins settur út á. Nokkuð passlegt þarna að sjóða núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka.

Veltisteikt þar til byrjar að mýkjast og brúnast, þá er restin af kálinu sett saman við og steikt í 2-3 mínútur í viðbót eða þar til allt er orðið fagurbrúnt. Kjötið sett saman við, hoisin sósan líka, hrært vel í gegn og hitað aðeins.

Lykilatriði í steikingunni er að alltaf sé mjög góður hiti undir pönnunni og ekki sé of mikið sett á hana í einu (sérstaklega kjötið - það slapp samt alveg enda er ég með eina gashellu með ofurhita).

Borið fram með núðlunum og sojasósu eða meiri hoisin sósu ef vill. Stráið sesamfræjunum yfir ef vill.

Þetta var ALLT OF MIKILL MATUR fyrir okkur fimm. Dugar vel í hádegismat á morgun líka...
Enginn vandi er að breyta þessu í grænmetisrétt, bara sleppa svíninu. Örugglega gott. Vegan ef notaðar hrísgrjónanúðlur í stað eggjanúðla.

17. febrúar 2013

óelduð pizzasósa

mér finnst oft eins og það komi svolítið "processed" bragð af pizzasósu ef maður eldar hana eins og venjulega marinara sósu, eða venjulega ítalska tómatsósu. Því fór ég að kynna mér svokallaða óeldaða pizzasósu og er ekki frá því að mér finnist mun betra að gera þannig sósu fyrir heimagerða pizzu. Hún er auðvitað ekki óelduð, niðursoðnu tómatarnir hafa auðvitað verið eins og liggur í nafninu "soðnir niður" og svo eldast sósan auðvitað á pizzunni sjálfri. En mér finnst þetta mun fersklegra en sósa sem maður lætur sjóða niður, jafnvel í langan tíma eins og margir gera. Ef við værum með ferska tómata snéri dæmið auðvitað öðruvísi við! En hér er sósan sem ég er búin að vera að laga að okkar smekk síðustu nokkur skipti sem ég hef bakað pizzu heima:

hálf flaska passata (hér mætti auðvitað nota hágæða niðursoðna tómata sem maður myndi mauka, gott væri þá að hella slatta af vökvanum frá fyrst)
1 lítil dós tómatpúrra
2-3 hvítlauksgeirar pressaðir
1 tsk þurrkað oregano (eða 1 msk ferskt ef maður á það)
1/2 tsk laukduft (má sleppa)
1 tsk maldon salt
nokkrir snúningar nýmalaður svartur pipar
1/2 tsk sykur
1 msk hágæða extra virgin ólífuolía
1 tsk hágæða balsamik edik
2-3 msk niðursöxuð fersk basilika.

öllu blandað saman og svo bara skellt á botninn áður en áleggið fer á! uppáhalds hjá okkur er þunnt skorinn rauðlaukur og mozzarella sneiðar, pizzan bökuð og svo er eftirá sett parmaskinka, klettasalat, parmigiano flögur, meiri svartur pipar og nokkrir dropar í viðbót af ólífuolíunni góðu.

20. janúar 2013

Appelsínukjúklingur

Gamall uppáhaldsréttur hér á bæ, settur inn skv forvitnisbeiðni:

50 g smjör
25 g möndluflögur (má alveg vera meira)
1 kg kjúklingabitar. Nota ekki bringur í þennan.
salt
pipar
paprika
3 appelsínur

Bræðið helminginn af smjörinu og ristið möndlurnar við góðan hita þar til brúnar. Ilma gersamlega ómótstæðilega.

Kryddið kjúklinginn með salti, pipar og papriku. Steikið í afgangi smjörsins á öllum (tja báðum) hliðum. Leggið lok á pönnuna, lækkið hitann og steikið áfram í hálftíma (eða þar til bitarnir eru nærri gegnsteiktir). 

Á meðan, pressið safann úr tveimur appelsínanna, takið börkinn af þeirri þriðju og hreinsið mest af hvíta ruglinu af bátunum. Setjið safann og bátana saman við kjúklinginn á pönnunni og hitið vel í gegn, ca 5 mínútur. 

Berið fram með hrísgrjónum og stráið möndluflögunum yfir. 

19. janúar 2013

Voðalega góð fiskisúpa

Suðum súpuuppskrift (já og súpu auðvitað) upp úr nokkrum uppskriftum á vefnum. Fundum enga kókoskarrífiskisúpu sem okkur leist alveg nákvæmlega nógu vel á og ákváðum að púsla.

Í hana fór:

1 lítri vatn
1 laukur
3 gulrætur
2 hvítlauksrif
1 lítil dós tómatkraftur
smjör til steikingar
1 tsk karrí
1 dl hvítvín
1 bréf humargrunnur (svona Tasty humar sósu- og súpugrunnur)
1 stór dós kókosmjólk (bara þykki parturinn sem situr efst í dósinni ef maður opnar án þess að hrista)
2 dl rjómi
salt
pipar
1 rauð paprika
2 góðir laxabitar
poki af smárri hörpuskel

Laukur, gulrætur og hvítlaukur saxað frekar gróft. Smjör brætt á pönnu, karrí sett saman við. Laukurinn og gulræturnar steikt í 3-4 mínútur í karrísmjörinu við meðalháan hita, þá er hvítlauknum og tómatkraftinum bætt saman við og látið malla smástund við vægan hita. Skellt í pott, vatni, hvítvíni og humarsoði bætt við. Suðan látin koma upp og svo soðið í 15 mínútur undir loki við lægsta hita.

Á meðan, skera laxinn og paprikuna í fremur smáa bita.

Þegar 15 mínúturnar eru liðnar, setja kókosrjómann og rjómann saman við, hræra vel og smakka til með salti og pipri. Paprikan sett saman við og soðið í 3-4 mínútur.

Þá er fiskinum bætt saman við og suðan látin koma upp. Ekki láta sjóða neitt eftir það, ætti alveg að duga til að elda fiskinn.

Bárum fram með þessu súrdeigsbrauð ættað frá Sandholti en keypt í uppáhaldsbúðinni, Frú Laugu á Óðinsgötu. Og alvöru smjör, játakk!

Meira að segja fiskihatara heimilisins þótti súpan góð og fékk sér meira. Gæti ekki fengið betra hrós. Hefði dugað fyrir svona 8 manns - við eigum afgang í hádegismat á morgun!

14. janúar 2013

gazalega góð gulrótarsúpa

Bullaði þessa upp úr nokkrum uppskriftum sem ég fann.. örugglega einhverjar þarna úti mjög líkar! Hún var mjög góð, en næst ætla ég að bæta við 1/4 tsk chili dufti.

1 msk góð olía
1 laukur saxaður
3 hvítlauksrif söxuð fínt
1 cm engiferrót söxuð fínt
1 tsk túrmerik
1/2 tsk broddkúmen (cummin)
1/2 tsk malað kóríander

5 stórar gulrætur niðursneiddar
1 meðalstór sæt kartafla skorin í bita

1 l sjóðandi vatn og tveir grænmetisteningar (helst rapunzel eða annar góður lífrænn)

1 stór og 1 lítil dós kókosmjólk (má vera ein stór, átti bara þessa litlu líka. Eins mættu vera 2 dósir, en minnkið þá vatnið á móti)

maldon salt og pipar

ferskt kóríander til að strá yfir

Steikið laukinn, hvítlaukinn, engiferið og kryddin í olíunni í nokkrar mínútur í þykkbotna potti. Setjið allt sem  eftir er í pottinn, hitið að suðu og látið malla í hálftíma. Maukið súpuna með töfrasprota eða í smáskömmtum í blandara og smakkið til með salti og pipar.

Berið fram með fersku niðursöxuðu kóríander og góðu brauði.


8. desember 2012

Kálfapottréttur

Keyptum kálfagúllas í Frú Laugu um daginn (hlakka ekki smá til að fá Laugu litlu hér á Óðinsgötuna) án þess að vita svo sem hvað við ætluðum að gera við það. Eitthvað smá vorum við búin að brjóta heilann en svo datt inn uppskrift á allrecipes.com sem ég birti hér án þess að skammast mín hætishót.

1 kg kálfagúllas
1 meðalstór laukur, saxaður
2 hvítlauksrif (má vera meira)
smjörbiti til að steikja upp úr (þeir segja olía, við notuðum smjör)
dós af tomato sauce eða cassata
1/2 bolli hvítvín
salt og pipar

Bræðið smjörið í stórum potti. Mýkið lauk og hvítlauk í smjörinu án þess að brúna of mikið. Bætið kjötinu í pottinn og brúnið allar hliðar.

Hellið tomato sauce/cassata (vonlaust að nota orðið tómatsósa) og víninu saman við, kryddið með salti og pipri að vild. Lækka hitann niður í lægsta og láta malla undir loki í einn og hálfan klukkutíma eða þar til meyrt.

Og meyrt var það!

Bárum þetta fram með kartöflustöppu bragðbættri með matskeið af dijonsinnepi. Talað um núðlur í allrecipes uppskriftinni en ég held að stappan passi betur.

Mæli annars með síðunni, við höfum fundið alveg fullt af góðum uppskriftum þar.