mér finnst oft eins og það komi svolítið "processed" bragð af pizzasósu ef maður eldar hana eins og venjulega marinara sósu, eða venjulega ítalska tómatsósu. Því fór ég að kynna mér svokallaða óeldaða pizzasósu og er ekki frá því að mér finnist mun betra að gera þannig sósu fyrir heimagerða pizzu. Hún er auðvitað ekki óelduð, niðursoðnu tómatarnir hafa auðvitað verið eins og liggur í nafninu "soðnir niður" og svo eldast sósan auðvitað á pizzunni sjálfri. En mér finnst þetta mun fersklegra en sósa sem maður lætur sjóða niður, jafnvel í langan tíma eins og margir gera. Ef við værum með ferska tómata snéri dæmið auðvitað öðruvísi við! En hér er sósan sem ég er búin að vera að laga að okkar smekk síðustu nokkur skipti sem ég hef bakað pizzu heima:
hálf flaska passata (hér mætti auðvitað nota hágæða niðursoðna tómata sem maður myndi mauka, gott væri þá að hella slatta af vökvanum frá fyrst)
1 lítil dós tómatpúrra
2-3 hvítlauksgeirar pressaðir
1 tsk þurrkað oregano (eða 1 msk ferskt ef maður á það)
1/2 tsk laukduft (má sleppa)
1 tsk maldon salt
nokkrir snúningar nýmalaður svartur pipar
1/2 tsk sykur
1 msk hágæða extra virgin ólífuolía
1 tsk hágæða balsamik edik
2-3 msk niðursöxuð fersk basilika.
öllu blandað saman og svo bara skellt á botninn áður en áleggið fer á! uppáhalds hjá okkur er þunnt skorinn rauðlaukur og mozzarella sneiðar, pizzan bökuð og svo er eftirá sett parmaskinka, klettasalat, parmigiano flögur, meiri svartur pipar og nokkrir dropar í viðbót af ólífuolíunni góðu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Spennandi - verð að prófa þetta næst! Við erum reyndar oftast löt og notum pizzaprontó eða álíka en höfum stundum soðið sósu sjálf.
Skrifa ummæli