Suðum súpuuppskrift (já og súpu auðvitað) upp úr nokkrum uppskriftum á vefnum. Fundum enga kókoskarrífiskisúpu sem okkur leist alveg nákvæmlega nógu vel á og ákváðum að púsla.
Í hana fór:
1 lítri vatn
1 laukur
3 gulrætur
2 hvítlauksrif
1 lítil dós tómatkraftur
smjör til steikingar
1 tsk karrí
1 dl hvítvín
1 bréf humargrunnur (svona Tasty humar sósu- og súpugrunnur)
1 stór dós kókosmjólk (bara þykki parturinn sem situr efst í dósinni ef maður opnar án þess að hrista)
2 dl rjómi
salt
pipar
1 rauð paprika
2 góðir laxabitar
poki af smárri hörpuskel
Laukur, gulrætur og hvítlaukur saxað frekar gróft. Smjör brætt á pönnu, karrí sett saman við. Laukurinn og gulræturnar steikt í 3-4 mínútur í karrísmjörinu við meðalháan hita, þá er hvítlauknum og tómatkraftinum bætt saman við og látið malla smástund við vægan hita. Skellt í pott, vatni, hvítvíni og humarsoði bætt við. Suðan látin koma upp og svo soðið í 15 mínútur undir loki við lægsta hita.
Á meðan, skera laxinn og paprikuna í fremur smáa bita.
Þegar 15 mínúturnar eru liðnar, setja kókosrjómann og rjómann saman við, hræra vel og smakka til með salti og pipri. Paprikan sett saman við og soðið í 3-4 mínútur.
Þá er fiskinum bætt saman við og suðan látin koma upp. Ekki láta sjóða neitt eftir það, ætti alveg að duga til að elda fiskinn.
Bárum fram með þessu súrdeigsbrauð ættað frá Sandholti en keypt í uppáhaldsbúðinni, Frú Laugu á Óðinsgötu. Og alvöru smjör, játakk!
Meira að segja fiskihatara heimilisins þótti súpan góð og fékk sér meira. Gæti ekki fengið betra hrós. Hefði dugað fyrir svona 8 manns - við eigum afgang í hádegismat á morgun!