27. desember 2011

rósmarín- og hvítlaukspasta

Þessi sló í gegn hjá okkur, fyrir utan svolítið smjör er hann fullkominn til að vega upp á móti öllum steikunum.

Upprunaleg uppskrift hér.

6 msk smjör
2 meðalstórir laukar, fínt saxaðir
6 hvítlauksrif, fremur gróft söxuð
1 bolli kjúklingasoð
2 msk saxað ferskt rósmarín
500 g spakettí (á myndinni sem fylgir upprunalegu uppskriftinni er skrítnasta spakettí sem ég hef séð)
salt og pipar
nýrifinn parmaostur

Bræðið 4 msk af smjörinu á pönnu við vægan hita. Brúnið laukinn vel (um 10 mínútur). Bætið hvítlauk saman við og steikið áfram í 2 mínútur eða svo. Setjið kjúklingasoð og rósmarín saman við, hækkið hitann og sjóðið niður um þriðjung (5-6 mínútur hjá mér).

Á meðan, sjóðið spakettíið skv leiðbeiningum á pakka.

Þegar hvort tveggja er soðið, hellið pastanu í skál, setjið restina af smjörinu saman við ásamt parmaosti, hrærið þar til bráðið. Sósan fer saman við og njótið.

heitt súkkulaði

Var í dag að lesa blogg hjá frægum matarbloggara í Ameríkunni hvar hún var að kenna fólki að búa til heitt súkkulaði og lýsa því hvað litlir súkkulaðikekkir í drykknum væru nú æðislegir. Sem segir mér bara eitt - hún kann ekki að laga alvöru súkkulaði.

Það má auðvitað fara eftir notkunarreglunum á Síríuspökkunum en mér hefur reynst best eftir nokkrar tilraunir að nota þessa aðferð:

1 lítri mjólk (nýmjólk er góð, léttmjólk dugar fínt, rjómabland er dekadens)
200 g Síríus suðusúkkulaði, má gjarnan nota 56 eða 70% ef endilega vill
hnífsoddur af salti (skylda)
vanilla ef vill

Hitið mjólkina að suðu. Setjið salt og vanillu (ef notað) saman við.
Bræðið súkkulaðið, örbylgjuofn er í fína lagi, eða þá skál yfir vatnsbaði. Bara passa að ofhita ekki súkkulaðið, ágætt að hita þannig að enn séu óbráðnir bitar, hræra síðan í og láta bráðna súkkulaðið um að mýkja afganginn.

Hellið lítilli ausufylli af heitu mjólkinni saman við súkkulaðið og hrærið vel. Ekki fara í panikkast ef súkkulaðið þykknar illilega, bara hræra áfram og bæta meiri mjólk saman við, þetta mun á endanum (eftir svo sem 2-3 mjólkurviðbætur) verða mjúkt og fljótandi. Þá er í lagi að hella súkkulaðinu saman við mjólkina.

Ekkert vera að hita blönduna meira, það er ekkert gott að brenna sig á tungunni, súkkulaðið er best um 60-70°


Heitt kakó, já ég treysti mér til að búa til kakó sem slær út heita súkkulaðið hjá 90% kaffihúsa á landinu og þó víðar sé leitað. Trikkið er að nota jafnmikið af kakódufti og sykri, ekki 3/4 sykur og 1/4 kakó eins og lýst er í þeim uppskriftum sem ég hef fundið á netinu. 0.75 dl kakó plús 0.75 dl sykur í lítra af mjólk er fínt, sama með sykur og vanillu og lýst er í súkkulaðiuppskriftinni. Hita mjólkina, hrista saman sykur, kakó, salt, vanillu og nægilegt vatn til að búa til hellanlega blöndu, Ef vill má setja chili eins og í Mexíkó. Bara best.

20. nóvember 2011

píadínur

Uppáhalds ítalski skyndibitinn okkar, ættaður frá Emilia Romagna. Þaðan kemur líka tagliatelle bolognese sem hér hefur áður birst, alveg bara besti pastaréttur í heimi imnsho.

450 g hveiti (helst durumríkt, notum yfirleitt Pillsbury's, það dugar þó til séu betri)
110 g svína- eða andafita
smá salt
2-3 dl volgt vatn

Feitin og hveitið mulið saman ásamt salti, hraukað upp og laut búin til í miðju hrúgunnar, um 1 dl af vatninu hellt saman við og hnoðað. Vatni bætt við eftir þörfum, þar til deigið hættir að loða við hendurnar.

Deiginu skipt í 12 hluta, hver hluti flattur út og steiktur á sléttri pönnu (við erum með sérstaka píadínupönnu en það má vel steikja þetta á pönnukökupönnunni - ég hugsa að það fari ekki með viðloðunina á pönnunni). Steikt við miðlungshita þar til brúnir flekkir hafa myndast, yfirleitt myndast bólur á kökunum og þá er passlegt að snúa þeim við.

Við erum yfirleitt með tvenns konar fyllingar, annars vegar parmaskinku, mozzarella og klettasalat og hins vegar gullost og hunang, en auðvitað má setja allt sem hugurinn girnist í kökurnar. Fyllingin er sett á helming kökunnar, hinn brotinn yfir og kakan steikt í 3 mínútur (eða þar til osturinn er bráðinn) undir loki á lægsta hita.

28. ágúst 2011

kryddað pastasalat

bjó til ansi gott pastasalat í kvöld, ættað frá Pioneer Woman í Ameríkunni.

Í það fóru:

500 g pastaskeljar
1/2 bolli mæónes (notaði nú bara Gunnars þó matarskríbentarnir í Fréttatímanum telji það ekki mæónes)
1/4 bolli léttmjólk (hún segir nýmjólk en ég átti ekki)
4 msk borðedik
1 1/2 tsk piparsósa
1/2 tsk salt
svartur pipar
1 bakki kirsuberjatómatar skornir í helminga á lengdina
250 g gouda skorinn í bita (átti að vera reyktur en svoleiðis fæst ekki svo glatt hér)
24 heil basilblöð

Sjóðið pastað og kælið undir kalda krananum.

Klippið baslið í ræmur.
Blandið saman mæónesi, mjólk, ediki, salti, pipar og piparsósu.

Hrærið saman pasta, tómötum og ostbitum í stórri skál, hellið sósunni yfir ásamt basli og látið standa í ísskáp í amk. klukkutíma.

Virkaði fínt sem (semi)léttur kvöldmatur hér á bæ, ásamt hvítlauksbrauði en væri örugglega líka hörkufínn í samskotapartí.

Hér er upprunalega uppskriftin.

13. ágúst 2011

Dásamlegur kryddjurtakjúklingur

4 kjúklingabringur
1 tsk allrahanda
1/2 tsk cayennepipar
1 tsk kanill
2 fínsaxaðir vorlaukar
2 greinar timjan
1-2 msk muscovadosykur eða púðursykur
1 msk matarolía
límónusafi eftir smekk/límónubátar til skrauts
ferskur kóríander til skrauts
maldonsalt

4 dl basmatigrjón
1 tsk chiliflögur
2 saxaðir vorlaukar
4 dl kókosmjólk
4 dl vatn
1 tsk salt

Blandið saman öllu kryddinu, sykrinum og lauknum, nuddið
kjúklingabringurnar vel upp úr blöndunni. Grillið kjúklinginn í ca 6
mínútur á hlið, eða þar til fulleldaður. Berið fram með límónubátum,
kóríander og kókosgrjónum

grjón:

Setjið grjónin, chiliflögurnar, laukinn og kókosmjólkina og vatnið saman í pott. Saltið og sjóðið eftir leiðbeiningum á pakka eða þar til grjónin eru meyr.

29. mars 2011

marineraðir bananar

skv pöntun:

50 g smjör
2 msk púðursykur
2 msk sítrónusafi
4 bananar (alls ekki óþroskaðir!)
2 msk koníak (má sleppa)

Rjómi eða ís

Stillið ofninn á 180° Bræðið smjör og púðursykur í ofninum í eldföstu fati. Skerið banana í sneiðar á ská og veltið vel upp úr smjör/sykurblöndunni. Bætið koníaki í ef vill. Bakið í ofni í 20 mínútur.

Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma. Gamall klassíker hér á bæ úr uppskriftabók sem er að verða komin í frumeindir sínar. Séu bananarnir of grænir er hægt að skipta þeim út fyrir hráar kartöflur þannig að það er best að passa upp á þá. Vorum með þetta í matarboði um daginn, einn bananinn þroskaður en hinir svolítið grænir. Stöku biti var æðislegur en hinir voru hreint ekki góðir. (Efast um að ég hefði fengið beiðni um uppskrift ef það hefðu bara verið þeir grænu...)

6. mars 2011

cassoulet

enn af lúxusmatnum.

Við höfum gert þennan suðurfranska landrétt áður en þá með lambakjöti, já reyndar mjög ólíka uppskrift (spurning um jafnvel að henda henni líka inn, sú hentar eiginlega betur hérlendis) en ég lofaði að setja þessa útgáfu hér.

500 grömm haricots blancs eða smjörbaunir - ef ekki úr dós þarf að leggja þær í bleyti daginn áður og skola síðan og sjóða
Hæfilega mikið svínakjöt, miðað við fyrir hve marga skal eldað
Confit de canard, (kanarífuglakonfekt upp á íslenskuna) einn skammtur á matargest
Toulouse svínapylsur (eða aðrar góðar pylsur) ein á mann
2 dósir af niðursoðnum tómötum
5 hvítlauksrif
1 lítil dós tómatkraftur
Chorizopylsa (eða sambærileg), 15 cm ef þumalþykk pylsa, 2 cm ef úlnliðsþykk, smátt skorin
10 muldir negulnaglar (alveg nauðsynlegt samkvæmt uppskriftarhöfundi á netinu, ekki endilega standard í suðurfrakklandi)
salt og pipar

Ekki veit ég hve marga kjötskammta er ætlast til að hver borði. En svo sem ekki slæmt að eiga afgang...

Skerið svínakjötið í bita og steikið í smá af andafeitinni úr dósinni í stórum potti (reikna ekki með að neinn hér nenni að standa í að sjóða niður andalæri sjálfur).

Bætið baunum, chorizopylsu, tómötum og tómatkrafti, hvítlauk, salti, pipri og muldum negulnöglum saman við. Fyllið upp með vatni þar til flýtur nokkurn veginn yfir. Komið upp suðu, setjið lok á pottinn og látið malla í klukkutíma eða svo.

Á meðan, steikið pylsurnar, einnig í smá andafeiti. Stillið ofninn á 180°

Þegar klukkutíminn er liðinn (eða þegar svínakjötið og baunirnar eru fullsoðnar), bætið við vatni ef þarf (þurftum ekki), setjið pylsurnar ofan á og þar fyrir ofan andalærin. Setjið í ofninn og hitið í hálftíma eða svo.

Berið fram með góðu brauði, fullkomið

27. febrúar 2011

dúkan

Fann þennan marokkóska rétt í ókeypis blaði í Ástralíuvél, reif blaðsíðuna úr blaðinu og geymdi, nánast orðið ár síðan þá og loksins komst í verk að prófa.

Skemmst frá því að segja að þetta verður gert aftur. Og aftur.

Þetta er hvorki dýrt né snúið, en maður þarf að hafa tímann fyrir sér því kjötið tekur góða stund í ofninum. Má líka standa yfir nótt í marineringunni þó við gerðum það reyndar ekki í dag.

1 lambabógur, um 2 kíló
150 grömm smjör, mjúkt
1 msk salt (hljómar mikið en það er síðan ekkert salt í meðlætinu) - Aths. Var víst bara sett teskeið. Það var feikinóg...
1 tsk mulinn svartur pipar (notuðum reyndar hvítan, kom ekki að sök)
1 msk cumin

Fitusnyrtið kjötið. Blandið saman mjúku smjörinu og kryddinu og makið kjötið með því. Vefjið síðan bóginn í álpappír, eins þétt og þið getið. Leyfið að standa í amk. klukkutíma (við stofuhita) eða yfir nótt í ísskáp.
Þegar marineringu er lokið setjið bóginn í stórt eldfast fat með loki, leyfið að ná stofuhita ef það var í ísskáp. Ekki taka álpappírinn af. Hellið könnu af vatni yfir, (ég notaði 1/2 lítra). Hitið ofninn í 180° gráður. Setjið fatið í ofninn og leyfið að steikjast í 2 1/2 klukkustund. Takið síðan álpappírinn af og lokið af fatinu, setjið aftur inn í ofninn og leyfið að brúnast í hálftíma til. Gott er að athuga hvort kjötið er tilbúið með því að snúa beininu örlítið, það á að losna auðveldlega frá kjötinu. Ef það gerist ekki, hafið þá kjötið lengur inni.

Meðan kjötið er í þessum síðasta fasa, undirbúið meðlætið:

300 g basmati hrísgrjón
600 ml vatn
50 g pistasíur án skelja
6 negulnaglar
50 g smjör
1/2 tsk engiferduft
1/2 tsk kanill
1/4 tsk múskat
50 g möndlur án hýðis, léttristaðar og gróft saxaðar
30 g rúsínur lagðar í bleyti smástund (sultanas í uppskriftinni en ég notaði nú bara venjulegar rúsínur)
2 stórir laukar, niðursneiddir og steiktir þar til gullinbrúnir
1 msk hunang

Skolið hrísgrjónin vandlega til að losna við sterkjuna (nenni því eiginlega aldrei en gerði þó í dag). Setjið í pott ásamt vatninu, lok á pottinn, komið upp suðu og lækkið. Sjóða við lægsta hita í 12-14 mínútur og slökkva síðan undir. Ekki opna pottinn á meðan á suðu stendur.

Á meðan grjónin sjóða, steikja laukinn í smá smjöri, setja til hliðar, hakka möndlurnar. rista möndlur og pistasíur á pönnu í 1-2 mínútur, setja negulnaglana á pönnuna og steikja í smástund í viðbót. Þá er smjöri og kryddi bætt á pönnuna og blandað vel saman, þá er lauk, hunangi og rúsínum blandað saman við. Lok sett á pönnuna og leyft að standa í 5-10 mínútur.

Hrísgrjónin ættu nú að hafa sogið í sig allt vatn. Hrærið í þeim með gaffli og setjið síðan lauk- og pistasíu/möndlublönduna saman við og blandið vel saman.

Berið fram með lambinu og soðinu úr fatinu (gott að fleyta mestu feitinni ofan af soðinu, það er vel feitt).

Kjötið var ótrúlega meyrt og gott, ég á ekki eftir að elda lambabóg öðruvísi en með þessari aðferð héðan í frá. Krakkarnir gleyptu í sig bæði kjöt og grjón með góðri lyst.

13. febrúar 2011

humar risotto

Gerði rosa gott humar-risotto í kvöld.

Fyrst gerði ég humarsoð úr skeljunum, uppskriftin er frá Nönnu Rögnvaldar:

brúnið skeljarnar lítillega í olíu, saxið gróflega hálfan lauk(með hýðinu), eina gulrót og einn sellerístilk og steikið með í nokkrar mínútur. Setjið saman við tvær greinar af timian, eitt lárviðarlauf, vel af salti og nýmöluðum pipar og einn lítra af sjóðandi vatni. Sjóðið í hálftíma (ekki lengur, þá kemur beiskt bragð af skeljunum), sigtið og geymið.

Þá er komið að risottóinu sjálfu:

Innihald:
1 lítri humarsoð (má auðvitað nota keypt ef fólk nennir ekki að standa í hinu)
1 laukur saxaður
4 skallottulaukar saxaðir (má sosum setja meira af venjulegum, notaði skallottulauk fyrst ég átti hann)
3 hvítlauksrif fínt söxuð
300 gr arboriogrjón
smjör og olía
150 ml hvítvín
nokkrir þræðir saffran
1 bolli rifinn parmigiano reggiano
400 gr humar (skelflettur og skelin notuð í soðið) skorinn í bita.
aukasmjör og olía, sítrónusafi ef vill og smá hvítvínssletta
2 msk söxuð steinselja

meiri parmigiano til að dreifa yfir við borðið.



Mýkið lauk, hvítlauk og skallottulauk í slatta af olíu og smjöri (1-2 msk af hvoru). Setjið grjónin saman við laukinn og hyljið í feitinni. Hellið hvítvíninu saman við og látið sjóða upp af, hrærið stöðugt í á meðan. Myljið saffran þræðina yfir grjónin.

Bætið svo við einni ausu af soðinu í einu, hrærið stöðugt og látið sjóða vel upp af á milli þar til grjónin eru tilbúin, það á ennþá að vera smá "bæt" í grjónunum (tekur ca lítra af soði fyrir 300 gr grjón). Þegar stutt er eftir af grjónunum steikið þá humarbitana upp úr smjöri og smá olíu, kreistið smá sítrónusafa út á og skvettið svolitlu hvítvíni á pönnuna. Hrærið parmigiano ostinum saman við grjónin, blandið svo humrinum (og safanum af pönnunni) saman við, dreifið steinseljunni yfir og berið fram með meiri parmigiano.