28. febrúar 2010

Cantucci di Giorgia

Þetta er uppskrift að cantucci (eða biscotti, eða eitthvað) sem ég fékk frá kunningjakonu í Róm, Giorgiu. Amma hennar bakar þetta, en uppskriftin er upprunalega frá Toscana.

500 g hveiti
300 g sykur
100 g brætt smjör
300 g afhýddar möndlur
4 egg (+ eitt til að pensla með)
Salt á hnífsoddi
1 msk lyftiduft
Raspað hýði af einni sítrónu
2 skeiðar af áfengi (ef vill)

Ristið möndlurnar í ofninum í nokkrar mínútur og grófhakkið (það má líka hafa þær heilar). Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið eggjarauðurnar og sykurinn saman. Siktið hveiti í skál og bætið lyftidufti, salti út í og svo smám saman eggjahrærunni og smjörinu. Hrærið allt í höndunum þangað til degið er mjúkt og slétt. Bætið möndlunum saman við og hrærið þangað til degið er mjúkt aftur.

Búið til lengjur (2-3sm í þvermál) og leggið á bökunarplötu með pappír.

Bakið lengjurnar í ofni í 15 mín á 180°C (í miðjum ofninum). Að því loknu á að skera lengjurnar í ca. 1,5cm breiðar sneiðar.

Ristið kexin í 25 mínútur á 150°C. Snúið þeim síðustu fimm mínúturnar. Þau eiga að verða gullinbrún.

Kælið kexin og látið standa í 20 tíma áður en þeirra er neytt (með Vin Santo).

Ég sullaði nú bara öllu saman í plastskál og hrærði saman. Þetta varð hálfklessulegt og ljótt á bökunarplötunni svo ég er viss um að amma hennar Giorgiu hefði fengið hjartaáfall ef hún hefði séð þetta hjá mér ...

1 ummæli:

Herdis sagði...

Mér sýnist þetta nú bara líta afbragðsfínt út hjá þér. Ef amman hefði fengið hjartaáfall yfir þessu þá segi ég nú bara, good riddance!