10. júlí 2006

raita

hálf röspuð gúrka (þegar maður er búinn að raspa hana kreistir maður safann úr gumsinu)
2-3-4 dl hreint jógúrt (eftir smekk)
1 hvítlauksrif
safi úr hálfu læmi
smá chiliduft

ég poppa svo nokkur kumminfræ á snarpheitri eldavélarhellunni og myl þau yfir.

grænmetistikka

það er eiginlega ekki til nein uppskrift .... bara ímyndunarafl ... og smá g&t
Það er hægt að nota hvaða grænmeti sem er og ef maður er í þannig skapi má alveg skella kjúkling saman við.

Ég nota mikið af kryddi. Mjög mikið.

Grænmeti (t.d. 6-8 kartöflur, 1 laukur, 2 lítil fennel, 2 gulrætur, 1 zuccini, 1/2 blómkálshaus, 1 paprikka, 1-2 rauð chili)
sex vel þroskaðir tómatar
nokkrar matskeiðar af tikkapeist, eða bara einhverju karrípeist
2-3 dl af hreinu jógúrti
kumminfræ
haldi/túrmerik/gúrkmeja
kóriander
sinnepsfræ
garam masala
1 dl vatn

Þessi uppskrift dugir fyrir 6-8 (og þá er smá afgangur daginn eftir)

Hita krydd í olíu og smjöri á pönnu. Steikja grænmeti í hollum og færa yfir í mjög stóran pott. Sulla peistinu og jógúrtinu yfir. Brytja tómatana í mjög litla bita og setja útí ásamt með smá vatni. Láta malla í klukkutíma.

kjúklingabaunakarrí

þetta er líka eftir mjög grófu minni

tvær dósir af kjúklingabaunum
ca. 400 grömm af hökkuðum tómötum úr dós (ekki nota eitthvað drasl með kryddi í ... ég var eitthvað utanvið mig þegar ég var útí búð og keypti eitthvað með ítölsku kryddi og hvítlauk ... viðbjóður!!!)
tveir stórir laukar
fjögur hvítlauksrif
engifer (u.þ.b. 1 teskeið, ég notaði eina matskeið)
kumminfræ eftir smekk
2 tsk haldi/túrmerik/gúrkmeja
1 tsk garam masala
1 tsk kóriander
1 tsk chiliduft

hita olíu og smá smjörklípu í meðalstórum potti (betra að nota ghee, náttúrlega), hita kummin,haldi,garam masala duglega og lækka hitann, svissa laukinn þar til hann er mjúkur, ekki brúnn ... bæta hvítlauk, engifer, kóriander, chili út í og svo kjúklingabaununum (muna að hella safanum af fyrst) og tómötunum.

láta malla á lágum hita í 15 mín, voilà!

dhal

nú voru góð ráð dýr, laukur í uppskriftinni en enginn í ísskápnum ... þá var notað blómkál í staðinn

og þetta er eftir mjög grófu minni

3 dl rauðar linsur
5 dl vatn
blómkálshaus
duglega af hvítlauk og engifer
kummin steytt úr hnefa
sletta af haldi/túrmeriki/gúrkmeju eða hvað það nú heitir þetta appelsínugula og kórianderdufti
smjör og olía (náttúrlega best að nota ghee)
salt eftir þörfum og ögn af sykri

skola linsur og hreinsa burt skemmdar ... láta liggja í vatni meðan blómkálið er steikt
smjörklípa og skvetta af olíu hitað duglega í meðalstórum potti (bara passa að það kvikni ekki í olíunni)
kumminfræin, haldiið og kórianderið hitað þar til kumminfræin byrja að poppa.
taka pottinn af hellunni og skella blómkálinu út í og hræra duglega. þegar hitinn hefur jafnað sig má bæta engiferinu og hvítlauknum út í ... steikja saman smá.
hella vatninu af linsunum, skella þeim yfir blómkálið saman með 5 dl af vatni.
láta suðuna koma upp og láta svo malla rólega í u.þ.b. 15 mínútur. Hræra í af og til.
Síðustu fimm mínúturnar verður maður að standa yfir pottinum því allt heila klabbið getur auðveldlega brunnið við.

Svo lætur maður þetta jafna sig í pottinum, hrærir af og til, og saltar eftir smekk.
Það þarf ekkert að sykra, en 1/4-1/2 teskeið gerir reyndar gæfumuninn.

Þetta má standa á bekknum í klukkutíma áður en maður borðar, annars má líka alveg hita upp.

staðið við minn hluta dílsins

hér kemur laxinn úr afmælisboði helgarinnar, uppskriftin var í mogga allra landsmanna og alveg svakalega góð:

Lax í kryddlegi
f. 4

laxasneiðar, ca 1 á mann.

lögur:
1/2 dl ólífuolía
1 msk hvítvínsedik
1 msk dijon sinnep
1 msk sætt sinnep
2 hvítlauksrif marin
1 tsk nýmalaður svartur pipar
1 msk ferskt estragon (1 ein tsk þurrkuð)

blandið öllu saman og leggið laxinn í löginn í um það bil hálftíma og grillið svo við meðalhita í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

með þessu sauð ég brún hrísgrjón og gerði sósu úr sýrðum rjóma, dijon sinnepi, hunangi, smá maldon salti og fersku estragoni. Í mogganum var mælt með grilluðum bökunarkartöflum með guacamole með þessu en ég nennti því nú ekki oní svona margt fólk. Svo hafði ég fermingarsalatið hennar Hildigunnar, vínin voru cloudy bay chardonnay og svo gott Chablis og í desert þetta hér. Ekkert nema snilldin ein.