Þessi tilraunaréttur var óvart tekinn um daginn þegar steinbíturinn/hlýrinn sem við ætluðum að hafa í matinn fékkst ekki hér á Freyjugötunni. Sló í gegn.
Samkvæmt uppskriftinni á að vera fiskur sem heitir lemon sole (þykkvalúra á íslensku) en hann var svosem ekki til heldur. Rauðsprettan var fín.
4 flök rauðspretta
3 msk hveiti
1/2 tsk salt
nýmalaður svartur pipar, (notuðum reyndar hvítan)
1 1/2 msk sólblómaolía
45 g smjör í bitum
safi úr 1/2 sítrónu
1 msk söxuð steinselja
1 msk smár kapers
Beinhreinsið fiskinn ef þarf.
Blandið saman hveiti, salti og pipar og dreifið á disk. Húðið fiskflökin með hveitinu.
Hitið olíuna vel á stórri pönnu. Lækkið niður í meðalhita og steikið 1-2 mínútur á hlið eða þar til fiskurinn er gullinbrúnn. Snúið við og endurtakið við hina hliðina. Takið af pönnunni og vefjið í álpappír til að halda heitu.
Bræðið smjörið á pönnunni og brúnið létt. Takið af hitanum og blandið sítrónusafanum, kapersi og steinselju saman við. Setjið fiskinn aftur á pönnuna, ausið smá af sítrónusmjörinu yfir og berið fram.
Uppskriftin frá henni Rachel Khoo og fengin hér með smábreytingum.
24. nóvember 2012
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli