27. desember 2011

rósmarín- og hvítlaukspasta

Þessi sló í gegn hjá okkur, fyrir utan svolítið smjör er hann fullkominn til að vega upp á móti öllum steikunum.

Upprunaleg uppskrift hér.

6 msk smjör
2 meðalstórir laukar, fínt saxaðir
6 hvítlauksrif, fremur gróft söxuð
1 bolli kjúklingasoð
2 msk saxað ferskt rósmarín
500 g spakettí (á myndinni sem fylgir upprunalegu uppskriftinni er skrítnasta spakettí sem ég hef séð)
salt og pipar
nýrifinn parmaostur

Bræðið 4 msk af smjörinu á pönnu við vægan hita. Brúnið laukinn vel (um 10 mínútur). Bætið hvítlauk saman við og steikið áfram í 2 mínútur eða svo. Setjið kjúklingasoð og rósmarín saman við, hækkið hitann og sjóðið niður um þriðjung (5-6 mínútur hjá mér).

Á meðan, sjóðið spakettíið skv leiðbeiningum á pakka.

Þegar hvort tveggja er soðið, hellið pastanu í skál, setjið restina af smjörinu saman við ásamt parmaosti, hrærið þar til bráðið. Sósan fer saman við og njótið.

heitt súkkulaði

Var í dag að lesa blogg hjá frægum matarbloggara í Ameríkunni hvar hún var að kenna fólki að búa til heitt súkkulaði og lýsa því hvað litlir súkkulaðikekkir í drykknum væru nú æðislegir. Sem segir mér bara eitt - hún kann ekki að laga alvöru súkkulaði.

Það má auðvitað fara eftir notkunarreglunum á Síríuspökkunum en mér hefur reynst best eftir nokkrar tilraunir að nota þessa aðferð:

1 lítri mjólk (nýmjólk er góð, léttmjólk dugar fínt, rjómabland er dekadens)
200 g Síríus suðusúkkulaði, má gjarnan nota 56 eða 70% ef endilega vill
hnífsoddur af salti (skylda)
vanilla ef vill

Hitið mjólkina að suðu. Setjið salt og vanillu (ef notað) saman við.
Bræðið súkkulaðið, örbylgjuofn er í fína lagi, eða þá skál yfir vatnsbaði. Bara passa að ofhita ekki súkkulaðið, ágætt að hita þannig að enn séu óbráðnir bitar, hræra síðan í og láta bráðna súkkulaðið um að mýkja afganginn.

Hellið lítilli ausufylli af heitu mjólkinni saman við súkkulaðið og hrærið vel. Ekki fara í panikkast ef súkkulaðið þykknar illilega, bara hræra áfram og bæta meiri mjólk saman við, þetta mun á endanum (eftir svo sem 2-3 mjólkurviðbætur) verða mjúkt og fljótandi. Þá er í lagi að hella súkkulaðinu saman við mjólkina.

Ekkert vera að hita blönduna meira, það er ekkert gott að brenna sig á tungunni, súkkulaðið er best um 60-70°


Heitt kakó, já ég treysti mér til að búa til kakó sem slær út heita súkkulaðið hjá 90% kaffihúsa á landinu og þó víðar sé leitað. Trikkið er að nota jafnmikið af kakódufti og sykri, ekki 3/4 sykur og 1/4 kakó eins og lýst er í þeim uppskriftum sem ég hef fundið á netinu. 0.75 dl kakó plús 0.75 dl sykur í lítra af mjólk er fínt, sama með sykur og vanillu og lýst er í súkkulaðiuppskriftinni. Hita mjólkina, hrista saman sykur, kakó, salt, vanillu og nægilegt vatn til að búa til hellanlega blöndu, Ef vill má setja chili eins og í Mexíkó. Bara best.