27. febrúar 2011

dúkan

Fann þennan marokkóska rétt í ókeypis blaði í Ástralíuvél, reif blaðsíðuna úr blaðinu og geymdi, nánast orðið ár síðan þá og loksins komst í verk að prófa.

Skemmst frá því að segja að þetta verður gert aftur. Og aftur.

Þetta er hvorki dýrt né snúið, en maður þarf að hafa tímann fyrir sér því kjötið tekur góða stund í ofninum. Má líka standa yfir nótt í marineringunni þó við gerðum það reyndar ekki í dag.

1 lambabógur, um 2 kíló
150 grömm smjör, mjúkt
1 msk salt (hljómar mikið en það er síðan ekkert salt í meðlætinu) - Aths. Var víst bara sett teskeið. Það var feikinóg...
1 tsk mulinn svartur pipar (notuðum reyndar hvítan, kom ekki að sök)
1 msk cumin

Fitusnyrtið kjötið. Blandið saman mjúku smjörinu og kryddinu og makið kjötið með því. Vefjið síðan bóginn í álpappír, eins þétt og þið getið. Leyfið að standa í amk. klukkutíma (við stofuhita) eða yfir nótt í ísskáp.
Þegar marineringu er lokið setjið bóginn í stórt eldfast fat með loki, leyfið að ná stofuhita ef það var í ísskáp. Ekki taka álpappírinn af. Hellið könnu af vatni yfir, (ég notaði 1/2 lítra). Hitið ofninn í 180° gráður. Setjið fatið í ofninn og leyfið að steikjast í 2 1/2 klukkustund. Takið síðan álpappírinn af og lokið af fatinu, setjið aftur inn í ofninn og leyfið að brúnast í hálftíma til. Gott er að athuga hvort kjötið er tilbúið með því að snúa beininu örlítið, það á að losna auðveldlega frá kjötinu. Ef það gerist ekki, hafið þá kjötið lengur inni.

Meðan kjötið er í þessum síðasta fasa, undirbúið meðlætið:

300 g basmati hrísgrjón
600 ml vatn
50 g pistasíur án skelja
6 negulnaglar
50 g smjör
1/2 tsk engiferduft
1/2 tsk kanill
1/4 tsk múskat
50 g möndlur án hýðis, léttristaðar og gróft saxaðar
30 g rúsínur lagðar í bleyti smástund (sultanas í uppskriftinni en ég notaði nú bara venjulegar rúsínur)
2 stórir laukar, niðursneiddir og steiktir þar til gullinbrúnir
1 msk hunang

Skolið hrísgrjónin vandlega til að losna við sterkjuna (nenni því eiginlega aldrei en gerði þó í dag). Setjið í pott ásamt vatninu, lok á pottinn, komið upp suðu og lækkið. Sjóða við lægsta hita í 12-14 mínútur og slökkva síðan undir. Ekki opna pottinn á meðan á suðu stendur.

Á meðan grjónin sjóða, steikja laukinn í smá smjöri, setja til hliðar, hakka möndlurnar. rista möndlur og pistasíur á pönnu í 1-2 mínútur, setja negulnaglana á pönnuna og steikja í smástund í viðbót. Þá er smjöri og kryddi bætt á pönnuna og blandað vel saman, þá er lauk, hunangi og rúsínum blandað saman við. Lok sett á pönnuna og leyft að standa í 5-10 mínútur.

Hrísgrjónin ættu nú að hafa sogið í sig allt vatn. Hrærið í þeim með gaffli og setjið síðan lauk- og pistasíu/möndlublönduna saman við og blandið vel saman.

Berið fram með lambinu og soðinu úr fatinu (gott að fleyta mestu feitinni ofan af soðinu, það er vel feitt).

Kjötið var ótrúlega meyrt og gott, ég á ekki eftir að elda lambabóg öðruvísi en með þessari aðferð héðan í frá. Krakkarnir gleyptu í sig bæði kjöt og grjón með góðri lyst.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki alveg þarna með meðlætið. Ertu alltaf að nota sömu pönnuna, eða ristarðu möndlurnar og pistassíurnar á þurri pönnu? Ef svo er, steikirðu svo negulinn á pönnunni með leifum af smjöri eftir lauk, eða á þeirri þurru?

Hildigunnur sagði...

vá ég hef ekki kíkt inn í óratíma til að samþykkja komment (né væntanlega neinn annar). Rista möndlur og pistasíur á þurri pönnu og set svo negulinn osfrv saman við smátt og smátt.

Hildigunnur sagði...

svo er ég farin að mylja negulnaglana í mortéli, eins mikið og ég nenni (tek þá stærstu bitana frá) og strá yfir í stað þess að vera með naglana heila. Mjög sniðugt.