26. ágúst 2012

Langeldaðir lambaskankar á norður-Afrískan máta

Eitt af uppáhaldsbloggunum mínum er matarbloggið hans Ragnars Freys, unglæknis í Svíþjóð sem finna má hér : http://blog.pressan.is/ragnarfreyr/

Hann er líka á facebook sem The doctor in the kitchen og þar fór hann að tala um að hafa eldað lambaframpart með norður-Afrísku sniði og þar sem við féllum fyrir líbananum okkar í Barcelona langaði mig að elda einhvernveginn þannig mat um helgina.

 Hann setti uppskriftina ekki á bloggið sitt en var svo indæll að gefa mér hana upp á fb síðunni, ég fékk svo leyfi hans til að henda henni hér inn, svo það verði auðvelt að finna hana. Þetta var alveg hreint stórkostlega bragðgott og ég mæli með þessu! þetta er semsagt hans uppskrift með einni örlítilli viðbót frá mér. Kúskúsið og sósan eru aftur á móti mínar uppskriftir :)

En hér kemur uppskriftin:

kjötið:
2 lambaskankar eða 1 frampartur
olía og maldonsalt
kryddblanda: 1 msk kóríanderfræ, 1 msk cumminfræ (broddkúmen) og 1 tsk súmak
2 laukar
3 hvítlauksrif
3 gulrætur
2 sellerístönglar
handfylli af þurrkuðum döðlum
3 þurrkaðar kardimommur, létt barðar
3 stk kanilstangir
200 ml vatn

Kveikið á ofninum á 170° og takið til ofnpott með loki.

Saxið grænmetið gróft og setjið í botninn á pottinum, bætið svo kanilstöngunum og kardemommunum við. Lambaskankarnir makaðir með olíu og saltaðir, ristið kóríander- og cumminfræin á pönnu og útbúið svo kryddblönduna með því að mylja ristuðu fræin í morteli og blandið svo við súmakið.

Þessu er makað á kjötið, það lagt ofan á grænmetið í pottinum, vatninu bætt í pottinn, lokið sett á og inn í ofn í 3 1/2-4 klukkutíma (fer eftir magni kjötsins). Þegar klukkutími er eftir af suðutímanum er döðlunum bætt í pottinn.

Þegar kjötið er tilbúið er það tekið upp úr pottinum, kanilstangirnar og kardemommurnar fjarlægðar og grænmetið, döðlurnar og vatnið maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél til að búa til döðlusósu með kjötinu.

Marokkóskt kúskús:
1 bolli kúskús
1 1/4 bolli vatn
1 tsk salt
1/2 tsk túrmerik
1/4 tsk kanill
1/4 tsk cummin
1/4 bolli rúsínur
1/4 bolli furuhnetur, ristaðar
1 msk smjör

 Setjið vatnið, smjörið, kryddið, saltið og rúsínurnar saman í pott og látið suðuna koma upp. Blandið þá kúskúsinu saman við, setjið hneturnar út í og lokið á í 5 mínútur. Flöffið svo kúskúsið upp með gaffli og berið fram.

 Jógúrtsósa:

1 dós jógúrt og smávegis sýrður rjómi eða lítil dós grísk jógúrt
2 hvítlauksrif marin
1 tsk cumminduft
1 tsk hlynsíróp
sítrónusafi
1 tsk tahini (má sleppa)

Blandið öllu saman og smakkið til með salti.
Mæli með að gera sósuna fljótlega eftir að kjötið fer í ofninn, það er alltaf betra ef sósur fá að brjóta sig aðeins.