2. janúar 2010
tómatapasta
jæja, ekki veitir af að létta matseðilinn smá - við fórum í smiðju Jamie Olivers, bókin sem við fengum í jólagjöf frá Hallveigu og Jóni Heiðari, gríðarmargt spennandi. Einfalt líka og fljótlegt - allavega ef við hefðum ekki búið til pastað sjálf, það tók smástund.
Jamie notar ferskar lasagnaplötur úr búð og sker þær í lengjur, náttúrlega talsvert fljótlegra. Auðvitað er svo bara hægt að nota tagliatelle eða annað pasta að vild.
Í þetta þarf:
500 g ferskt pasta
1 box kirsuberjatómata
smá ólífuolíu og smjör
nokkur hvítlauksrif - fer eftir smekk
lítið búnt af fersku basil (fundum ekki slíkt í búðum, notuðum rósmarín)
1/2 dl balsamedik
100 g parmaostur
Byrjið á að koma upp suðu á stórum potti af saltvatni fyrir pastað. Ef það er þurrkað má byrja að sjóða það strax.
Skerið tómatana í helminga eða fjórðunga að vild og hvítlauksrifin í sneiðar. (við kreistum hann nú reyndar). Hitið olíu og smjör á stórri pönnu við meðalhita, steikið hvítlaukinn þar til hann byrjar aðeins að brúnast, setjið þá tómatana saman við og steikið stutta stund. Hellið þá edikinu yfir ásamt helmingnum af nýrifnum parmaostinum. Leyfið að malla við vægan hita á meðan ferska pastað er soðið (um 3 mínútur).
Þegar pastað er tilbúið, hellið af því vatninu, geymið þó 2-3 ausur af soðinu. Setjið pastað saman við sósuna ásamt soði og hrærið vel saman ásamt parmaostinum sem eftir er.
Mælum með þessu, ekki smá gott og frískandi eftir allar steikurnar...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)