14. nóvember 2009

lambafillet með villisveppasósu himnaríkis

Set hér að ósk inn máltíð kvöldsins nákvæmlega eins og ég gerði hana, þessi uppskrift dugar fyrir 4.

Kjöt:

800 gr lambafillet með fiturönd, saltað og piprað ca 2 tímum fyrir eldun og látið ná stofuhita. Steikt á grillpönnu í 2 mínútur með fituhliðina niður og í nokkrar sekúndur á hinni hliðinni, sett inn í 200-220° heitan ofn með kjöthitamæli þar til kjarni hefur náð 57° hita. Þá hvílt undir álpappír í 10 mínútur áður en það er borið fram. Við þetta verður kjötið meðalsteikt. Kjötið má fara fyrir ofan kartöflurnar sem eru fyrir í ofninum en gott er að færa kjötið af og til til að kartöflurnar og laukurinn nái jafnri steikingu.

Kartöflur og laukur:

500 gr kartöflur
1 blaðlaukur
1/2 rauðlaukur
ólífuolía
maldonsalt
timian

kartöflur skornar í báta, velt upp úr olíu, maldonsalti og timian og hitað í 200° heitum ofni í 45 mínútur. Eftir fyrsta korterið er niðurskornum blaðlauk og rauðlauksbátum bætt í ofnskúffuna og kartöflunum snúið.

sósa:

1 msk smjör
1 msk ólífuolía
2 hvítlauksrif smátt skorin
hálfur rauður laukur smátt skorinn
nokkrir þurrkaðir villisveppir
7 ferskir sveppir skornir í sneiðar
750 ml vatn
1 1/2 lambateningur
2 tsk rjómaostur með svörtum pipar
1 tsk rifsberjasulta
100 ml kaffirjómi
smá maisena mjöl

leggið þurrkuðu sveppina í bleyti í 10 mínútur, þurrkið með eldhúspappír og skerið smátt. Steikið hvítlauk, rauðlauk og báðar sveppategundirnar úr smjörinu og olíunni þar til mjúkt, bætið vatni og teningum í og sjóðið niður í 40 mín. Bætið rjóma, rjómaosti og sultu við og sjóðið áfram í 20 mínútur. Þykkið með maisenamjöli eftir þörfum.

Salat:

klettasalat
nokkrir kirsuberjatómatar
nokkur jarðarber
fetaostur í kryddolíu
furuhnetur

Blandið öllu saman.