5. júlí 2008

ætiþistlar og hollandaise frá klóri

ætiþistlablöð hér í kvöldmatinn, á morgun á að vera kjúklingaréttur sem með eiga að vera smjörsteikt þistilhjörtu. Keyptum þistlana í dag og þar sem innihaldið úr blöðunum er alger snilld, með hollandaisesósu, ákváðum við að skipta út tortillunum sem áttu eiginlega að vera í kvöld, og prófa að búa til hollandaise from scratch.

Ekki var það nú mikið mál.

Til að undirbúa þistlana, sker maður stilkinn af og örlítið af toppnum (humm, við gleymdum því nú reyndar, veit ekki hvers vegna það þarf að gera það), og þeir eru soðnir í vatni og sítrónusafa (af svona hálfri til einni sítrónu) í 25 mínútur.

Sósan:

175 g smjör
3 stórar eggjarauður
1 1/2 matskeið sítrónusafi (skipt í eina og svo hálfa)
1 msk kalt vatn
1 tsk dijon sinnep
cayenne pipar (hmm held þetta hafi reyndar verið chili)
salt að vild

Bræðið smjörið í potti eða örbylgjuofni við ekki of mikinn hita

Setjið eggjarauður, eina msk af sítrónusafa, vatn og sinnep í blandara eða matvinnsluvél. Þeytið smástund til að blanda vel.

Hellið heitu bræddu smjörinu í mjórri, jafnri bunu saman við, á meðan þeytt er.

Smakkið til með piparnum og saltinu.

Berið þistilhjörtun fram í allri sinni dýrð, leyfið fólki að plokka blöðin utan af. Blöðunum er dýft í sósuna og mjúki, innsti hlutinn borðaður.

Gott er að hafa risastóra skál fyrir rusl - eða tæma oft, þar sem blöðin taka hellings pláss.

Auðvitað má borða hjörtun sjálf (fyrir utan hærða hlutann, efst) með sósunni líka.