27. október 2006

Klunsentårta

Klunsen á afmæli að minnsta kosti einusinni í mánuði. Þá er gerð Klunsentårta:

1 þrískiptur tertubotn
1/2 peli rjómi
jarðarberjasultutau
vanillukrem
vínber/kíví til skreytinga
tertuskraut

Jarðarberjasultutauinu er smurt á neðri hæðina en vanillukreminu á þá efri. Skreytt með þeyttum rjóma, vínberjum/kíví og tertuskrauti.

7. ágúst 2006

þistilhjartnakaramellur

gerðum frábæran forrétt í gær, talsvert maus, reyndar en vel þess virði. Sló líka þokkalega í gegn. Heimalagað pasta, fyllt með þistilhjörtum og ostakremi:

Pasta: (uppskrift frá Nönnu)

300 g. hveiti, meira ef þarf
4 egg (gefur reyndar upp 3, en það munar mjög miklu að bæta við því fjórða við)
1 msk olía
1/2 tsk salt

Hveitið sigtað á vinnuborð og laut gerð í miðjuna. Eggin brotin og sett í lautina ásamt olíu og salti. Hrært og síðan er farið að blanda hveitinu smátt og smátt saman við með fingrunum en þess gætt vel að eggin renni ekki út úr lautinni og yfir vinnuborðið. Haldið áfram þar til búið er að vinna allt hveitið inn í deigið; gott er að nota spaða eða sköfu til að skrapa upp deig sem klessist við vinnuborðið. Deigið hnoðað vel þar til það er silkimjúkt og teygjanlegt. Mótað í kúlu, skál hvolft yfir og látið standa við stofuhita í um hálftíma. Þá er deigið flatt út á hveitistráðu borði, helst með löngu og mjóu kökukefli. Flatt út eins þunnt og hægt er, annaðhvort í lengjur eða eina stóra plötu. Þegar það er orðið álíka þykkt og póstkort er það lagt yfir prik og látið þorna örlítið.

Við fletjum reyndar út í pastavél, það er auðveldara, en þetta er ss. alveg hægt án þess að eiga slíka græju.

(síðast þegar við gerðum þessa uppskrift ætluðum við að flýta fyrir okkur og kaupa tilbúnar lasagnaplötur. Stór mistök, Jón Lárus byrjaði að búa til pastað þegar gestirnir voru komnir á staðinn og forréttur var ekki borðaður fyrr en um níu. Stress dauðans!)

Fylling:

4 fersk þistilhjörtu
1 laukur, saxaður
250 g ricottaostur
50 g parmaostur
2 1/2 dl gott soð
1 egg
smjör til steikingar
sítróna
salt

smjör
fersk salvía

Skerið blöðin utan af þistilhjörtunum (ath, ekki henda blöðunum, þau má sjóða sér og borða innihaldið með hollandaisesósu. Mmm!) Skerið hjörtun í átta bita hvert og geymið í vatni með sítrónu til að varna þess að þau dökkni um of. Laukurinn mýktur í smjörinu, hjörtun sett saman við ásamt soðinu og látið malla þar til þau eru passlega mjúk (10-15 mínútur).

Eggið þeytt, ricotta og rifnum parmaosti bætt saman við.

Samsetning:

Skerið pastadeig í ferninga, (um það bil 10*7 cm). Setjið einn bita af þistilhjarta á ferning ásamt lauk og ostablöndu. Leggið annað blað yfir fyllinguna, þrýstið jöðrunum saman og snúið upp á endana til að búa til karamellur.

Sjóðið í nægu vatni í 2 mínútur, eða þar til karamellurnar fljóta upp

Borið fram með bræddu smjöri með fullt af ferskri salvíu klipptri saman við, og meiri parmaosti.

10. júlí 2006

raita

hálf röspuð gúrka (þegar maður er búinn að raspa hana kreistir maður safann úr gumsinu)
2-3-4 dl hreint jógúrt (eftir smekk)
1 hvítlauksrif
safi úr hálfu læmi
smá chiliduft

ég poppa svo nokkur kumminfræ á snarpheitri eldavélarhellunni og myl þau yfir.

grænmetistikka

það er eiginlega ekki til nein uppskrift .... bara ímyndunarafl ... og smá g&t
Það er hægt að nota hvaða grænmeti sem er og ef maður er í þannig skapi má alveg skella kjúkling saman við.

Ég nota mikið af kryddi. Mjög mikið.

Grænmeti (t.d. 6-8 kartöflur, 1 laukur, 2 lítil fennel, 2 gulrætur, 1 zuccini, 1/2 blómkálshaus, 1 paprikka, 1-2 rauð chili)
sex vel þroskaðir tómatar
nokkrar matskeiðar af tikkapeist, eða bara einhverju karrípeist
2-3 dl af hreinu jógúrti
kumminfræ
haldi/túrmerik/gúrkmeja
kóriander
sinnepsfræ
garam masala
1 dl vatn

Þessi uppskrift dugir fyrir 6-8 (og þá er smá afgangur daginn eftir)

Hita krydd í olíu og smjöri á pönnu. Steikja grænmeti í hollum og færa yfir í mjög stóran pott. Sulla peistinu og jógúrtinu yfir. Brytja tómatana í mjög litla bita og setja útí ásamt með smá vatni. Láta malla í klukkutíma.

kjúklingabaunakarrí

þetta er líka eftir mjög grófu minni

tvær dósir af kjúklingabaunum
ca. 400 grömm af hökkuðum tómötum úr dós (ekki nota eitthvað drasl með kryddi í ... ég var eitthvað utanvið mig þegar ég var útí búð og keypti eitthvað með ítölsku kryddi og hvítlauk ... viðbjóður!!!)
tveir stórir laukar
fjögur hvítlauksrif
engifer (u.þ.b. 1 teskeið, ég notaði eina matskeið)
kumminfræ eftir smekk
2 tsk haldi/túrmerik/gúrkmeja
1 tsk garam masala
1 tsk kóriander
1 tsk chiliduft

hita olíu og smá smjörklípu í meðalstórum potti (betra að nota ghee, náttúrlega), hita kummin,haldi,garam masala duglega og lækka hitann, svissa laukinn þar til hann er mjúkur, ekki brúnn ... bæta hvítlauk, engifer, kóriander, chili út í og svo kjúklingabaununum (muna að hella safanum af fyrst) og tómötunum.

láta malla á lágum hita í 15 mín, voilà!

dhal

nú voru góð ráð dýr, laukur í uppskriftinni en enginn í ísskápnum ... þá var notað blómkál í staðinn

og þetta er eftir mjög grófu minni

3 dl rauðar linsur
5 dl vatn
blómkálshaus
duglega af hvítlauk og engifer
kummin steytt úr hnefa
sletta af haldi/túrmeriki/gúrkmeju eða hvað það nú heitir þetta appelsínugula og kórianderdufti
smjör og olía (náttúrlega best að nota ghee)
salt eftir þörfum og ögn af sykri

skola linsur og hreinsa burt skemmdar ... láta liggja í vatni meðan blómkálið er steikt
smjörklípa og skvetta af olíu hitað duglega í meðalstórum potti (bara passa að það kvikni ekki í olíunni)
kumminfræin, haldiið og kórianderið hitað þar til kumminfræin byrja að poppa.
taka pottinn af hellunni og skella blómkálinu út í og hræra duglega. þegar hitinn hefur jafnað sig má bæta engiferinu og hvítlauknum út í ... steikja saman smá.
hella vatninu af linsunum, skella þeim yfir blómkálið saman með 5 dl af vatni.
láta suðuna koma upp og láta svo malla rólega í u.þ.b. 15 mínútur. Hræra í af og til.
Síðustu fimm mínúturnar verður maður að standa yfir pottinum því allt heila klabbið getur auðveldlega brunnið við.

Svo lætur maður þetta jafna sig í pottinum, hrærir af og til, og saltar eftir smekk.
Það þarf ekkert að sykra, en 1/4-1/2 teskeið gerir reyndar gæfumuninn.

Þetta má standa á bekknum í klukkutíma áður en maður borðar, annars má líka alveg hita upp.

staðið við minn hluta dílsins

hér kemur laxinn úr afmælisboði helgarinnar, uppskriftin var í mogga allra landsmanna og alveg svakalega góð:

Lax í kryddlegi
f. 4

laxasneiðar, ca 1 á mann.

lögur:
1/2 dl ólífuolía
1 msk hvítvínsedik
1 msk dijon sinnep
1 msk sætt sinnep
2 hvítlauksrif marin
1 tsk nýmalaður svartur pipar
1 msk ferskt estragon (1 ein tsk þurrkuð)

blandið öllu saman og leggið laxinn í löginn í um það bil hálftíma og grillið svo við meðalhita í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

með þessu sauð ég brún hrísgrjón og gerði sósu úr sýrðum rjóma, dijon sinnepi, hunangi, smá maldon salti og fersku estragoni. Í mogganum var mælt með grilluðum bökunarkartöflum með guacamole með þessu en ég nennti því nú ekki oní svona margt fólk. Svo hafði ég fermingarsalatið hennar Hildigunnar, vínin voru cloudy bay chardonnay og svo gott Chablis og í desert þetta hér. Ekkert nema snilldin ein.

17. maí 2006

Fermingarkjúklingur

nei, ég er nú ekki að tala um 14 ára gamla hænu, bara kjúklingaréttinn sem við buðum upp á í fermingarveislunni miklu um daginn. Þekktur réttur, margir prófað en ef ekki...


Kjúklingalæri, steikt í stutta stund á pönnu.

1 p rjómi
1 dl aprikósumarmilaði
1-1 1/2 dl barbekjúsósa (Hunt's Original)
1/2 dl sojasósa
smá púðursykur

allt hrært saman í potti við smá hita
hellt yfir kjúklinginn

steikja í ofni við 180-200 í 1 klst

berist fram með hrísgrjónum og góðu salati að eigin vali.

Einu sinni sem oftar, þegar við vorum að kaupa inn fyrir þennan rétt var Freyja með okkur í búðinni. Jón kallar yfir til mín hvort við eigum barbekjúsósu. Freyja hváir við: BARBÍKJÖTSÓSU???

18. apríl 2006

salatið

var beðin um uppskriftina að salatinu úr fermingarveislunni miklu. Kemur hér án uppgefinna magna. (sic)

ferskt spínat
vel þroskað avocado
sítróna
furuhnetur
parmaostur

Spínatil skolað og sett í skál, avocado skorið í bita, sítróna kreist yfir til að kjötið dökkni ekki. Furuhnetur ristaðar á pönnu og hellt yfir, parmaostur skorinn í frekar stórar flögur og dreift yfir í lokin.

Ég var ekki með neina sósu en það mætti náttúrlega skvetta yfir þetta smá af góðu balsamediki. Hefði sjálf kosið að krydda avocadoið örlítið, jafnvel bara pínu salt. En þetta var annars nokkuð gott, bara.

19. mars 2006

kindarisotto himnaríkis

þetta er án efa einn besti matur sem ég hef eldað á mínum húsmæðraferli og eins og margir vita, that´s saying a lot! Uppskriftin er staðfærð úr Gestgjafanum, leyfi mér að setja hana hér þar sem ég gerði þónokkrar breytingar. En það er sama, takk Gestgjafi :D

Hráefni:
2 msk smjör
2 msk ólívuolía
200 gr blaðlaukur skorinn í sneiðar
1-2 hvítlauksgeirar saxaðir
250 gr kindalundir eða fille, má nota lamb ef hitt er ekki til (bara dýrara og minna bragð ;))
2-3 tómatar, fræhreinsaðir og saxaðir smátt
100 ml þurrt hvítvín
maldon salt
nýmalaður pipar
nokkrir þræðir saffran (má nota 1/4 tsk túrmerik í staðinn)
300 gr arborio grjón
1 l lamba- eða kjúklingasoð (notaði 50-50 þar sem ég átti bara einn lambakubb)
2 msk rifinn parmigiano ostur
nokkur blöð af basilíku, söxuð (ekki sleppa, gerði alveg bragðið!)

skerið kjötið í litlar, þunnar sneiðar, saltið og piprið og brúnið á pönnu í 1 msk olíu og geymið. Hitið kjötsoðið með saffronþráðunum að suðu og látið malla á lægsta hita.
Bræðið smjör og 1 msk olíu í þykkbotna potti og mýkið laukinn og hvítlaukinn, bætið svo hrísgrjónunum út í og hyljið með olíunni. Hellið hvítvíninu út í og látið gufa upp af. Bætið soðinu smám saman út í, 1/2-1 ausu í senn og látið gufa vel upp af á milli. Hér er algjörlega nauðsynlegt að hafa hvítvínsglas við hönd og góðan disk undir geislanum. Eftir um 10 mínútur bætið tómötunum og kjötbitunum út í og leyfið vökvanum af kjötinu að fylgja með, haldið svo áfram að bæta við vökva (um 15 mín í viðbót). Þegar hrísgrjónin eru búin að soga í sig allan vökvann er potturinn tekinn af og ostinum hrært saman við. Saltið og piprið eftir smekk, ég þurfti þó ekki að bæta neinu við. Stráið basilíkunni yfir og berið fram með restinni af hvítvíninu og meiri nýrifnum parmigiano.

ÓGEEEEEEEEÐslega gott og krakkarnir átu þetta upp til agna!

11. febrúar 2006

hvernig er það...

eru allir búnir gersamlega að missa áhugann á þessu?

Þetta er samkvæmt beiðni Þorbjarnar:

Kálfakjöt Parmigiano (fyrir 4)

3 matskeiðar ólífuolía

1 laukur, smátt saxaður

3 hvítlauksgeirar, pressaðir

1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar

1 glas rauðvín (má sleppa)

1 dós niðursoðin tómatsósa

1/2 teskeið þurrkað timian

400-500 gr kálfakjöt í þunnum sneiðum

1 egg

1/3 bolli parmigiano reggiano, rifinn

1/3 bolli brauðrasp

1 kúla ferskur mozzarella ostur, skorinn í sneiðar

Salt og pipar


Steikið lauk og hvítlauk á pönnu, bætið svo tómötunum og salti og pipar við og sjóðið
niður í 10 mínútur. Bætið tómatsósunni rauðvíninu (ef vill) og timianinu saman við og sjóðið
áfram í 20 mínútur.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Á meðan sósan sýður, undirbúið kjötið:

hrærið egg á diski og blandið saman brauðraspi og parmigiano osti á annan disk. Skiljið eftir
svolítið af ostinum. Veltið kjötinu upp úr egginu og brauðmylsnunni og brúnið létt á hvorri hlið.
Raðið sneiðunum á eldfast fat, raðið mozzarellaostinum ofan á og hellið sósunni yfir. Stráið
afgangnum af parmigiano ostinum yfir.

Bakið í 30 mínútur.

Gott er að hafa með ofnbakaðar kartöfluskífur og gott hrásalat.

5. febrúar 2006

Sítrónuleginn kálfur og spínatsalat

Prófuðum þetta í gærkvöldi, eigum afgang, get ekki beðið :-) Salatið gengur örugglega með ýmsu öðru eða þá bara út af fyrir sig sem forréttur eða léttur hádegismatur með ristaðri brauðsneið. Mmm. Kálfinn þarf að krydda að morgni eða kvöldið áður.

Uppskriftin ætti að nægja fyrir 6 manns.

Kálfurinn:

1 kg kálfalund
rifinn börkur af einni sítrónu
1-2 tsk fersk blöð af sítrónutimjani (fann ekkert svoleiðis, notaði bara venjulegt timjan, þurrkað)
1 1/2 tsk salt
nýmulinn pipar
smá ólífuolía til steikingar (notaði reyndar smjör en mjög lítið af því)
Safi úr einni sítrónu
1/2 tsk hrásykur

Nuddið kjötið upp úr sítrónuberki, timiani salti og pipri og látið liggja í 10-12 tíma
Steikið síðan á pönnu við meðalhita í 15 mínútur. Snúið oft. Takið af hitanum og hvílið í 10 mínútur. Hellið sítrónusafa og hrásykri á pönnuna, látið vökvann sjóða örlítið niður. Takið aftur af og látið hvíla í aðrar 10 mínútur áður en kjötið er skorið í sneiðar.

Gremolata:
2 dl fínsöxuð steinselja
1-2 hvítlauksrif
rifinn börkur af einni appelsínu

Öllu blandað saman, borið fram með.

Volgt sveppa- og spínatsalat:

750 g. blandaðir sveppir (já, eða bara venjulegir, við notuðum þannig)
2 skalottulaukar
100 g sólþurrkaðir tómatar
2 msk ólífuolía (ég sleppti henni, gerði ekkert til)
150 g ostur, grófrifinn eða í bitum (talað um gruyére eða emmentaler, ég notaði cheddar)
100 g ferskt spínat (ég notaði mun meira)
1/2 tsk salt
nýmulinn pipar

Steikið sveppina á þurri pönnu þar til mesta vætan er gufuð upp. Setjið tómata og hakkaða lauka saman við og steikið smá stund í viðbót. Takið af pönnunni, setjið ostinn saman við og leyfið að bráðna létt, hrærið síðan spínatinu saman við og smakkið til með salti og pipar.

Berist fram með bökuðum eða ofnsteiktum kartöflum. Algjört nammi.

2. janúar 2006

kóksvínið

(og ekki láta ykkur dreyma um að nota pepsí...)

Vorum með kóksvínið hennar Nigellu um áramótin. Mæli sterklega með því (svona til hliðar, söknuðum þín úr eftirpartíinu, Gunnar Hrafn)

Hér fær maður engar léttsaltaðar skinkur þannig að ég spurði Nönnu hvernig ég færi að því að verka kjötið. Svarið var: "Settu hann í pækil. Byrjaðu á að sjóða saman 1 kg gróft salt og 100 g sykur með slatta af vatni (og kryddi ef vill), kældu, settu kjötið í og bættu við ísköldu vatni eftir þörfum."

Gerði þetta allt saman samviskusamlega. Henti saman við nokkrum lárviðarlaufum og negulnöglum. Lét liggja í 3 daga, snéri einu sinni á dag (hmm, Jón Lárus snéri, einu sinni á dag)

Svo var uppskriftin sjálf. Ættuð úr Trashy kafla Nigella Bites:

ein léttsöltuð svínasteik (notuðum bóg, passlega fituspengdur)
1 laukur, afhýddur og skorinn í tvennt
Kók, með sykri, nóg til að dekka steikina

glasering:
kúfuð matskeið af sírópi (átti að vera dökkt en ég fann það ekki, notaði bara Tate&Lyle í dós)
2 msk sinnepsduft
2 msk hrásykur

slatti af negulnöglum

Kjötið og laukurinn sett í stóran pott (í mínu tilfelli svart ofnfat, of stór fyrir pottana mína). Hellt yfir kóki svo fljóti yfir. Ná upp suðu, lækka hitann niður í mall, mallist í tvooghálfan til þrjá tíma. Skiptir ekki stóru máli hvað steikin er stór, þetta ætti að duga. Hitið ofninn í 240°. Hirðið steikina upp úr pottinum, kælið örlítið, smyrjið feitihluta steikarinnar með sírópinu, nuddið inn sykri og sinnepsdufti og skerið í hana tíglamynstur. (Nigella segir skera burtu pöruna, það er rugl. Fólk hakkaði í sig pöruna þegar einhver fann hana frammi í eldhúsi og kom með inn á borð. Þeir sem vilja ekki fitu geta sjálfir skorið hana burtu á sínum eigin diski). Raðið nokkrum negulnöglum í rendurnar, eins og á pörusteik.

Grillið á í ofninum eða ofninn í 250°, steikin inn, grillið tekur bara 2-3 mínútur (EKKI gleyma steikinni inni, annars þarf að henda besta partinum, brenndur, aftur personal experience), vel heitur ofn um 10 mín.

bara snilldin!