22. nóvember 2010

Trufflaður kálfur

fyrir 4

fyrir sinnepssósu:

4 tsk Dijonsinnep (með trufflum)
3 msk rjómi

hrært saman í skál

800 g kálfasnitselsneiðar
smjör eða önnur feiti til steikingar
safinn úr truffludósinni (um 50 g)
6 msk kjötgljái (notuðum hamborgarhryggsgljáa)
50 g trufflusveppir, smátt saxaðir
salt
pipar

Skerið kálfakjötið í strimla, ca 2 cm breiða. Steikið á heitri pönnu í eina mínútu (snúa við eftir hálfa). Takið kjötið af pönnunni og haldið heitu en skiljið safa sem myndast við steikinguna eftir á pönnunni. Setjið trufflusafann og kjötgljáann saman við kjötsafann og sjóðið niður við góðan hita í 2-3 mínútur.

Setjið matskeið af sinnepssósu á hvern disk (ekki sakar að hita diskana aðeins), þá fjórðunginn af kálfastrimlunum í fallegan pýramída yfir sinnepssósuna, stráið trufflusveppunum yfir og dreypið síðast kjötsoðsósunni hringinn í kring um kjötpýramídann.

Hvetjið gesti ykkar endilega til að lyfta diski að nefi til að njóta ilmsins af trufflunum.

(Svo er væntanlega hægt að gera réttinn trufflulausan en kannski með öðrum góðum sveppum – það er jú 2010 ekki 2007. Örugglega gott samt!)

10. nóvember 2010

ofnbakaðir kjúklingaleggir

hæ öll, stel hér miskunnarlaust af hinni góðu síðu southernfood.com.. hljómar það ekki vel? datt inn á þessa leggi um árið og geri þetta alltaf reglulega, einfalt og gott.

8 kjúklingaleggir þurrkaðir létt með eldhúspappír

blandið saman í poka:

2 msk hveiti
1 tsk kjúklingakryddi
1 tsk papriku
1/2 tsk karrí
1 tsk grófu salti
1/2 tsk nýmöluðum pipar

Bræðið 1-2 msk smjör, takið eldfast fat, klæðið það að innan með álpappír og smyrjið ca helmingnum af smjörinu í botninn.

takið leggina, 2 í einu og veltið upp úr hveitiblöndunni og raðið í fatið.

dreypið svo restinni af smjörinu yfir kjúklinginn.

Inn í ofn við 200° í 45 mínútur. Eftir hálftíma er gott að snúa leggjunum svo þeir brúnist báðum megin.

Með þessu höfum við svo kartöflubáta sem fá að malla með í ofninum og gott salat.

30. september 2010

tómatcrostini

Stel þessu af JSB vefnum án þess að skammast mín hætishót - besta svona brauð sem ég hef á ævi minni smakkað:


Tómatcrostini (fyrir 4)

Hráefni:
1 dós saxaðir niðursoðnir tómatar
4 tómatar
1 búnt ferskt basilikum og örlítið til skrauts
1/2 dl fersk steinselja og örlítið til skrauts
1/2 dl ólífuolía
2-3 hvítlauksrif
1/2 tsk. salt
Svartur pipar
1 stór mozzarellaostakúla eða rifinn góður brauðostur
1 baguette eða 4 lítil ciabatta brauð

Aðferð:
1. Stillið ofninn á grill
2. Hellið niðursoðnu tómötunum í sigti og látið vökvann renna vel af þeim
3. Skerið fersku tómatana í grófa bita
4. Takið fram skál og blandið niðursoðnu tómötunum saman við þá fersku
5. Saxið basilikum og steinselju
6. Setjið basilikum og 1/2 dl af steinselju saman við
7. Skiptið baguette í fernt og kljúfið síðan hvern hleif í sundur
8. Pressið hvítlauksrifin út í ólífuolíuna. Setjið helminginn saman við tómatablönduna og penslið síðan brauðin með afganginum.
9. Grillið brauðin þar til þau verða gullin
10. Saltið og piprið tómatablönduna skiptið henni síðan niður á brauðin
11. Skerið mozzarellaostinn í u.þ.b. 8 sneiðar og raðið þeim ofan á brauðin
12. Grillið það til osturinn hefur tekið lit
13. Raðið á fat eða forréttadiska og stráið steinselju og basilikum yfir

18. júlí 2010

kartöflusalat

Impróviseraði kartöflusalat með frankfurterpylsunum í kvöld. Átti kartöflur við það að renna út, farnar að spíra smá (eða eiginlega alveg slatta) þannig að þær varð að nota.

5 stórar kartöflur
2 msk jómfrúrólífuolía
1 msk gott rauðvínsedik
1 tsk trufflusinnep (eða annað dijonsinnep)
salt
pipar
10-15 grænar ólífur
1 msk smár kapers

Kartöflur soðnar þar til meyrar, látnar kólna, afhýddar og skornar í fremur smáa teninga. Ólífuolía, rauðvínsedik, sinnep, salt og pipar hrist vel saman og hellt yfir kartöflurnar. Ólífur skornar í tvennt og þeim og kapers blandað við kartöflurnar. Dressing hellt yfir og hrært þannig að allt blandist vel saman.

Látið standa góða stund til að allt bragðið blandist vel.

(já já ég veit, þetta er frekar basic - mjög gott samt...)

30. mars 2010

Lasagna Hallveigar –versjón 29. Mars 2010 ;)

Kjötsósan:
500 gr jöklanautahakk úr Frú Laugu
1 laukur (átti reyndar bara tvo hálfa sem voru frekar litlir þannig að ég henti einum skalottulauk með)
4 hvítlauksgeirar
1 gulrót
1 sellerístöngull
2 dósir hakkaðir tómatar, maukaðir (eða ein flaska passata)
1 dós tómatpurée
1 grein ferskt rósmarín
2 tsk þurrkað oregano
1 tsk italian seasoning
Maldon salt og nýmalaður pipar
1 tsk sykur
3 lárviðarlauf
1 msk smjör og 1 msk olía
Vatn eftir þörfum

Ostasósan:
2 msk smjör
2 msk hveiti
500 ml mjólk
Nýmalaður svartur pipar
¼ tsk múskat
1 msk saxað ferskt basil
115 gr 26% gouda saxað smátt
Lasagnaplötur
Rifinn Parmigiano Reggiano
Mozzarellakúla skorin í þunnar sneiðar
40 gr gouda rifinn
Aðferð:
Um 4 tímum fyrir matmálstíma þarf að gera kjötsósuna. Maukið grænmetið rósmarínið og þurrkuðu kryddin saman í matvinnsluvél eða töfrasprota. Steikið úr olíunni og smjörinu í svolitla stund við miðlungshita, bætið svo hakkinu saman við og brúnið. Saltið og piprið kjötið, bætið svo maukuðu tómötunum, tómatpúrrunni, lárviðarlaufunum og sykrinum við. Lækkið hitann og látið malla í 3 tíma eða meira.
40 mínútum fyrir matmálstíma er kveikt á ofninum á 200°. Hitið mjólkina í litlum potti og í stærri potti bræðið smjörið og gerið smjörbollu úr hveitinu. Hellið mjólkinni saman við og þegar sósan fer að þykkna bætið þá ostinum út í. Piprið, og bætið múskati og söxuðu basil saman við.
Til að gera lasagnað takið þá stórt ferkantað eldfast mót, setjið ostasósu í botninn, þá lasagnaplötur, meiri ostasósu, kjötsósu, nokkrar tægjur af mozzarellaostinum og rífið smá parmigiano Reggiano yfir kjötblönduna. Þá lasagnaplötur, ostasósu, kjötsósu, ost osfrv. Endið á lasagnaplötum og ostasósu yfir þær, dreifið rifna ostinum yfir og smávegis af parmigiano og mozzarella ef þið eigið hann eftir.
Inn í ofn í 25 mínútur, borið fram með hvítlauksbrauði (ég var með hatting, það er best) og salati. Mitt salat í þetta skiptið var einstaklega einfalt, jöklasalat (átti ekkert kletta) konfekttómatar (líka úr Laugu) , hash avocado, nokkrar furuhnetur og fetaostur.

28. febrúar 2010

Bananapönnukökur

1 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1 msk sykur
1/4 tsk salt

2 msk brætt smjör
1 egg
2 vel þroskaðir bananar
1/2 tsk vanilludropar
1 bolli mjólk

blandið þurrefnunum saman í eina skál og í stærri skál hrærið saman mjólk, eggi, smjöri, stöppuðum banönum og vanilludropum. Hrærið hveitiblöndunni saman við hina, deigið á að vera kekkjótt.

steikið við miðlungshita upp úr smjöri, ég nota ca hálfan bolla í hverja pönnuköku. Gott er að vera með disk í volgum ofni til að setja pönnukökurnar á til að halda þeim heitum. Berið fram með hlynsírópi.

Cantucci di Giorgia

Þetta er uppskrift að cantucci (eða biscotti, eða eitthvað) sem ég fékk frá kunningjakonu í Róm, Giorgiu. Amma hennar bakar þetta, en uppskriftin er upprunalega frá Toscana.

500 g hveiti
300 g sykur
100 g brætt smjör
300 g afhýddar möndlur
4 egg (+ eitt til að pensla með)
Salt á hnífsoddi
1 msk lyftiduft
Raspað hýði af einni sítrónu
2 skeiðar af áfengi (ef vill)

Ristið möndlurnar í ofninum í nokkrar mínútur og grófhakkið (það má líka hafa þær heilar). Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið eggjarauðurnar og sykurinn saman. Siktið hveiti í skál og bætið lyftidufti, salti út í og svo smám saman eggjahrærunni og smjörinu. Hrærið allt í höndunum þangað til degið er mjúkt og slétt. Bætið möndlunum saman við og hrærið þangað til degið er mjúkt aftur.

Búið til lengjur (2-3sm í þvermál) og leggið á bökunarplötu með pappír.

Bakið lengjurnar í ofni í 15 mín á 180°C (í miðjum ofninum). Að því loknu á að skera lengjurnar í ca. 1,5cm breiðar sneiðar.

Ristið kexin í 25 mínútur á 150°C. Snúið þeim síðustu fimm mínúturnar. Þau eiga að verða gullinbrún.

Kælið kexin og látið standa í 20 tíma áður en þeirra er neytt (með Vin Santo).

Ég sullaði nú bara öllu saman í plastskál og hrærði saman. Þetta varð hálfklessulegt og ljótt á bökunarplötunni svo ég er viss um að amma hennar Giorgiu hefði fengið hjartaáfall ef hún hefði séð þetta hjá mér ...

11. febrúar 2010

lambalæri frá Mughlai - eða Raan

Þá erum við búin að finna - tja annan tveggja indverskra uppáhaldsrétta, vinur okkar hafði lengi talað um raan lambalæri og svo fundum við það í karríbókinni góðu sem Óli bróðir gaf okkur einu sinni í jólagjöf. Undir nafninu Mughlai-style leg of lamb, það var í undirtexta sem Raan var nefnt.

Hér er allavega uppskriftin:

4 stórir laukar, hakkaðir
4 hvítlauksrif
5 cm stykki ferskur engifer, rifinn (notuðum duft reyndar - engiferóþol mitt)
3 msk hakkaðar möndlur
2 tsk cumin
2 tsk kóríanderkrydd
2 tsk túrmerik
2 tsk garam masala
4-6 grænir chiliávextir eða eftir smekk
safi úr einni sítrónu
3 dl hreint jógúrt
1 gott lambalæri (um 2 kg)
8-10 negulnaglar
salt
1 msk möndluflögur til skrauts
4 ferskir tómatar


Setjið fyrstu 10 atriði listans í matvinnsluvél eða blandara ásamt salti eftir smekk og hakkið í slétt mauk. Bætið jógúrti við smátt og smátt og hrærið á milli.

Smyrjið stóran steikarpott.

Hreinsið mestu fituna og skinnið af lærinu. Stingið djúpa vasa í kjötið meðfram beininu sitt hvoru megin, þar sem þykkasti hlutinn er, skerið síðan tvo skurði á ská, báðum megin í þykka hlutann. Stingið negulnöglunum á kaf hér og þar í kjötið. Smyrjið kryddblöndunni í vasana og skurðina á kjötinu og afganginum yfir kjötið. Leggið lærið í steikarpottinn og lokið (má loka með álpappír).

Leyfið að standa í 2-3 klukkutíma áður en eldað er.


Hitið ofninn í 190° C. Setjið kjötið inn og leyfið að steikjast í 2 - 2 1/2 klst eða þar til kjötið er fulleldað. Takið lokið eða álpappírinn af síðustu 10 mínúturnar af steikingartímanum.

Takið kjötið út þegar það er fulleldað, stráið möndluflögum yfir og leyfið að standa í 10 mínútur áður en skorið er í kjötið.

Berið fram með grilluðum tómötum (við hentum þeim bara út í pottinn þessar síðustu 10 mínútur eftir að lokið var tekið af, það kom mjög vel út)

Svo má auðvitað hafa naan og rætu með.

2. janúar 2010

tómatapasta


jæja, ekki veitir af að létta matseðilinn smá - við fórum í smiðju Jamie Olivers, bókin sem við fengum í jólagjöf frá Hallveigu og Jóni Heiðari, gríðarmargt spennandi. Einfalt líka og fljótlegt - allavega ef við hefðum ekki búið til pastað sjálf, það tók smástund.
Jamie notar ferskar lasagnaplötur úr búð og sker þær í lengjur, náttúrlega talsvert fljótlegra. Auðvitað er svo bara hægt að nota tagliatelle eða annað pasta að vild.

Í þetta þarf:

500 g ferskt pasta
1 box kirsuberjatómata
smá ólífuolíu og smjör
nokkur hvítlauksrif - fer eftir smekk
lítið búnt af fersku basil (fundum ekki slíkt í búðum, notuðum rósmarín)
1/2 dl balsamedik
100 g parmaostur

Byrjið á að koma upp suðu á stórum potti af saltvatni fyrir pastað. Ef það er þurrkað má byrja að sjóða það strax.

Skerið tómatana í helminga eða fjórðunga að vild og hvítlauksrifin í sneiðar. (við kreistum hann nú reyndar). Hitið olíu og smjör á stórri pönnu við meðalhita, steikið hvítlaukinn þar til hann byrjar aðeins að brúnast, setjið þá tómatana saman við og steikið stutta stund. Hellið þá edikinu yfir ásamt helmingnum af nýrifnum parmaostinum. Leyfið að malla við vægan hita á meðan ferska pastað er soðið (um 3 mínútur).

Þegar pastað er tilbúið, hellið af því vatninu, geymið þó 2-3 ausur af soðinu. Setjið pastað saman við sósuna ásamt soði og hrærið vel saman ásamt parmaostinum sem eftir er.

Mælum með þessu, ekki smá gott og frískandi eftir allar steikurnar...