13. júní 2005

jarðarberjakokkteill

fengum hér mohito uppskrift um daginn, hér er uppáhalds sumarkokkteillinn okkar. Heitir Love in the afternoon, óxla væminn titill en kokkteillinn er algjört nammi, gæti reyndar alveg virkað sem flott desert frekar en fordrykkur.

(einfaldur)

30 ml dökkt romm (allt í lagi að nota ljóst, gerum það yfirleitt)
30 ml coconut cream (eða Malibu)
30 ml ferskur appelsínusafi
15 ml rjómi
15 ml sykursíróp (niðursoðið vatn og sykur en við notum stundum hlynsíróp eða bara Tate&Lyle)
5 jarðarber
klaki

Allt þeytt saman, best í blandara. Borið fram í háu glasi.

12. júní 2005

Sikileyskt lasagna

Annað loforð efnt. Þetta er eggaldinlasagna, algerlega kjötlaust, gott fyrir kanínurnar á listanum...

1-2 meðalstór eggaldin
lasagnablöð eftir þörfum
2 dósir niðursoðnir tómatar
1 lítil dós tómatkraftur (puré)
1 laukur, smátt saxaður
fullt af fersku basil (basili? basli?)
salt og pipar eftir smekk
150 g mozzarella (nota nú bara oftast gouda eða brauðost)
smá ólífuolía.

Byrjið á því að meðhöndla eggaldinin. Það sem ég geri er að ég sker þau í sneiðar, legg í fat og salta vel yfir. Læt í ísskáp í klukkutíma eða svo, saltið dregur vökva úr eggaldininu. Síðan skolar maður þau vel og þerrar. Stundum baka ég sneiðarnar í ofni í svona kortér, bara smyr bökunarpappír með olíunni og legg sneiðarnar á. Hiti 200 gráður. (Þetta er svolítið vesen en þetta verður allt annar matur. Ég hef margprófað að nenna þessu ekki og nota eggaldinin beint en verð alltaf fyrir sömu vonbrigðunum) Það þarf ekki að salta réttinn meira, þetta verður alveg passlega salt með því að skola vel og þerra. (hef hins vegar frétt + get ímyndað mér að þetta verði algerlega óætt ef sneiðarnar eru ekki skolaðar...)

Steikið lauk í olíu þar til gullinn, bætið síðan tómatdósunum + kraftinum út á pönnuna og kryddið eftir smekk (ekki salta). Má sjóða aðeins niður.

Raðið síðan saman lögum af sósu, eggaldini, lasagnablöðum og osti. Fallegast að enda á ostinum. Bakist við 200° í 40-50 mínútur. Gott að bera fram með góðu brauði og nýrifnum parmaosti.