4. nóvember 2005

bearnaise DAUÐANS

þetta er eiginlega frá Hallveigu ekki mér, blogger er þvílíkt að stríða henni:

Bearnaise sósa Nigellu

Innihald:

Essens:
2 msk hvítvínsedik
2 msk hvítvín (má líka setja 4 msk edik og sleppa víninu)
2 msk saxað estragon
Stilkarnir af estragoninu marðir og skornir gróft
1 msk kerfill (má setja meira estragon í staðinn)
1 tsk hvít piparkorn, lamin (bruised) eða mulin
1 skallottulaukur fínt saxaður

Sósa:
3 eggjarauður
1 msk kalt vatn
200 gr ósaltað smjör skorið í 1 cm teninga
Maldonsalt eftir smekk
Safi úr _-1/2 sítrónu

Setjið saman í pott edik, vín, lauk, stilkana af estragoninu, kerfil og 1 msk estragon (geymið hina til að hræra í sósuna síðast). Sjóðið niður í c.a. eina msk essens og kælið.
Setjið saman eggjarauður og vatn í skál og setjið yfir pott af vatni sem sýður við lágan hita. Blandið essensinum við og hrærið kröftuglega, bætið svo smjörinu við, einum kubbi í einu til að byrja með en eftir því sem líður á sósuna má fara meira í einu. Hrærið stöðugt og þegar smjörið er búið kreistið þið sítrónuna út í og saltið eftir smekk (í mínu tilviki fer c.a hálf teskeið af salti útí). Að lokum er afgangnum af estragoninu hrært saman við rétt áður en sósan er borin á borð.

Ef þarf að geyma sósuna í einhvern tíma áður en hún er borin fram er hægt að fylla stærri skál af VOLGU vatni, setja sósuna ofan í og breiða yfir viskastykki. Svo er hrært vasklega í henni áður en hún er borin á borð.

7. október 2005

steinbítur

Ekki er nú hægt að segja að listinn iði beinlínis af lífi þessa dagana. Er enginn að elda neitt spennandi?

Við vorum með ansi góðan steinbít í gær, eldgömul uppskrift klippt út úr Mogganum:

800 grömm roðlaus og beinlaus steinbítur
Hveiti
salt
pipar
barbekjúsósa til að pensla, (við notuðum Hickory & brown sugar)
smá smjör (mætti sjálfsagt vera olía)

Fiskurinn skorinn í bita, hristur upp úr hveiti, salti og pipri. Penslaður með barbekjúsósu á öllum hliðum. Steiktur í smjörinu 2 mínútur á hlið.

Sem meðlæti höfðum við bara salat, vorum með kínakál, papriku og tómata og smá sinnepsdressingu. Engar kartöflur eða hrísgrjón eða neitt þannig.

Dugði vel í kvöldmatinn handa okkur fimm + kötturinn fékk meira að segja afgang. Öllum aldursflokkum þótti þetta gott, meira að segja stelpunum sem neita alltaf að borða fiskinn í mötuneytinu...

5. september 2005

rifsberjakjúklingur

Lofaði þessum víst á blogginu:

Nokkrir kjúklingabitar (ekki bringur)
15 g smjör
salt og pipar
1 lítill laukur, skorinn í teninga
100 g. rifsber
2 dl kjúklingasoð
1-2 tsk púðursykur
1/2 dl rjómi (má vera kaffi- eða matreiðslurjómi)
1 tsk maízena

Brúnið kjúklingabitana vel á heitri pönnu í smjörinu. Kryddið með salti og pipar (pipri?) Takið kjúklinginn af pönnunni og steikið laukinn. Setjið kjúklinginn aftur í pönnuna ásamt rifsberjum og soði. Látið malla undir loki í 35-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Takið bitana af pönnunni og haldið heitum. Hrærið saman rjóma og maízena og þykkið sósuna með blöndunni (í uppskriftinni er talað um að sía soðið í annan pott og þykkja þannig en mér finnst bara fínt að hafa laukinn og berin áfram í sósunni). Smakkið til með púðursykri, salti og pipar.

Berist fram með hrísgrjónum og góðu salati. Ekki verra að hafa líka gott hvítvín með. Mmmm!

13. júní 2005

jarðarberjakokkteill

fengum hér mohito uppskrift um daginn, hér er uppáhalds sumarkokkteillinn okkar. Heitir Love in the afternoon, óxla væminn titill en kokkteillinn er algjört nammi, gæti reyndar alveg virkað sem flott desert frekar en fordrykkur.

(einfaldur)

30 ml dökkt romm (allt í lagi að nota ljóst, gerum það yfirleitt)
30 ml coconut cream (eða Malibu)
30 ml ferskur appelsínusafi
15 ml rjómi
15 ml sykursíróp (niðursoðið vatn og sykur en við notum stundum hlynsíróp eða bara Tate&Lyle)
5 jarðarber
klaki

Allt þeytt saman, best í blandara. Borið fram í háu glasi.

12. júní 2005

Sikileyskt lasagna

Annað loforð efnt. Þetta er eggaldinlasagna, algerlega kjötlaust, gott fyrir kanínurnar á listanum...

1-2 meðalstór eggaldin
lasagnablöð eftir þörfum
2 dósir niðursoðnir tómatar
1 lítil dós tómatkraftur (puré)
1 laukur, smátt saxaður
fullt af fersku basil (basili? basli?)
salt og pipar eftir smekk
150 g mozzarella (nota nú bara oftast gouda eða brauðost)
smá ólífuolía.

Byrjið á því að meðhöndla eggaldinin. Það sem ég geri er að ég sker þau í sneiðar, legg í fat og salta vel yfir. Læt í ísskáp í klukkutíma eða svo, saltið dregur vökva úr eggaldininu. Síðan skolar maður þau vel og þerrar. Stundum baka ég sneiðarnar í ofni í svona kortér, bara smyr bökunarpappír með olíunni og legg sneiðarnar á. Hiti 200 gráður. (Þetta er svolítið vesen en þetta verður allt annar matur. Ég hef margprófað að nenna þessu ekki og nota eggaldinin beint en verð alltaf fyrir sömu vonbrigðunum) Það þarf ekki að salta réttinn meira, þetta verður alveg passlega salt með því að skola vel og þerra. (hef hins vegar frétt + get ímyndað mér að þetta verði algerlega óætt ef sneiðarnar eru ekki skolaðar...)

Steikið lauk í olíu þar til gullinn, bætið síðan tómatdósunum + kraftinum út á pönnuna og kryddið eftir smekk (ekki salta). Má sjóða aðeins niður.

Raðið síðan saman lögum af sósu, eggaldini, lasagnablöðum og osti. Fallegast að enda á ostinum. Bakist við 200° í 40-50 mínútur. Gott að bera fram með góðu brauði og nýrifnum parmaosti.

30. maí 2005

rækjur í gráðostasósu

ég var víst búin að lofa þessari...

Nú er svolítið misjafnt hvernig fjölskyldan býr til þennan, þeas hvernig gráðosturinn er meðhöndlaður en mér finnst best að gera þetta sirka svona:

1 dós sýrður rjómi (18%)
góður biti af gráðosti (fer eftir þoli)
perur úr dós + smá safi
rækjur
ristað brauð
svartur kavíar

Gráðosturinn bræddur og kældur. Sýrða rjómanum hrært saman við. Perur skornar í litla bita og hrært saman við, ásamt safa. Má ekki verða of þunnt.

Borið fram með rækjum og ristuðu brauði + kavíar til skrauts

Gráðostabragðið verður mjög milt og fínt, sýrði rjóminn dempar það. Ef maður vill öflugri ost má sleppa því að bræða hann, stappa bara saman við. Líka gott.

13. maí 2005

óhollustan uppmáluð

bragðaði þetta fyrst á veitingastað rétt hjá tónlistarháskólanum í Stuttgart.

ferskt ravioli (helst með gorgonsola, eða bara osti, ekkert svona kjötsull eða pestó)

10 til 15 blöð af ferskri salvíu látin krauma litla stund með hvítlauk í ríkulegu magni af smjöri.

hellt yfir ravioliið og saltað með grófu salti og piprað með nýmöluðum svörtum pipar og miklum parmesanosti dreift yfir.


Þetta er viðbjóðslega óhollt, en sjúklega gott og var í kvöldmatinn hjá mér áðan. Núna er ítalska expressóið (eins og það heitir á Kaffitári) tilbúið og dökka belgíska súkkulaðið bíður.

Ef skúringafatan væri ekki í Danmörku hefði verið fengið sér í síló ... svona til að setja punktinn yfir i-ið ....

8. maí 2005

af barnum

Ok ég veit að þetta er frekar mikið "two years ago" en Norðmenn eru frekar mikið tveim árum á eftir og kalúað var búið úr barnum svo ég varð að grípa til minna ráða svo einslítra rommflaskan sem ég var nýbúinn að opna myndi ekki byrja að skemmast:

MOJITO!!!!!!!

Það hefði kannski verið auðveldara að fara í mónópólið og kaupa kalúa heldur en að fara þrjár ferðir út í búð (sódavatn, sykur, læm) ... en úrþvíað ég var búinn að taka ákvörðunina varð að framkvæma hana. Fyrst þessi sem ég gerði, á eftir eitthvað sem á að vera besta mojito í heimi (frá einhverjum bar í Ósló, birt í Dagbladet), en það er einhvað læmdjússull í því svo ég trúi því nú varla að það sé gott, þar að auki er allt í sentilítrum í uppskriftinni en ég kann bara að mæla í desilítrum

mörg myntublöð (ég notaði piparmyntu, en maður á að nota spearmint, það er meira bragð af henni), 1 ms (hvítur) sykur og 1/4 lime í þunnum sneiðum marið saman í glasi lengi svo sykurinn leysist upp og myntan fari öll í kássu
Massi af kurluðum klaka ofaná + 1/2 dl af rommi (hvítt) og fyllt upp með sódavatni

Uppskriftin úr Dagbladet:

handfylli af myntulaufum
2 ts sykur
3 cl læmdjús
4 cl hvítt romm
sódavatn

Mynta, sykur og læmdjús marið/hrært saman í glasinu þangað til það kemur sterk lykt af myntunni, klakakurl og rommi bætt í og hrært og smá sódavatn útí. Svo á maður víst ekkert að vera að skreyta þetta með regnhlíf, en ef maður vill hafa grísaveislustemningu, finnst mér það bara allt í lagi!

3. apríl 2005

enn bætist a kjúklingalistann...

við vorum með alveg svakalega góðan kjúklingarétt í kvöld. Fer hér á eftir:

Sinnepssteiktar kjúklingabringur.

600 g kjúklingabringur
olía til steikingar
5 msk hveiti
2 msk sinnepskorn
1 egg, þeytt
1 tsk salt

sósa:
2 dl hrein jógúrt eða léttur sýrður rjómi
1 - 1 1/2 tsk grænt eða gult karrímauk
1/2 tsk cumin
salt og pipar

epli
hrísgrjón

Skerið bringurnar í meðalstóra bita. Steytið sinnepskornin létt í mortéli. Blandið helmingnum af hveitinu saman við sinnepsfræin og saltið. Setjið afganginn af hveitinu á disk. Veltið fyrst kjúklingabitunum upp úr hveiti, þá eggi og síðast sinneps/hveitiblöndunni. Brúnið bitana á heitri pönnu í smástund, setjið í 200° ofn í 10-15 mín (eftir stærð á bitum)

Hrærið öllu saman sem á að fara í sósuna, smakkið til með salti og pipar.

Skerið eplið í báta og steikið á pönnunni (ég notaði smá smjör þar), stráið yfir sinnepsfræjum.

Berist fram með hrísgrjónum.

Gerði þessar - þær voru ÆÐI!

Banana nut muffins

* 1 1/2 cup all purpose flour
* 1/2 cup wheat flour
* 2 teaspoons baking powder
* 1 teaspoon ground cinnamon
* 1/2 teaspoon baking soda
* 1/8 teaspoon ground nutmeg
* 2/3 cup coarsely chopped pecans
* 1 large egg
* 3/4 cup packed brown sugar
* 1 1/2 cup mashed bananas
* 6 tablespoons vegetable oil
* 1 teaspoon vanilla

Preheat the oven to 375 degrees. Grease a standard 12 muffin pan or line with paper cups. Whisk together the flour, wheat flour, baking powder, cinnamon, nutmeg, and salt. Stir in the chopped pecans. Whisk together in a separate bowl, the egg, brown sugar, bananas, vegetable oil, and vanilla. Add the flour mixture to the banana mixture and mix with a few light strokes just until the dry ingredients are moistened. Do not overmix; the batter should not be smooth.



Divide the batter among the muffin cups. Bake until a toothpick inserted in 1 or 2 of the muffins comes out clean, about 18 minutes. Let cool for 2 to 3 minnutes before removing from the pan. If not serving hot, let cool on a rack.

Var reyndar með heslihnetur en ekki pekan. Pekan örugglega líka góðar.

Svo bara að draga upp smjörið og ískalda mjólk og njóta..

24. mars 2005

kjúklinga- og sítrónugrasssúpa

matreiðslumeistari heimilisins hefur verið í ,,hugmyndalegri'' lægð í eldhúsinu undanfarið, sem þýðir að ég hef loks fengið tækifæri til að rifja upp gamla takta bak við eldavélina. þar sem þeir voru næstum gleymdir og meistarinn búinn að gera flesta gömlu réttina mína að sínum hef ég verið að finna upp á nýjum réttum á repertúar fjölskyldunnar. hér er einn sem ég er afskaplega ánægð með. en þetta er enginn skyndibiti (þó hægt að kaupa svona svipað á krúa tæ, minnir mig). uppskriftina fann ég á veraldarvefnum.
3 skinnlausar kjúklingabringur
4 sítrónugrassstilkar, innsti hlutinn
2 vorlaukar, fínt sneiddur
fínt rifinn börkur og safi úr 1 límónu
1 msk fiskisósa (nam pla)
1 tsk muscovado sykur (notaði hrásykur), meira eftir smekk
2-3 rauð eða græn chilli, fræhreinsuð
900 ml kjúklingasoð
5 sm fersk engiferrót
25 g ferskt kóríander
1 lítill laukur eða 2 skallottulaukar, fínt saxaðir
1 tsk fennelfræ
1 hvítlauksrif
1 tsk jarðhnetuolía
400 g kókosmjólk
salt og nýmalaður pipar

1. skerið kjúklinginn í þunnar sneiðar. setjið í "non-metallic" skál. sneiðið einn sítrónugrassstilkinn mjög þunnt og dreifið yfir kjúklinginn ásamt vorlauknum. bætið við límónuhýðinu, fiskisósunni og sykrinum og blandið öllu vel. látið marinerast í 30-60 mín.
2. sneiðið afganginn af sítrónugrasinu og chillíin 2 gróft og setjið út í kjúklingasoðið ásamt helmingnum af engiferinu (í sneiðum) og öllum kóríanderstilkunum (geymið laufin). hitið að suðu og látið svo malla í 30-60 mín. síið.
3. steikið laukinn, fennelfræin, hvítlaukinn og afganginn af engiferinu, fínt söxuðu, í olíunni í stórum potti þar til laukurinn fer að mýkjast. bætið síuðu soðinu við og mallið í 10 mín. bætið þá kókosmjólkinni út í. þegar maukið fer að malla aftur bætið kjúklingnum og öllu sem honum fylgir auk helmingi kóríanderlaufanna. mallið í 6-7 mín þar til kjúklingurinn er fulleldaður.
4. bragðbætið með límónusafa, salti og pipar og meiri sykri (ef vill), dreifið afganginum af kóríanderinu yfir og þriðja chillíinu, fínt söxuðu, ef vill.

etið með ánægju og hrísgrjónum.

20. mars 2005

ostasalat

samkvæmt beiðni Hallveigar. Þetta er samt ekki rétturinn sem ég var að tala um að setja hér inn í gær. Bíður betri tíma.

Ostasalat:

1 camembert
1 piparostur
1 rauð paprika
1 blaðlaukur (aðeins hvíti hlutinn notaður)
1/4 dós ananaskurl
1 lítil dós mæónes
1 dós sýrður rjómi
10-15 rauð vínber

Hrærið saman mæónesi og sýrðum rjóma
Skerið allt hitt í litla bita og blandi? saman við
Gott að láta standa í a.m.k. klukkutíma áður en borið fram.

19. mars 2005

sukkulaðihnetukakan...

var ég nokkurn tímann búin að setja hér inn aðal klassíkerinn á kökuborðum heima hjá mér? (tja, þann sæta amk, kannski kemur heita brauðið síðar)

Þessa fékk ég hjá kórfélaga úti í Danmörku, yfirleitt fljót að klárast. Eitt stykki í ofninum núna, fyrir síðbúið afmælishóf á morgun.

Súkkulaðihnetukaka Dorthe:

150 g. suðusúkkulaði
150 g. heslihnetur
100 g. sykur
3 egg

Egg og sykur þeytt saman uns ljóst og létt. Hnetur og súkkulaði saxað mjög smátt og blandað við eggjahræruna. Bakað í vel smurðu tertuformi við 200° í 25 mínútur. Athugið, kakan á að vera blaut!!! Og já, það er rétt, ekkert hveiti, ekkert smjör... ;-)
Skreytt með þeyttum rjóma og ávöxtum árstíðarinnar. (best vatnsmelóna)

10. mars 2005

kreist og hrist

Nú bætist Gerd John's brátt við brallið og er hér með skorað á hana að deila með okkur uppskriftum að kalífornískum grassöfum og jógúrthristingum með bananabragði.

4. mars 2005

grasekkja með grasker

fyrirsögnin er plat!
ég er ekki grasekkja þótt kallinn sé ekki heima, og ég bauð heldur ekki upp á grasker í kvöldmatinn, reyndar var það kallinn sem sá um að reiða fram eftirfarandi rétt fyrir nokkru. uppskriftin er úr bók sem ber nafnið vegetarian italian cooking. mæli alveg með þessu ...
graskers- og pistasíurísottói:

1,2 lítrar grænmetissoð
"slatti" af saffrani (sem er náttúrlega ekki slatti í venjulegum skilningi)
2 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksrif, kramin
450 g rísottó (arborio) hrísgrjón
900 g graskerskjöt, skorið í 2 sm teninga
200 ml þurrt hvítvín
3 msk parmesan-ostur, rifinn
50 g pistasíuhnetur
3 msk ferskt, saxað marjoram eða oregano (og svo eitthvað til skrauts, ef vill)
salt, nutmeg (æ, man ekki hvað það heitir á ísl) og steyttur svartur pipar ... eftir smekk, að sjálfsögðu

1. útbúið soðið (sjóðið og leysið upp tening ef því er að skipta), setjið smá í skál og leysið saffranið upp í því.

2. hitið olíu á stórum potti, svitið lauk og hvítlauk við vægan hita í svona 5 mínútur. bætið hrísgrjónum og graskersbitunum út í þar til grjónin verða glær.

3. skutlið hvítvíninu út á og náið góðri suðu. þegar grjón/grasker hafa drukkið í sig vökvann bætið fjórðungi soðs, auk saffran-soðsins, við. hrærið stöðugt.

4. smábætið soðinu við (ausu og ausu í senn). látið grjónin drekka vökvann í sig fyrir hverja gusu. hrærið stöðugt í. eftir um 20-30 mín. ættu grjónin að vera gullin og krímí og alveg mátulega soðin.

5. skellið ostinum út í, hrærið í, lokið pottinum og látið bíða í 5 mín.

6. og nú bætast hnetur og kryddjurtir út í, salt, nutmeg og pipar eftir smekk.

drekkið með þessu afganginn af hvítvíninu ... jömmíjömm.
ég viðurkenni að þetta er spes, en samt ferlega ljúffengt.

28. febrúar 2005

Rauðsprettu- og rækjugratin

Nú ætla ég að gerast kræf og brjóta höfundarrétt með því að birta hér uppskrift úr Fiskréttabók Hagkaupa. Hlýtur að fyrirgefast, fyrir plöggið, ég ráðlegg lesendum eindregið að kaupa bókina. Við erum búin að prófa nokkrar uppskriftir, flestar mjög góðar.

Þessa höfum við reyndar ekki prófað, en Hallveig ætlar að hafa þetta í kvöld. Hún verður að láta okkur vita hvernig til tókst.

Hér kemur:

Rauðsprettu- og rækjugratín.

800 g rauðsprettuflök með roði
2-3 msk smjör (stendur reyndar smjörlíki, en hei hver notar svoleiðis?)
salt
300 g rækjur
4 dl bearnaisesósa
100 g rifinn ostur

(Þetta með bearnaisesósuna, það er gefin uppskrift að afskaplega undarlegri útgáfu af svoleiðis, án allra kryddjurtanna sem gera bearnaisesósu að því sem hún er, estragon og kerfli skipt út fyrir steinselju. Ég myndi bara nota hollandaise úr pakka + bæta við saxaðri steinselju, nema það væri þeim mun meiri veisla hjá manni.)

Byrjið á að útbúa sósuna. Steikið rauðsprettuflökin í smjöri á vel heitri pönnu. Látið roðhliðina snúa upp, lækkið hitann og steikið í um 45 sekúndur. Snúið flökunum við, saltið og takið pönnuna af hitanum. Látið flökin jafna sig í um 2 mínútur. Ath, steikingartími fer eftir þykkt flakanna. Færið flökin upp á eldfast fat. Skiptið rækjunum á rauðsprettuflökin, setjið sósuna yfir og stráið svo rifnum osti yfir sósuna. Bakið fiskréttinn undir grilli þar til hann verður fallega gullinbrúnn. Berið fram með soðnum kartöflum og soðnu grænmeti.

Hér kemur síðan sósuuppskriftin ef einhver vill:

250 g smjör
3 eggjarauður
2 msk hvítvínsedik
2 msk vatn
kjötkraftur eftir smekk
1 msk söxuð steinselja

Bræðið smjörið í potti. Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði þar til þær eru orðnar að þykku kremi. Blandið bræddu, volgu smjöri varlega saman við. Hrærið hvítvínsediki og vatni saman við. Kryddið með kjötkrafti eftir smekk og blandið saxaðri steinselju saman við.

7. febrúar 2005

bollabolla

hæ þið sætu öll..

gerði geðveikan jarðarberjarjóma inn í bollurnar í gær, fann hann í nýjasta gestgjafanum sem ég keypti því í því eru fullt af karríuppskriftum.. elska karrí sko (Hildigunnur, þú mátt alveg henda hérna inn indversku rækjunum)

eníhú, hér er rjóminn:

250 ml rjómi
1 msk ljóst síróp (ætla að prófa hlynsíróp næst)
150 gr fersk jarðarber

saxið jarðarberin smátt. Þeytið rjómann þar til hann er er orðinn næstum fullþeyttur, setjið þá sírópið saman við og stífþeytið rjómann. Blandið jarðarberjunum varlega saman við.

ákvað að prófa þetta því ég hafði gleymt að gera venjubundna vanillubúðinginn minn sem þarf að gera daginn áður. En þetta sló hann út full stop! :D

bollurnar eru svo auðvitað vatnsdeigs og með þykku lagi af ekta síríus konsúmi ofan á.. að sjálfsögðu..

rækjur

Þættinum hefur borist bréf...

Hér kemur uppáhalds indverski rétturinn okkar, hér á heimilinu. Mmmm!

Indverskur rækjuréttur

500 g rækjur
1/2 dl matarolía
1 1/2 dl kasjúhnetur
1 stór laukur, í sneiðum
2 msk rifin engiferrót
2 msk pressaður hvítleukur
1/2 tsk chiliduft
1/4 tsk túrmerik
1 tsk kumin
2 maukaðir tómatar úr dós
1/4 ds hrein jógúrt
1 msk tómatkraftur
1 dl kókosmjöl
1/2-1 dl kókosmjólk
3 dl basmatigrjón
8 negulnaglar
4 kardimommur
1 kanilstöng
1 tsk salt
1 dl rjómi
saffran (nokkrir þræðir)

þíðið rækjurnar og þerrið. þvoið grjónin og látið liggja í bleyti í 15 mín. Sigtið vatnið frá. Hitið olíu á stórri pönnu. Bætið kasjúhnetunum út í og hrærsteikið þar til þær verða fallega brúnar. Geymið hneturnar á eldhúspappír. Bætið lauk út í sömu olíu og steikið, geymið hjá hnetunum. Bætið engifer, hvítlauk, chili, túrmeriki og kumin út í og steikið smástund. Bætið tómatmauki við og steikið áfram, síðan jógúrti og tómatkrafti, hrærið og steikið þar til olían skilur sig frá. Bætið kókosmjólk, kókosmjöli og salti við og hrærið í þar til blandan fer að þykkna. Setjið rækjurnar saman við, hrærið einu sinni og hellið öllu í eldfast fat.
Hitið ofninn í 180°. Hitið rjómann í örbylgjuofni í örstutta stund, bætið saffrani saman við og geymið. Hitið uþb 2,5 lítra af vatni í potti, bætið við negulnöglum, kanilstöng, kardimommum og salti og látið suðuna koma upp. Bætið hrísgrjónum við og sjóðið í 6-7 mínútur. Sigtið vatnið frá og setjið hrísgrjónin ofan á rækjurnar. Dreifið kasjúhnetunum og lauknum ofan á. Hellið síðan rjómanum yfir. Setjið álpappír yfir og lokið þannig að gufan haldist í mótinu. Bakist í 15-20 mínútur

Berið fram með rætu og nanbrauði

ræta:

1/2 agúrka, gróft rifin og safinn pressaður úr
1 ds hrein jógúrt
1/2 tsk salt
1/4 tsk cumin
1/2 ds sýrður rjómi
1/2 tsk sykur

hræra saman jógúrt, sýrðan rjóma, salt, cumin og sykur. Bæta við agúrkunni. Bera fram kalt

5. febrúar 2005

langar

annars einhvern í franska fýlurótarsúpu?

bananar, ja...

þessi kaka/desert er snilld. Kaupum stundum brúna matarbanana (hmm, eru bananar einhvern tímann ekki matur?) bara fyrir hana:

200 g möndlur
200 g suðusúkkulaði
4 vel þroskaðir bananar
(ef vill, einn fallegur, til skrauts)
100 g smjör
150 g sykur
3 egg, aðskilin

1. Fínsaxið eða malið möndlurnar og súkkulaðið. Skerið bananana fjóra í teninga.

2. Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst

3. Blandið eggjarauðunum, rifnu súkkulaði, möndlum og banönum út í deigið

4. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við deigið

5. Setjið blönduna í eldfast mót og bakið í 225° heitum ofni í 30 mínútur, hafið mótið í miðjum ofninum.

6. Skerið einn banana í sneiðar og skreytið.

Óhemju gott, heitt með ís...

4. febrúar 2005

Súpa

Þessi er víst æðisleg....

Mexíkósk kjúklingasúpa

Uppskriftin er fyrir 4

3 laukar
3 hvítlauksrif
1 rauður chillipipar

Allt saxað smátt, steikt á pönnu og sett í súpupottinn

1 flaska Granini tómatsafi
4-5 dl kjúklingasoð
2 tsk Worchestershiresósa
1 tsk chilikrydd
1 tsk cayenne pipar
2 dósir niðursoðnir tómatar, smátt saxaðir

Allt sett í pottinn og soðið við lágan hita í 45-60 mín

3-4 kjúklingabringur skornar í litla bita og steiktar, settar í pottinn og
soðnar með í 15 mín

Meðlæti: Guakamole 1 krukka, sýrður rjómi 1 dós, Nachos flögur og rifinn
ostur.
Hver og einn setur meðlætið á sinn súpudisk.
Verði ykkur að góðu!

28. janúar 2005

Enn einn kjúllinn...

1 stk heill kjúklingur
2-3 gulrætur
1 laukur
ca. 1 dl smjör
ferskt krydd (t.d. basilíka)
hrísgrjón
Mango "tjötney"
salt og pipar



Hita ofninn í 180-200.

Skera grænmeti í bita og setja í eldfast mót.

blanda kryddinu saman við smjörið og setja svo blönduna innundir skinnið á kjúklingnum.
salta kjúklinginn vel að utan og pipra soldið.
setja kjúklinginn oná grænmetið í mótinu.
Inn í ofn í klukkutíma.
Sjóða hrísgrjón.
Borða svo hrísgrjón og kjúlla og grænmeti og hafa Mangó "tjötney" sem sósu. -Snilld.