20. janúar 2013

Appelsínukjúklingur

Gamall uppáhaldsréttur hér á bæ, settur inn skv forvitnisbeiðni:

50 g smjör
25 g möndluflögur (má alveg vera meira)
1 kg kjúklingabitar. Nota ekki bringur í þennan.
salt
pipar
paprika
3 appelsínur

Bræðið helminginn af smjörinu og ristið möndlurnar við góðan hita þar til brúnar. Ilma gersamlega ómótstæðilega.

Kryddið kjúklinginn með salti, pipar og papriku. Steikið í afgangi smjörsins á öllum (tja báðum) hliðum. Leggið lok á pönnuna, lækkið hitann og steikið áfram í hálftíma (eða þar til bitarnir eru nærri gegnsteiktir). 

Á meðan, pressið safann úr tveimur appelsínanna, takið börkinn af þeirri þriðju og hreinsið mest af hvíta ruglinu af bátunum. Setjið safann og bátana saman við kjúklinginn á pönnunni og hitið vel í gegn, ca 5 mínútur. 

Berið fram með hrísgrjónum og stráið möndluflögunum yfir. 

19. janúar 2013

Voðalega góð fiskisúpa

Suðum súpuuppskrift (já og súpu auðvitað) upp úr nokkrum uppskriftum á vefnum. Fundum enga kókoskarrífiskisúpu sem okkur leist alveg nákvæmlega nógu vel á og ákváðum að púsla.

Í hana fór:

1 lítri vatn
1 laukur
3 gulrætur
2 hvítlauksrif
1 lítil dós tómatkraftur
smjör til steikingar
1 tsk karrí
1 dl hvítvín
1 bréf humargrunnur (svona Tasty humar sósu- og súpugrunnur)
1 stór dós kókosmjólk (bara þykki parturinn sem situr efst í dósinni ef maður opnar án þess að hrista)
2 dl rjómi
salt
pipar
1 rauð paprika
2 góðir laxabitar
poki af smárri hörpuskel

Laukur, gulrætur og hvítlaukur saxað frekar gróft. Smjör brætt á pönnu, karrí sett saman við. Laukurinn og gulræturnar steikt í 3-4 mínútur í karrísmjörinu við meðalháan hita, þá er hvítlauknum og tómatkraftinum bætt saman við og látið malla smástund við vægan hita. Skellt í pott, vatni, hvítvíni og humarsoði bætt við. Suðan látin koma upp og svo soðið í 15 mínútur undir loki við lægsta hita.

Á meðan, skera laxinn og paprikuna í fremur smáa bita.

Þegar 15 mínúturnar eru liðnar, setja kókosrjómann og rjómann saman við, hræra vel og smakka til með salti og pipri. Paprikan sett saman við og soðið í 3-4 mínútur.

Þá er fiskinum bætt saman við og suðan látin koma upp. Ekki láta sjóða neitt eftir það, ætti alveg að duga til að elda fiskinn.

Bárum fram með þessu súrdeigsbrauð ættað frá Sandholti en keypt í uppáhaldsbúðinni, Frú Laugu á Óðinsgötu. Og alvöru smjör, játakk!

Meira að segja fiskihatara heimilisins þótti súpan góð og fékk sér meira. Gæti ekki fengið betra hrós. Hefði dugað fyrir svona 8 manns - við eigum afgang í hádegismat á morgun!

14. janúar 2013

gazalega góð gulrótarsúpa

Bullaði þessa upp úr nokkrum uppskriftum sem ég fann.. örugglega einhverjar þarna úti mjög líkar! Hún var mjög góð, en næst ætla ég að bæta við 1/4 tsk chili dufti.

1 msk góð olía
1 laukur saxaður
3 hvítlauksrif söxuð fínt
1 cm engiferrót söxuð fínt
1 tsk túrmerik
1/2 tsk broddkúmen (cummin)
1/2 tsk malað kóríander

5 stórar gulrætur niðursneiddar
1 meðalstór sæt kartafla skorin í bita

1 l sjóðandi vatn og tveir grænmetisteningar (helst rapunzel eða annar góður lífrænn)

1 stór og 1 lítil dós kókosmjólk (má vera ein stór, átti bara þessa litlu líka. Eins mættu vera 2 dósir, en minnkið þá vatnið á móti)

maldon salt og pipar

ferskt kóríander til að strá yfir

Steikið laukinn, hvítlaukinn, engiferið og kryddin í olíunni í nokkrar mínútur í þykkbotna potti. Setjið allt sem  eftir er í pottinn, hitið að suðu og látið malla í hálftíma. Maukið súpuna með töfrasprota eða í smáskömmtum í blandara og smakkið til með salti og pipar.

Berið fram með fersku niðursöxuðu kóríander og góðu brauði.