14. nóvember 2009

lambafillet með villisveppasósu himnaríkis

Set hér að ósk inn máltíð kvöldsins nákvæmlega eins og ég gerði hana, þessi uppskrift dugar fyrir 4.

Kjöt:

800 gr lambafillet með fiturönd, saltað og piprað ca 2 tímum fyrir eldun og látið ná stofuhita. Steikt á grillpönnu í 2 mínútur með fituhliðina niður og í nokkrar sekúndur á hinni hliðinni, sett inn í 200-220° heitan ofn með kjöthitamæli þar til kjarni hefur náð 57° hita. Þá hvílt undir álpappír í 10 mínútur áður en það er borið fram. Við þetta verður kjötið meðalsteikt. Kjötið má fara fyrir ofan kartöflurnar sem eru fyrir í ofninum en gott er að færa kjötið af og til til að kartöflurnar og laukurinn nái jafnri steikingu.

Kartöflur og laukur:

500 gr kartöflur
1 blaðlaukur
1/2 rauðlaukur
ólífuolía
maldonsalt
timian

kartöflur skornar í báta, velt upp úr olíu, maldonsalti og timian og hitað í 200° heitum ofni í 45 mínútur. Eftir fyrsta korterið er niðurskornum blaðlauk og rauðlauksbátum bætt í ofnskúffuna og kartöflunum snúið.

sósa:

1 msk smjör
1 msk ólífuolía
2 hvítlauksrif smátt skorin
hálfur rauður laukur smátt skorinn
nokkrir þurrkaðir villisveppir
7 ferskir sveppir skornir í sneiðar
750 ml vatn
1 1/2 lambateningur
2 tsk rjómaostur með svörtum pipar
1 tsk rifsberjasulta
100 ml kaffirjómi
smá maisena mjöl

leggið þurrkuðu sveppina í bleyti í 10 mínútur, þurrkið með eldhúspappír og skerið smátt. Steikið hvítlauk, rauðlauk og báðar sveppategundirnar úr smjörinu og olíunni þar til mjúkt, bætið vatni og teningum í og sjóðið niður í 40 mín. Bætið rjóma, rjómaosti og sultu við og sjóðið áfram í 20 mínútur. Þykkið með maisenamjöli eftir þörfum.

Salat:

klettasalat
nokkrir kirsuberjatómatar
nokkur jarðarber
fetaostur í kryddolíu
furuhnetur

Blandið öllu saman.

22. júní 2009

svínaskankar

Reyndum í gær að herma eftir tékkneskum (tja, væntanlega reyndar bara miðevrópskum) rétti sem við fengum í ferðinni um daginn. Tókst bara nokkuð vel og krakkarnir gleyptu þetta í sig með bestu lyst og fengu sér öll ábót.

Reikna þarf með svona 400-500 grömmum af skönkum á mann, þar sem talsvert er um bein og fitu.

Svínaskankar
laukur
sellerí (má sleppa)
salt
heil piparkorn
olía eða smjör

Skankarnir soðnir í um einn og hálfan tíma í vatni sem flýtur yfir ásamt lauk, sellerí, pipar og salti.

Á meðan, undirbúa sósuna:

1/4 bolli sýrður rjómi
1 msk mæónes
3 msk piparrótarmauk
1 tsk Dijonsinnep
slatti af klipptum graslauk eða græna hlutann af vorlauk

Blandið öllu saman, geymið í ísskáp.

Þegar skankarnir eru orðnir meyrir eru þeir teknir upp úr pottinum og þerraðir. Síðan steiktir í smjöri/olíu í 15 mínútur þar til stökkir (ég tók 5 mínútur á hlið, yfirleitt hægt að finna 3 steikingarhliðar á svona skönkum)

Borið fram með uppáhalds kartöflustöppunni ykkar, súrum gúrkum piparrótarsósunni, sinnepi og ekki verra að hafa súrkál með fyrir þá sem þykir slíkt gott. Úti voru líka súrsaðir piprar með og steikt brauð í stað kartöflustöppu.

Bráðnauðsynlegt að hafa góðan ljósan bjór með...

4. apríl 2009

Kúrbítsmakkarónur

Þetta er mjög gott og tekur ekki langan tíma að matreiða.

2 litlir kúrbítar
4 hvítlauksrif
olía
salt
pipar
parmesanostur

makkarónur (ekki svona litlar og fljótsoðnar sem maður setur í typpasúpu, heldur stórar og feitar)

Ég byrjaði á því að setja vatn í pott til að sjóða pastað í.

Maður rífur kúrbítinn með rifjárni. Það er gott að leggja nokkur lög af eldhúspappír undir, pappírinn dregur í sig safann úr kúrbítunum. Svo hitar maður olíu í pönnu (u.þ.b. botnfylli) og steikir hvítlaukinn á meðalháum hita í smá stund (þangað til að hann byrjar að verða brúnn) og setur kúrbítinn á pönnuna. Ég bætti smá olíu við og lét þetta krauma á háum hita til að byrja með en svo meðalháum meðan ég sauð makkarónurnar. Salta og pipra.

Þegar makkarónurnar eru soðnar hellir maður vatninu af og blandar gumsinu saman við, ásamt u.þ.b. 2/3 bolla af parmesanosti. Svo hrærir maður duglega svo osturinn bráðni.

15. mars 2009

kanadískar pönnukökur

eða geta amrískar ekki alveg eins verið frá Kanada eins og BNA?

Þessar eru reyndar eiginlega breskar - allavega er uppskriftin niðurskrifuð af Nigellu hinni ofurbresku.

Amerískar pönnukökur

2 bollar hveiti
3 bollar súrmjólk
2 stór egg
1 msk sykur
1/2 tsk salt
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
4 msk smjör, brætt

Hitið ofninn til að halda pönnukökunum heitum. Blandið þurrefnunum saman og bætið í eggjum, súrmjólk og kældu smjörinu. Hrærið vel en það eiga að vera litlir hveitikekkir í deiginu. Smyrjið þykkbotna pönnu lítillega með bræddu smjöri og steikið pönnukökurnar og setjið þær á disk í ofninum meðan á steikingu stendur. Notið uþb hálfan bolla af deigi í hverja köku, steikið 3-4 kökur í einu. Steikið í uþb 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til loftbólur byrja að myndast í deiginu.
Berið fram með beikoni, eggjum og hlynsírópi, eða jarðarberjum, banönum og sírópi.

15. febrúar 2009

vængir buffalófuglsins

reyndar hafa Buffalo Wings ekkert með buffalóa að gera, heldur var uppskriftin fundin upp á bar í bænum Buffalo í New York fylki.

Þessa uppskrift notum við:

Vængir:
1 kíló af kjúklingavængjum,
3 msk smjör, brætt,
4 msk tabasco (notuðum bara tvær, heldur barnvænna, myndi nota meira ef við værum bara að gera fyrir okkur)
1 msk paprika
1/2 tsk salt
1/2 tsk cayennepipar
1/4 tsk svartur pipar

Gráðostasósa:
1/2 bolli sýrður rjómi
1/2 bolli mæónes
1/2 bolli gráðostur
1 msk hvítvínsedik eða annað hvítt edik
1 hvítlauksrif

Uppskriftin segir klippa ysta liðinn af vængnum af og henda, og klippa vængi í sundur á liðunum, við nennum því nú aldrei. Blandið bara saman bræddu smjörinu, tabascosósunni, papriku, salti, cayennepipar og svörtum pipar. Hellið yfir kjúklinginn og látið marinerast minnst hálftíma. Steikist í ofnskúffu við 200° í 20 mínútur til hálftíma. (uppskriftin segir líka grind og snúa bitunum eftir tíu mínútur, gerðum það síðast, nenntum ekki núna og þeir voru ekkert síðri úr skúffunni, bara setja þá í skál og hella safanum sem myndast í skúffunni yfir.

Gráðostasósan: Setjið allt sem á að fara í sósuna í blandara eða mixer og þeytið þar til fullkomlega jafnað út.

Berið fram með niðursneiddum sellerístönglum. Algjört nammi.

1. janúar 2009

kartöflustappan góða

prófaði í gær stöppu frá ircfélaga, hún sló í gegn, hvert atóm var borðað. Verður pottþétt gerð aftur.

Parmakartöflustappa Gunnars

1 kg kartöflur
50 g smjör
1 stykki parmaostur
salt
pipar

Sjóðið og afhýðið kartöflurnar, maukið. Setjið í pott, smjörið saman við og hitið við vægan straum þar til smjörið bráðnar, hrærið í allan tímann. Rífið allan parmaostinn og blandið saman við maukið, skiljið aðeins eftir til að strá yfir. Smakkið til með salti og pipar að vild. Áferðin á að vera þannig að stappan festist ekki við skeið.

Setjið í eldfast fat, bakið í ofni í 20 mínútur, eða þar til heitt í gegn og osturinn ofan á hefur brúnast örlítið.