30. mars 2010

Lasagna Hallveigar –versjón 29. Mars 2010 ;)

Kjötsósan:
500 gr jöklanautahakk úr Frú Laugu
1 laukur (átti reyndar bara tvo hálfa sem voru frekar litlir þannig að ég henti einum skalottulauk með)
4 hvítlauksgeirar
1 gulrót
1 sellerístöngull
2 dósir hakkaðir tómatar, maukaðir (eða ein flaska passata)
1 dós tómatpurée
1 grein ferskt rósmarín
2 tsk þurrkað oregano
1 tsk italian seasoning
Maldon salt og nýmalaður pipar
1 tsk sykur
3 lárviðarlauf
1 msk smjör og 1 msk olía
Vatn eftir þörfum

Ostasósan:
2 msk smjör
2 msk hveiti
500 ml mjólk
Nýmalaður svartur pipar
¼ tsk múskat
1 msk saxað ferskt basil
115 gr 26% gouda saxað smátt
Lasagnaplötur
Rifinn Parmigiano Reggiano
Mozzarellakúla skorin í þunnar sneiðar
40 gr gouda rifinn
Aðferð:
Um 4 tímum fyrir matmálstíma þarf að gera kjötsósuna. Maukið grænmetið rósmarínið og þurrkuðu kryddin saman í matvinnsluvél eða töfrasprota. Steikið úr olíunni og smjörinu í svolitla stund við miðlungshita, bætið svo hakkinu saman við og brúnið. Saltið og piprið kjötið, bætið svo maukuðu tómötunum, tómatpúrrunni, lárviðarlaufunum og sykrinum við. Lækkið hitann og látið malla í 3 tíma eða meira.
40 mínútum fyrir matmálstíma er kveikt á ofninum á 200°. Hitið mjólkina í litlum potti og í stærri potti bræðið smjörið og gerið smjörbollu úr hveitinu. Hellið mjólkinni saman við og þegar sósan fer að þykkna bætið þá ostinum út í. Piprið, og bætið múskati og söxuðu basil saman við.
Til að gera lasagnað takið þá stórt ferkantað eldfast mót, setjið ostasósu í botninn, þá lasagnaplötur, meiri ostasósu, kjötsósu, nokkrar tægjur af mozzarellaostinum og rífið smá parmigiano Reggiano yfir kjötblönduna. Þá lasagnaplötur, ostasósu, kjötsósu, ost osfrv. Endið á lasagnaplötum og ostasósu yfir þær, dreifið rifna ostinum yfir og smávegis af parmigiano og mozzarella ef þið eigið hann eftir.
Inn í ofn í 25 mínútur, borið fram með hvítlauksbrauði (ég var með hatting, það er best) og salati. Mitt salat í þetta skiptið var einstaklega einfalt, jöklasalat (átti ekkert kletta) konfekttómatar (líka úr Laugu) , hash avocado, nokkrar furuhnetur og fetaostur.