19. júní 2004

pasta með klettasalati

var með klettasalatspasta í gær, mjög einfalt, soðið spagettí. 100 g klettasalat soðið með síðustu 5 mín, á meðan steiktir 1-2 piparbelgir og slatti af hvítlauk við vægan hita. borið fram með helling af nýrifnum parmaosti. þetta var bara alveg ljómandi gott, fíngert ekki of afgerandi bragð, piparinn var orðinn sætur og alls ekki sterkur, börnin gleyptu þetta í sig og vildu meira.

annars á ég eftir að prófa afturendasítrónukjúklinginn, þó er bjórdollukjúlli fyrr á dagskránni. gætum þurft að gera hann heima hjá hallveigu, þar sem maður þarf lok á grillið fyrir hann :-)

11. júní 2004

rækjurnar hans Jamie og bruschetta

keypti chiabattabrauð í gær, byrjaði á því að bjóða Margréti Maríu og vinkonu hennar í Bruschettu í hádeginu.. mikið svakalega var það gott. Hér kemur uppskriftið:

handa 3

5 vel þroskaðir tómatar (notaði plómu en má örugglega nota góða íslenska)
2 hvítlauksrif
3 stórar eða 6 litlar sneiðar af chiabatta
8-12 basilikulauf
maldon salt og nýmalaður pipar
6 msk góð græn ólífuolía

skerið tómatana í tvennt, nuddið salti í sárið og snúið niður til að láta leka af þeim í umþb hálftíma.
ristið brauðið og nuddið hvítlauknum vel í það. hellið helmingnum af olíunni yfir, saltið og piprið. Skerið tómatana í bita, setjið yfir og rífið svo basilikkuna yfir. Þetta er þvílíkt gott!

svo um kvöldið gerði ég uppáhalds rækjuréttinn minn sem er frá Jamie Oliver, bjó svo vel að eiga tengdapabba sem var á rækjubát og þá fékk ég ósoðnar rækjur sem eru auðvitað miklu betri þannig að reynið að komast yfir svoleiðis. Gæti verið sjens í öllum betri fiskbúðum, t.d. fylgifiskum. Rétturinn virkar samt fínt með venjulegum sko, verður bara að passa að sjóða rækjurnar þá ekki eins lengi. en hér kemur þessi skrift:

fyrir 4

500 gr rækjur, helst hráar
hellingur af ólífuolíu
tvö rauð chili, fræhreinsuð
þumalputtastórt stykki af ferskum engifer
2 hvítlauksrif
safi úr 1-2 sítrónum
handfylli af steinselju, helst ítalskri, flatblaða
4 stórar eða 8 litlar sneiðar af chiabatta

saxið chili-ið smátt, rífið engiferinn og kremjið hvítlaukinn á pönnu. Hendið sosum 4 matskeiðum af ólífuolíu og rækjunum saman við (ekki strax ef þið eruð að nota soðnar) látið malla við meðalhita í 3-4 mínútur, setjið þá aðrar 3-4 msk olíu (já ég veit, ég veit!) út í og kreistið sítrónusafann saman við. ristið brauðið á meðan þetta er að gerast og að hendið að lokum steinseljunni saman við, kryddið með maldon salti og pipar ef vill (mér finnst það varla nauðsynlegt), hellið yfir brauðin og njótið! Mikið af köldu riesling er NAUÐSYNLEGT hérna sko, við vorum að drekka þetta hérna.. eitt af uppáhalds vínunum okkar jóns.. smellpassaði algjörlega :)

10. júní 2004

ösku(busku)kjúklingur

sko ... húsbóndinn af bæ og því lenti það á mér að elda ofan í okkur mæðgur á versta tíma dagsins eftir þriggja kortéra hjólatúr í rigningu með mörg kíló í töskum og pokum og barnið sofandi aftan á ... en ég eldaði einfalt og ljúffengt og þá varð allt gott á ný:
tvær kjúklingabringur maríneraðar í safa af einni sítrónu ... látið liggja eins lengi og þolinmæðin leyfir
salt og pipar
olía á pönnu og bringunum skellt út á með stæl ... látið einhvern annan segja hversu lengi á hvorri hlið, ég var ekki einu sinni með úr
skellti smá rósmaríni út á líka
og svo var það punkturinn yfir i-ið ...
parmesan, og bara nóg af honum

í eftirrétt var boðið upp á pekanhnetuís með sjóðheitu expressókaffi út á (handa mér) namminamm

annars, ég hlakka til að borða fiiiisk á íslandi.

8. júní 2004

meiri fiskur

ég gæti alveg vanist á að borða hlýra...

keypti stórt og fínt hlýrastykki í dag, penslaði með olíu íblandaðri fiskikryddi pottagaldra og grillaði, 3 mín á hlið. (humm, jón lárus grillaði reyndar). gerði sósu úr sýrðum rjóma, smá mæónesi (jú, gunnars), fullt fullt af graslauk úr garðinum og smá salti

tær snilld.

7. júní 2004

Lausn í sjónmáli?

Það er hægt er að blanda túnfisk saman við svokallað Graddfile (selt í eins umbúðum og rjómi) og þá kemur út þokkalegt túnfisksallat. Ég blandaði tabasco saman við mitt og svo hakkaði ég púrrulauk með og það var bara mjög gott.

3. júní 2004

chapati

Chapati er indverskt brauð, svolítið eins og það sem maður notar í tortilla, þunnt og steykt á pönnu við mikinn hita. Það er mjög erfitt að búa til chapati, það tók mig u.þ.b. 10 tilraunir að ná tökum á því.

Ef maður ætlar að gera ekta chapati verður maður að nota chapati-mjöl, veit ekki hversu auðvelt það er að nálgast það á Íslandi, hef ekki enn fundið það hér í Danmörku. Ég blanda venjulegu hveiti og graham-mjöli (Ólöf sem kenndi mér að gera chapati notar chapati-mjöl og blandar kjúklingabaunamjöli út í) í hlutföllunum fjórir desilítrar hveiti á móti einni matskeið af graham-mjöli. Smá salt. Þetta er voða mikið slumpur og sletta.

Svo byrjar maður að skvetta volgu vatni út í hveitið í MJÖG litlu magni, og byrjar að hnoða og hnoða og hnoða. Deigið á að verða mjúkt og rakt, en ekki of blautt. Það er best að láta degið jafna sig undir viskustykki í smá tíma.

Síðan fletur maður degið út í smá bitum, eitt brauð í einu, þau eiga að vera u.þ.b. 10 til 15 sentimetrar í þvermál, mjög þunn en ekki laufabrauðs-þunn. Fyrst bakar maður eina hlið á pönnunni í smá tíma, bara til að loka deginu. Svo bakar maður hina hliðina þangað til að hún er orðín smá brennd. Snýr, og nú hefst aðal kúnstin: Pannan verður að vera það heit að brauðið tútnar út eins og blaðra ef maður þrýstir aðeins á það. Ef hún er of heit fer allt í hass og brauðið brennur bara við. Ef hún er of köld tútnar brauðið ekki út og það verður seigt.

Þegar brauðið er bakað leggur maður það á disk og baðar það í ghee. Ég nota bara venjulegt smjör af því að mér finnst ghee ekki gott á bragðið.

2. júní 2004

hvet alla

til að prófa þarna dauðafiskinn frá hallveigu, ekkert SMÁ góður. sleppti reyndar paprikunni, gleymdi að kaupa, en grænmetið og fiskurinn verulega jömmí í sósunni. notuðum hlýra, mmmm!