8. desember 2012

Kálfapottréttur

Keyptum kálfagúllas í Frú Laugu um daginn (hlakka ekki smá til að fá Laugu litlu hér á Óðinsgötuna) án þess að vita svo sem hvað við ætluðum að gera við það. Eitthvað smá vorum við búin að brjóta heilann en svo datt inn uppskrift á allrecipes.com sem ég birti hér án þess að skammast mín hætishót.

1 kg kálfagúllas
1 meðalstór laukur, saxaður
2 hvítlauksrif (má vera meira)
smjörbiti til að steikja upp úr (þeir segja olía, við notuðum smjör)
dós af tomato sauce eða cassata
1/2 bolli hvítvín
salt og pipar

Bræðið smjörið í stórum potti. Mýkið lauk og hvítlauk í smjörinu án þess að brúna of mikið. Bætið kjötinu í pottinn og brúnið allar hliðar.

Hellið tomato sauce/cassata (vonlaust að nota orðið tómatsósa) og víninu saman við, kryddið með salti og pipri að vild. Lækka hitann niður í lægsta og láta malla undir loki í einn og hálfan klukkutíma eða þar til meyrt.

Og meyrt var það!

Bárum þetta fram með kartöflustöppu bragðbættri með matskeið af dijonsinnepi. Talað um núðlur í allrecipes uppskriftinni en ég held að stappan passi betur.

Mæli annars með síðunni, við höfum fundið alveg fullt af góðum uppskriftum þar.

24. nóvember 2012

Rauðspretta með brúnu sítrónusmjöri

Þessi tilraunaréttur var óvart tekinn um daginn þegar steinbíturinn/hlýrinn sem við ætluðum að hafa í matinn fékkst ekki hér á Freyjugötunni. Sló í gegn.

Samkvæmt uppskriftinni á að vera fiskur sem heitir lemon sole (þykkvalúra á íslensku) en hann var svosem ekki til heldur. Rauðsprettan var fín.

4 flök rauðspretta
3 msk hveiti
1/2 tsk salt
nýmalaður svartur pipar, (notuðum reyndar hvítan)
1 1/2 msk sólblómaolía
45 g smjör í bitum
safi úr 1/2 sítrónu
1 msk söxuð steinselja
1 msk smár kapers

Beinhreinsið fiskinn ef þarf.

Blandið saman hveiti, salti og pipar og dreifið á disk. Húðið fiskflökin með hveitinu.

Hitið olíuna vel á stórri pönnu. Lækkið niður í meðalhita og steikið 1-2 mínútur á hlið eða þar til fiskurinn er gullinbrúnn. Snúið við og endurtakið við hina hliðina. Takið af pönnunni og vefjið í álpappír til að halda heitu.

Bræðið smjörið á pönnunni og brúnið létt. Takið af hitanum og blandið sítrónusafanum, kapersi og steinselju saman við. Setjið fiskinn aftur á pönnuna, ausið smá af sítrónusmjörinu yfir og berið fram.

Uppskriftin frá henni Rachel Khoo og fengin hér með smábreytingum.

26. ágúst 2012

Langeldaðir lambaskankar á norður-Afrískan máta

Eitt af uppáhaldsbloggunum mínum er matarbloggið hans Ragnars Freys, unglæknis í Svíþjóð sem finna má hér : http://blog.pressan.is/ragnarfreyr/

Hann er líka á facebook sem The doctor in the kitchen og þar fór hann að tala um að hafa eldað lambaframpart með norður-Afrísku sniði og þar sem við féllum fyrir líbananum okkar í Barcelona langaði mig að elda einhvernveginn þannig mat um helgina.

 Hann setti uppskriftina ekki á bloggið sitt en var svo indæll að gefa mér hana upp á fb síðunni, ég fékk svo leyfi hans til að henda henni hér inn, svo það verði auðvelt að finna hana. Þetta var alveg hreint stórkostlega bragðgott og ég mæli með þessu! þetta er semsagt hans uppskrift með einni örlítilli viðbót frá mér. Kúskúsið og sósan eru aftur á móti mínar uppskriftir :)

En hér kemur uppskriftin:

kjötið:
2 lambaskankar eða 1 frampartur
olía og maldonsalt
kryddblanda: 1 msk kóríanderfræ, 1 msk cumminfræ (broddkúmen) og 1 tsk súmak
2 laukar
3 hvítlauksrif
3 gulrætur
2 sellerístönglar
handfylli af þurrkuðum döðlum
3 þurrkaðar kardimommur, létt barðar
3 stk kanilstangir
200 ml vatn

Kveikið á ofninum á 170° og takið til ofnpott með loki.

Saxið grænmetið gróft og setjið í botninn á pottinum, bætið svo kanilstöngunum og kardemommunum við. Lambaskankarnir makaðir með olíu og saltaðir, ristið kóríander- og cumminfræin á pönnu og útbúið svo kryddblönduna með því að mylja ristuðu fræin í morteli og blandið svo við súmakið.

Þessu er makað á kjötið, það lagt ofan á grænmetið í pottinum, vatninu bætt í pottinn, lokið sett á og inn í ofn í 3 1/2-4 klukkutíma (fer eftir magni kjötsins). Þegar klukkutími er eftir af suðutímanum er döðlunum bætt í pottinn.

Þegar kjötið er tilbúið er það tekið upp úr pottinum, kanilstangirnar og kardemommurnar fjarlægðar og grænmetið, döðlurnar og vatnið maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél til að búa til döðlusósu með kjötinu.

Marokkóskt kúskús:
1 bolli kúskús
1 1/4 bolli vatn
1 tsk salt
1/2 tsk túrmerik
1/4 tsk kanill
1/4 tsk cummin
1/4 bolli rúsínur
1/4 bolli furuhnetur, ristaðar
1 msk smjör

 Setjið vatnið, smjörið, kryddið, saltið og rúsínurnar saman í pott og látið suðuna koma upp. Blandið þá kúskúsinu saman við, setjið hneturnar út í og lokið á í 5 mínútur. Flöffið svo kúskúsið upp með gaffli og berið fram.

 Jógúrtsósa:

1 dós jógúrt og smávegis sýrður rjómi eða lítil dós grísk jógúrt
2 hvítlauksrif marin
1 tsk cumminduft
1 tsk hlynsíróp
sítrónusafi
1 tsk tahini (má sleppa)

Blandið öllu saman og smakkið til með salti.
Mæli með að gera sósuna fljótlega eftir að kjötið fer í ofninn, það er alltaf betra ef sósur fá að brjóta sig aðeins.

11. júlí 2012

spakettí með laxi og blaðlauk

Tilraunaréttur áðan og tókst svona líka ljómandi vel. Hlakka strax til að borða afganginn í hádeginu á morgun:

500 g spakettí
2 blaðlaukar, ljósi hlutinn
smjör til steikingar
safi úr einni sítrónu
1 1/2 dl rjómi
1 msk dijonsinnep
300 g. lax (átti reyndar silung, ekki verra)
salt
chilipipar

Skerið blaðlaukinn í sneiðar og látið malla við vægan hita á pönnu í smjörinu í 5-6 mínútur. Á meðan laukurinn mallar, sjóðið spakettí eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið sítrónusafa, rjóma, dijonsinnep og chilipipar saman við og hitið að suðu, Skerið laxinn/silunginn í fremur litla bita (daninn myndi segja mundrette bidder í sínum uppskriftum en mér finnst asnalegt að skrifa munnbita), setjið saman við sósuna og sjóðið þar til fiskurinn er rétt orðinn ljós í gegn, alls ekki of lengi.

Hellið af pastanu, sósuna yfir og njótið.

20. janúar 2012

indverskur smjörkjúklingur

jámm bein þýðing á Indian Butter Chicken, unglingurinn minn, rétt ófarinn til New York í mánuð (og svo væntanlega Suðurameríku mánuði seinna) bað um indverskan mat og ég lagðist í gúgul.

Þetta fannst. Og fer beint á uppáhaldslistann.

Smá breytingar samt:

50 g smjör, skipt í tvo helminga
2 laukar, saxaðir
3 hvítlauksrif, söxuð
1 dós hakkaðir tómatar (notaði hálfa flösku af passötu)
1 peli rjómi
1 lítil dós kókosmjólk
1 tsk salt
1 tsk cayennepipar eða chilipipar
1 tsk garam masala

750 g kjúklingabringur
2 msk matarolía, helst bragðlítil
2 tsk tandoori masala (tandoorimauk)

Hita ofninn í 190°
Bræðið helminginn af smjörinu á pönnu. Setjið lauk og hvítlauk út á og látið malla við vægan hita í hálftíma eða þar til vel brúnn
Á meðan, bræðið restina af smjörinu í potti ásamt rjóma, kókosmjólk, tómatmauki, salti, cayenne/chilipipri og garam masala. Látið malla í hálftíma við lægsta hita, hrærið af og til.
Skerið kjúklingabringur í passlega munnbita, þekið með olíu og tandoorimauki (setti allt í plastpoka og nuddaði saman). Raðið á plötu með bökunarpappír og steikið í ofninum, ekki lengur en 12 mínútur (mikilvægt).
Hrærið lauk og kjúklingabitum saman við sósu og berið strax fram.

Berið fram með hrísgrjónum og ekki verra að hafa naanbrauð með.