22. nóvember 2010

Trufflaður kálfur

fyrir 4

fyrir sinnepssósu:

4 tsk Dijonsinnep (með trufflum)
3 msk rjómi

hrært saman í skál

800 g kálfasnitselsneiðar
smjör eða önnur feiti til steikingar
safinn úr truffludósinni (um 50 g)
6 msk kjötgljái (notuðum hamborgarhryggsgljáa)
50 g trufflusveppir, smátt saxaðir
salt
pipar

Skerið kálfakjötið í strimla, ca 2 cm breiða. Steikið á heitri pönnu í eina mínútu (snúa við eftir hálfa). Takið kjötið af pönnunni og haldið heitu en skiljið safa sem myndast við steikinguna eftir á pönnunni. Setjið trufflusafann og kjötgljáann saman við kjötsafann og sjóðið niður við góðan hita í 2-3 mínútur.

Setjið matskeið af sinnepssósu á hvern disk (ekki sakar að hita diskana aðeins), þá fjórðunginn af kálfastrimlunum í fallegan pýramída yfir sinnepssósuna, stráið trufflusveppunum yfir og dreypið síðast kjötsoðsósunni hringinn í kring um kjötpýramídann.

Hvetjið gesti ykkar endilega til að lyfta diski að nefi til að njóta ilmsins af trufflunum.

(Svo er væntanlega hægt að gera réttinn trufflulausan en kannski með öðrum góðum sveppum – það er jú 2010 ekki 2007. Örugglega gott samt!)

10. nóvember 2010

ofnbakaðir kjúklingaleggir

hæ öll, stel hér miskunnarlaust af hinni góðu síðu southernfood.com.. hljómar það ekki vel? datt inn á þessa leggi um árið og geri þetta alltaf reglulega, einfalt og gott.

8 kjúklingaleggir þurrkaðir létt með eldhúspappír

blandið saman í poka:

2 msk hveiti
1 tsk kjúklingakryddi
1 tsk papriku
1/2 tsk karrí
1 tsk grófu salti
1/2 tsk nýmöluðum pipar

Bræðið 1-2 msk smjör, takið eldfast fat, klæðið það að innan með álpappír og smyrjið ca helmingnum af smjörinu í botninn.

takið leggina, 2 í einu og veltið upp úr hveitiblöndunni og raðið í fatið.

dreypið svo restinni af smjörinu yfir kjúklinginn.

Inn í ofn við 200° í 45 mínútur. Eftir hálftíma er gott að snúa leggjunum svo þeir brúnist báðum megin.

Með þessu höfum við svo kartöflubáta sem fá að malla með í ofninum og gott salat.