Prófuðum þetta í gærkvöldi, eigum afgang, get ekki beðið :-) Salatið gengur örugglega með ýmsu öðru eða þá bara út af fyrir sig sem forréttur eða léttur hádegismatur með ristaðri brauðsneið. Mmm. Kálfinn þarf að krydda að morgni eða kvöldið áður.
Uppskriftin ætti að nægja fyrir 6 manns.
Kálfurinn:
1 kg kálfalund
rifinn börkur af einni sítrónu
1-2 tsk fersk blöð af sítrónutimjani (fann ekkert svoleiðis, notaði bara venjulegt timjan, þurrkað)
1 1/2 tsk salt
nýmulinn pipar
smá ólífuolía til steikingar (notaði reyndar smjör en mjög lítið af því)
Safi úr einni sítrónu
1/2 tsk hrásykur
Nuddið kjötið upp úr sítrónuberki, timiani salti og pipri og látið liggja í 10-12 tíma
Steikið síðan á pönnu við meðalhita í 15 mínútur. Snúið oft. Takið af hitanum og hvílið í 10 mínútur. Hellið sítrónusafa og hrásykri á pönnuna, látið vökvann sjóða örlítið niður. Takið aftur af og látið hvíla í aðrar 10 mínútur áður en kjötið er skorið í sneiðar.
Gremolata:
2 dl fínsöxuð steinselja
1-2 hvítlauksrif
rifinn börkur af einni appelsínu
Öllu blandað saman, borið fram með.
Volgt sveppa- og spínatsalat:
750 g. blandaðir sveppir (já, eða bara venjulegir, við notuðum þannig)
2 skalottulaukar
100 g sólþurrkaðir tómatar
2 msk ólífuolía (ég sleppti henni, gerði ekkert til)
150 g ostur, grófrifinn eða í bitum (talað um gruyére eða emmentaler, ég notaði cheddar)
100 g ferskt spínat (ég notaði mun meira)
1/2 tsk salt
nýmulinn pipar
Steikið sveppina á þurri pönnu þar til mesta vætan er gufuð upp. Setjið tómata og hakkaða lauka saman við og steikið smá stund í viðbót. Takið af pönnunni, setjið ostinn saman við og leyfið að bráðna létt, hrærið síðan spínatinu saman við og smakkið til með salti og pipar.
Berist fram með bökuðum eða ofnsteiktum kartöflum. Algjört nammi.
5. febrúar 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli