2. janúar 2006

kóksvínið

(og ekki láta ykkur dreyma um að nota pepsí...)

Vorum með kóksvínið hennar Nigellu um áramótin. Mæli sterklega með því (svona til hliðar, söknuðum þín úr eftirpartíinu, Gunnar Hrafn)

Hér fær maður engar léttsaltaðar skinkur þannig að ég spurði Nönnu hvernig ég færi að því að verka kjötið. Svarið var: "Settu hann í pækil. Byrjaðu á að sjóða saman 1 kg gróft salt og 100 g sykur með slatta af vatni (og kryddi ef vill), kældu, settu kjötið í og bættu við ísköldu vatni eftir þörfum."

Gerði þetta allt saman samviskusamlega. Henti saman við nokkrum lárviðarlaufum og negulnöglum. Lét liggja í 3 daga, snéri einu sinni á dag (hmm, Jón Lárus snéri, einu sinni á dag)

Svo var uppskriftin sjálf. Ættuð úr Trashy kafla Nigella Bites:

ein léttsöltuð svínasteik (notuðum bóg, passlega fituspengdur)
1 laukur, afhýddur og skorinn í tvennt
Kók, með sykri, nóg til að dekka steikina

glasering:
kúfuð matskeið af sírópi (átti að vera dökkt en ég fann það ekki, notaði bara Tate&Lyle í dós)
2 msk sinnepsduft
2 msk hrásykur

slatti af negulnöglum

Kjötið og laukurinn sett í stóran pott (í mínu tilfelli svart ofnfat, of stór fyrir pottana mína). Hellt yfir kóki svo fljóti yfir. Ná upp suðu, lækka hitann niður í mall, mallist í tvooghálfan til þrjá tíma. Skiptir ekki stóru máli hvað steikin er stór, þetta ætti að duga. Hitið ofninn í 240°. Hirðið steikina upp úr pottinum, kælið örlítið, smyrjið feitihluta steikarinnar með sírópinu, nuddið inn sykri og sinnepsdufti og skerið í hana tíglamynstur. (Nigella segir skera burtu pöruna, það er rugl. Fólk hakkaði í sig pöruna þegar einhver fann hana frammi í eldhúsi og kom með inn á borð. Þeir sem vilja ekki fitu geta sjálfir skorið hana burtu á sínum eigin diski). Raðið nokkrum negulnöglum í rendurnar, eins og á pörusteik.

Grillið á í ofninum eða ofninn í 250°, steikin inn, grillið tekur bara 2-3 mínútur (EKKI gleyma steikinni inni, annars þarf að henda besta partinum, brenndur, aftur personal experience), vel heitur ofn um 10 mín.

bara snilldin!