11. febrúar 2010

lambalæri frá Mughlai - eða Raan

Þá erum við búin að finna - tja annan tveggja indverskra uppáhaldsrétta, vinur okkar hafði lengi talað um raan lambalæri og svo fundum við það í karríbókinni góðu sem Óli bróðir gaf okkur einu sinni í jólagjöf. Undir nafninu Mughlai-style leg of lamb, það var í undirtexta sem Raan var nefnt.

Hér er allavega uppskriftin:

4 stórir laukar, hakkaðir
4 hvítlauksrif
5 cm stykki ferskur engifer, rifinn (notuðum duft reyndar - engiferóþol mitt)
3 msk hakkaðar möndlur
2 tsk cumin
2 tsk kóríanderkrydd
2 tsk túrmerik
2 tsk garam masala
4-6 grænir chiliávextir eða eftir smekk
safi úr einni sítrónu
3 dl hreint jógúrt
1 gott lambalæri (um 2 kg)
8-10 negulnaglar
salt
1 msk möndluflögur til skrauts
4 ferskir tómatar


Setjið fyrstu 10 atriði listans í matvinnsluvél eða blandara ásamt salti eftir smekk og hakkið í slétt mauk. Bætið jógúrti við smátt og smátt og hrærið á milli.

Smyrjið stóran steikarpott.

Hreinsið mestu fituna og skinnið af lærinu. Stingið djúpa vasa í kjötið meðfram beininu sitt hvoru megin, þar sem þykkasti hlutinn er, skerið síðan tvo skurði á ská, báðum megin í þykka hlutann. Stingið negulnöglunum á kaf hér og þar í kjötið. Smyrjið kryddblöndunni í vasana og skurðina á kjötinu og afganginum yfir kjötið. Leggið lærið í steikarpottinn og lokið (má loka með álpappír).

Leyfið að standa í 2-3 klukkutíma áður en eldað er.


Hitið ofninn í 190° C. Setjið kjötið inn og leyfið að steikjast í 2 - 2 1/2 klst eða þar til kjötið er fulleldað. Takið lokið eða álpappírinn af síðustu 10 mínúturnar af steikingartímanum.

Takið kjötið út þegar það er fulleldað, stráið möndluflögum yfir og leyfið að standa í 10 mínútur áður en skorið er í kjötið.

Berið fram með grilluðum tómötum (við hentum þeim bara út í pottinn þessar síðustu 10 mínútur eftir að lokið var tekið af, það kom mjög vel út)

Svo má auðvitað hafa naan og rætu með.

Engin ummæli: