8. desember 2012

Kálfapottréttur

Keyptum kálfagúllas í Frú Laugu um daginn (hlakka ekki smá til að fá Laugu litlu hér á Óðinsgötuna) án þess að vita svo sem hvað við ætluðum að gera við það. Eitthvað smá vorum við búin að brjóta heilann en svo datt inn uppskrift á allrecipes.com sem ég birti hér án þess að skammast mín hætishót.

1 kg kálfagúllas
1 meðalstór laukur, saxaður
2 hvítlauksrif (má vera meira)
smjörbiti til að steikja upp úr (þeir segja olía, við notuðum smjör)
dós af tomato sauce eða cassata
1/2 bolli hvítvín
salt og pipar

Bræðið smjörið í stórum potti. Mýkið lauk og hvítlauk í smjörinu án þess að brúna of mikið. Bætið kjötinu í pottinn og brúnið allar hliðar.

Hellið tomato sauce/cassata (vonlaust að nota orðið tómatsósa) og víninu saman við, kryddið með salti og pipri að vild. Lækka hitann niður í lægsta og láta malla undir loki í einn og hálfan klukkutíma eða þar til meyrt.

Og meyrt var það!

Bárum þetta fram með kartöflustöppu bragðbættri með matskeið af dijonsinnepi. Talað um núðlur í allrecipes uppskriftinni en ég held að stappan passi betur.

Mæli annars með síðunni, við höfum fundið alveg fullt af góðum uppskriftum þar.

Engin ummæli: