6. nóvember 2008

mokka créme brulée

Lengi verið meiningin að gera svona mokka créme brulée, fengum slíkt fyrir óratíma á Grillinu, margoft gert vanillu créme brulée síðan, einu sinni prófað uppskrift að kaffiútgáfu, úr eftirréttabók Hagkaupa, minnir mig, hún var glötuð.

Ákváðum að búa til eigin útgáfu, tókum uppskriftina frá henni Nönnu og skiptum hluta mjólkurinnar út fyrir níðsterkt kaffi. Tókst snilldarvel, þetta verður bókað á fastalistanum héðan í frá.

Hér kemur hún (vona þetta sé í lagi, Nanna):

250 ml rjómi
200 ml mjólk
50 ml sterkt lagað kaffi
1 vanillustöng
100 g sykur
4 eggjarauður

hrásykur

Ofninn hitaður í 150 gráður og vatn sett í ofnskúffuna. Vanillustöngin er soðin í rjómanum og mjólkinni ásamt helmingnum af sykrinum, kaffinu hellt saman við og blandan kæld smá. Rauðurnar þeyttar ljósar og léttar með afganginum af sykrinum. Vanillustöngin tekin upp úr og rjómablöndunni hellt smám saman saman við eggin og sykurinn. Hellt í lítil eldföst mót sem bökuð eru í vatnsbaði þar til búðingurinn hefur stífnað. Kælt vel.

Hrásykri stráð yfir og hann bræddur undir grilli eða með gasbrennara þar til hann brúnast vel. Borið strax fram, þá er sykurinn stökkur.

Engin ummæli: