19. september 2007

undir ítalskri sæng

Þetta er uppskrift úr sænsku vikublaði (minnti mig svolítið á þetta og vona nú að minnið hafi ekki brugðist mér algerlega...):

svínalundir (u.þ.b. 700 gr)
salt og pipar
olía til steikingar
125 g mozzarella
1 dl grilluð paprikka
1/2 basilíkuplanta
1/2 dl valhnetur
2 hvítlauksgeirar

1. Hreinsa lundirnar (fjarlægja himnur og svoleiðis), salta og pipra. Steikja lundirnar í olíunni þangað til þær fá á sig gullinn bjarma. Setja svo í 175° heitan ofn í u.þ.b. 15 mínútur.

2. Brytja mozzarellaostinn niður. Skera paprikkuna í teninga, hakka basilíkuna, hneturnar og hvítlaukinn. Blanda öllu saman. Salta og pipra. Ég jók nú magnið af þessu öllu saman af því mér fannst þetta svo lítið, en það var eiginlega óþarfi.

3. Sneiða lundirnar og leggja í eldfast mót. Hella gumsinu yfir og setja inn í 225° heitan ofn í u.þ.b. 10 mínútur. Ég hellti safanum sem kom af kjötinu yfir allt (af því ég hélt að þetta myndi verða svo þurrt) en ég hefði ekki átt að gera það því þetta varð heldur mikið sull. En það bragðaðist vel.

Við erum svo löt þessa dagana að við átum bara soðnar kartöflur með. Annars er mælt með baunabelgjum og ofnsteiktum kartöflum ...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

kva, kvusslax, ég sem hélt að þetta væri orðinn einkalistinn minn, hérna ;)

En þetta hljómar mjööög vel. Fer á matseðil.