3. júní 2004

chapati

Chapati er indverskt brauð, svolítið eins og það sem maður notar í tortilla, þunnt og steykt á pönnu við mikinn hita. Það er mjög erfitt að búa til chapati, það tók mig u.þ.b. 10 tilraunir að ná tökum á því.

Ef maður ætlar að gera ekta chapati verður maður að nota chapati-mjöl, veit ekki hversu auðvelt það er að nálgast það á Íslandi, hef ekki enn fundið það hér í Danmörku. Ég blanda venjulegu hveiti og graham-mjöli (Ólöf sem kenndi mér að gera chapati notar chapati-mjöl og blandar kjúklingabaunamjöli út í) í hlutföllunum fjórir desilítrar hveiti á móti einni matskeið af graham-mjöli. Smá salt. Þetta er voða mikið slumpur og sletta.

Svo byrjar maður að skvetta volgu vatni út í hveitið í MJÖG litlu magni, og byrjar að hnoða og hnoða og hnoða. Deigið á að verða mjúkt og rakt, en ekki of blautt. Það er best að láta degið jafna sig undir viskustykki í smá tíma.

Síðan fletur maður degið út í smá bitum, eitt brauð í einu, þau eiga að vera u.þ.b. 10 til 15 sentimetrar í þvermál, mjög þunn en ekki laufabrauðs-þunn. Fyrst bakar maður eina hlið á pönnunni í smá tíma, bara til að loka deginu. Svo bakar maður hina hliðina þangað til að hún er orðín smá brennd. Snýr, og nú hefst aðal kúnstin: Pannan verður að vera það heit að brauðið tútnar út eins og blaðra ef maður þrýstir aðeins á það. Ef hún er of heit fer allt í hass og brauðið brennur bara við. Ef hún er of köld tútnar brauðið ekki út og það verður seigt.

Þegar brauðið er bakað leggur maður það á disk og baðar það í ghee. Ég nota bara venjulegt smjör af því að mér finnst ghee ekki gott á bragðið.

Engin ummæli: