13. febrúar 2011

humar risotto

Gerði rosa gott humar-risotto í kvöld.

Fyrst gerði ég humarsoð úr skeljunum, uppskriftin er frá Nönnu Rögnvaldar:

brúnið skeljarnar lítillega í olíu, saxið gróflega hálfan lauk(með hýðinu), eina gulrót og einn sellerístilk og steikið með í nokkrar mínútur. Setjið saman við tvær greinar af timian, eitt lárviðarlauf, vel af salti og nýmöluðum pipar og einn lítra af sjóðandi vatni. Sjóðið í hálftíma (ekki lengur, þá kemur beiskt bragð af skeljunum), sigtið og geymið.

Þá er komið að risottóinu sjálfu:

Innihald:
1 lítri humarsoð (má auðvitað nota keypt ef fólk nennir ekki að standa í hinu)
1 laukur saxaður
4 skallottulaukar saxaðir (má sosum setja meira af venjulegum, notaði skallottulauk fyrst ég átti hann)
3 hvítlauksrif fínt söxuð
300 gr arboriogrjón
smjör og olía
150 ml hvítvín
nokkrir þræðir saffran
1 bolli rifinn parmigiano reggiano
400 gr humar (skelflettur og skelin notuð í soðið) skorinn í bita.
aukasmjör og olía, sítrónusafi ef vill og smá hvítvínssletta
2 msk söxuð steinselja

meiri parmigiano til að dreifa yfir við borðið.



Mýkið lauk, hvítlauk og skallottulauk í slatta af olíu og smjöri (1-2 msk af hvoru). Setjið grjónin saman við laukinn og hyljið í feitinni. Hellið hvítvíninu saman við og látið sjóða upp af, hrærið stöðugt í á meðan. Myljið saffran þræðina yfir grjónin.

Bætið svo við einni ausu af soðinu í einu, hrærið stöðugt og látið sjóða vel upp af á milli þar til grjónin eru tilbúin, það á ennþá að vera smá "bæt" í grjónunum (tekur ca lítra af soði fyrir 300 gr grjón). Þegar stutt er eftir af grjónunum steikið þá humarbitana upp úr smjöri og smá olíu, kreistið smá sítrónusafa út á og skvettið svolitlu hvítvíni á pönnuna. Hrærið parmigiano ostinum saman við grjónin, blandið svo humrinum (og safanum af pönnunni) saman við, dreifið steinseljunni yfir og berið fram með meiri parmigiano.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Býrðu til þessar uppskriftir sjálf eða er þetta tekið úr einhverjum bókum?
Ef þú býrð þetta til í hausnum á þér, ertu þá ekki til í að vera með matreiðslunámskeið til að kenna okkur lúðunum að elda góðan mat? Þetta hljómar allt svo hrikalega gott.

Nafnlaus sagði...

beiska bragðið af skeljunum - já akkúrat, það var það sem klikkaði hjá okkur, við fórum eftir einhverri heimskulegri uppskrift sem talaði um að sjóða skeljarnar með í 3-4 tíma! Er furða þó súpan hafi ekki verið eins góð og ég var að vonast til?