2. apríl 2013

Eggjanúðlur með svínakjöti, hvítkáli og grænmeti

Fífu langaði í núðlur í kvöld þannig að við hættum við að fara út í fiskbúð og keyptum smá inn í Krónunni í staðinn. Slatti var til af grænmeti þannig að litlu þurfti að redda.

Elduðum fyrir okkur fimm:

2 pakkar af eggjanúðlum
600 g svínahnakki
1 lítill hvítkálshaus (minnsti sem við fundum)
2 grænar paprikur
10 meðalstórir sveppir
1/2 laukur
handfylli af sesamfræjum ef vill
3 msk hitaþolin olía
lítil krukka hoisin sósa

Svínakjötinu skellt í frysti í kortér svo auðveldara sé að steikja, á meðan er grænmetið skorið í þunna strimla.

Sesamfræ þurrristað á pönnu

Vatn sett yfir til að sjóða núðlurnar.

Kjötið skorið í þunna strimla, ca sentimetra á þykkt.

Stór panna hituð mjög vel, þá er helmingi olíunnar hellt á pönnuna og þegar fer að rjúka úr brúnunum er kjötið veltisteikt þar til það er brúnt á öllum hliðum, um ein og hálf mínúta við hæsta hita. Kjötið tekið af pönnunni, hún hituð aftur, restin af olíunni sett á pönnuna, sveppir, laukur, paprika og helmingur kálsins settur út á. Nokkuð passlegt þarna að sjóða núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka.

Veltisteikt þar til byrjar að mýkjast og brúnast, þá er restin af kálinu sett saman við og steikt í 2-3 mínútur í viðbót eða þar til allt er orðið fagurbrúnt. Kjötið sett saman við, hoisin sósan líka, hrært vel í gegn og hitað aðeins.

Lykilatriði í steikingunni er að alltaf sé mjög góður hiti undir pönnunni og ekki sé of mikið sett á hana í einu (sérstaklega kjötið - það slapp samt alveg enda er ég með eina gashellu með ofurhita).

Borið fram með núðlunum og sojasósu eða meiri hoisin sósu ef vill. Stráið sesamfræjunum yfir ef vill.

Þetta var ALLT OF MIKILL MATUR fyrir okkur fimm. Dugar vel í hádegismat á morgun líka...
Enginn vandi er að breyta þessu í grænmetisrétt, bara sleppa svíninu. Örugglega gott. Vegan ef notaðar hrísgrjónanúðlur í stað eggjanúðla.