21. október 2008

ólífubrauð

Samkvæmt beiðni, stolið hér upp úr elstu Ostalystarbókinni:

Dugar í 2 brauð

50 g pressuger eða 1 bréf þurrger
6 dl vatn
1/2 dl matarolía (nota ólífuolíu - ekki jómfrúrvaríantinn, óþarfi)
2 tsk salt
950 g hveiti
200 g rifinn ostur (stendur 125 g í uppskrift)
110 g fylltar grænar ólífur

Myljið gerið/hellið þurrgeri í skál. Hitið vatnið í 37°, hellið saman við gerið og hrærið þar til gerið hefur jafnast út. Hrærið olíu, salti og hluta af hveitinu saman við, eða þar til deigið er ekki sérlega blautt (fer eftir hvað hveitið hefur mikinn raka, ég hef þurft að setja meira en þessi 950 grömm stundum). Leyfið deiginu að lyfta sér á hlýjum stað í um 40 mínútur.

Skerið ólífurnar í sneiðar og rífið ostinn. Hitið ofninn í 225°

Hnoðið deigið og skiptið því í tvennt. Fletjið út hvorn helming fyrir sig í ca 50x25 cm ferhyrninga. Stráið osti og ólífum ofan á. Rúllið upp frá langhliðinni. Myndið skeifu úr rúllunum, látið á plötu klædda bökunarpappír og bakið í um 25 mínútur. Penslið brauðin af og til með vatni eða þeyttu eggi, meðan á bökun stendur, til að mynda skorpu og gera brauðið fallegra.

Látið brauðin kólna undir klút (hmm, reyndar nær annað brauðið aldrei að kólna alveg niður hér...)