15. mars 2008

pasta í túnfiskostarjómasósu

jámm, þetta er alveg eins gott og það hljómar. Kom reyndar ekki öllu í nafnið sem hefði eiginlega þurft að vera þar.

Við hönnuðum þennan rétt eftir að hafa fengið gríðargóðan pastarétt í München fyrir um 19 árum. Í honum voru ólífur og túnfiskur og rjómi, reyndar enginn ostur. Bættum honum sjálf inn. Þetta er í miklu uppáhaldi hér á bæ:

500 g spakettí

1 dós af túnfiski í olíu
2-3 hvítlauksrif
10-15 grænar ólífur skornar í tvennt
góður biti af gulum osti að eigin vali (brauðostur virkar fínt), kannski svona 200 g
1 peli rjómi
örlítið af sósuþykkjara

Sjóðið spakettíið eftir leiðbeiningum á pakka

Á meðan, skerið ostinn í mola, hellið olíunni af túnfiskinum í pott. Saxið hvítlaukinn eða kreistið og steikið smástund. Bræðið ostinn í hvítlauksolíunni við fremur vægan hita. Setjið ólífur út í. Hellið rjómanum saman við í skömmtum og hrærið hverjum skammti saman við ostinn til að hann fari ekki í kekki. Nauðsynlegt getur verið að jafna sósuna með smá sósuþykkjara.

Þegar pastað er soðið, hellið af því og blandið túnfiskinum saman við. Sósunni er síðan hellt yfir og blandað saman.

Með þessu má bera nýrifinn parmaost ef vill, en okkur finnst það reyndar ekki bæta réttinn sérstaklega.